Þingmenn komu saman í kvöldverðarboð á Reykjavík Natura á miðvikudag í fyrsta sinn síðan heimsfaraldur Covid-19 skall á. Veislan hefur verið haldin árlega en þurfti að þola frestun líkt og margt annað í samfélaginu. Hún fór fram í skugga talsverðra átaka bæði innan og utan ríkisstjórnarinnar vegna annars viðburðar sem líka hafði verið frestað vegna Covid: brottvísunar um 300 einstaklinga sem leitað höfðu hælis á Íslandi.
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa haldið uppi háværum mótmælum vegna ákvörðunar Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Óvænt steig annar ráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, fram og sagði kollega sinn hafa farið með rangt mál þegar hann sagði samstöðu innan ríkisstjórnarinnar um brottvísanirnar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og samflokkskona Guðmundar Inga í Vinstri grænum, útskýrði það svo síðar að skiptar skoðanir væru á málinu innan stjórnarinnar.
Svo virðist sem skuggi hafi ekki fallið á gleðskapinn þrátt fyrir þessi átök þar sem þingmenn og makar, auk forseta Íslands, gæddu sér á mat sem var bæði nýstárlegur og þjóðlegur.
Athugasemdir