Fullyrðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur um að náðst hafa samkomulag um hópuppsögn allra starfsmanna skrifstofu Eflingar stéttarfélags eru rangar að því er trúnaðarmenn á vinnustaðnum segja. Sólveig Anna sjálf sat ekki fundi með trúnaðarmönnum heldur aðeins lögmaður stjórnar Eflingar.
Í tilkynningu sem trúnaðarmenn á skrifstofu Eflingar hafa sent frá sér kemur fram að þeir hafi 11. og 12. apríl fundað með lögmanni stjórnar Eflingar í því skyni að reyna að forðast hópuppsögn eða fækka þeim starfsmönnum sem fyrir uppsögnum yrðu, en tilkynnt hafði verið áður að meirihluti stjórnar Eflingar hyggðist segja upp öllum starfsmönnum skrifstofunnar.
„Fullyrðingar Sólveigar Önnu að það hafi náðst samkomulag um framkvæmd hópuppsagnar er með öllu röng, sem hún hefði vitað hefði hún setið fundina“
Á þeim fundum hafi trúnaðarmenn, Alma Pálmadóttir trúnaðarmaður Eflingar, og Gabríel Benjamin, trúnaðarmaður VR, að eigin sögn mætt með opnum huga til að reyna að komast hjá hópuppsögnunum eða í það minnsta milda þær, enda krefjist yfirlýst markmið stjórnarinnar þeirra ekki.
„Við getum ekki sagt að um samráð hafi verið um að ræða í skilningi laga um hópuppsagnir, engin vilji var til breytinga eða mildunar á hópuppsögn heldur einhliða ákvörðun sem er röng, óskynsamleg og með öllu ónauðsynleg. Gefnar voru upp ástæður sem fólust í breytingum á ráðningarkjörum og til að uppfylla skilyrði varðandi jafnaunavottun. Þessar ástæður eru ekki byggðar á rökum og halda engu vatni.
Fullyrðingar Sólveigar Önnu að það hafi náðst samkomulag um framkvæmd hópuppsagnar er með öllu röng, sem hún hefði vitað hefði hún setið fundina.“
Þegar trúnaðarmönnum hafi orðið ljóst að hvorki yrði hægt að koma í veg fyrir uppsagnirnar né að milda þær hafi orðið að samkomulagi milli þeirra og lögmanns stjórnarinnar að segja fram bókun þar sem trúnaðarmenn andmæltu hópuppsögninni. Þau hafi hins vegar fallist á að gera samkomulag um fjögur atriði er lúti að uppsögnunum. Bókunin hafi verið trúnaðarmál en með því að Sólveig Anna hafi rofið þann trúnað telji trúnaðarmenn sig ekki lengur bundin þeim trúnaði.
Uppfært:
Sólveig Anna hefur á Facebook-síðu sinni birt færslu þar sem hún andmælir yfirlýsingu trúnaðarmanna Eflingar. Segir hún þar að rangt sé að haft eftir trúnaðarmönnum að ekkert samráð hafi verið haft við þá og að samkomulag hafi ekki verið gert og vísar í bókun þá sem trúnaðarmenn og lögfræðingur stjórnar Eflingar undirrituðu.
„Eins og öll geta séð hér þá fór samráð fram með lögmætum hætti og komist var að undirrituðu samkomulagi um ákveðin atriði skipulagsbreytinga. Samkomulag náðist vissulega ekki um að hætta við breytingarnar og aðilar voru ekki sammála um ástæður og forsendur, en samkomulag náðist svo sannarlega um aukin réttindi starfsfólks á uppsagnarfresti eins og hvert mannsbarn getur séð af lestri bókunarinnar. Þessi bókun var aldrei neitt trúnaðarmál, og er það ekki frekar en annað í sambandi við þetta mál sem viðkomandi og óviðkomandi aðilar hafa gasprað um stanslaust í fjölmiðlum síðustu sólarhringa,“ skrifar Sólveig Anna.
Ljóst er að trúnaðarmennirnir og Sólveig Anna leggja ekki sama skilning í umrædda bókun, trúnaðarmenn segja ekki hafa náðst samkomulag þó samið hafi verið um fjögur atriði sérstaklega, en Sólveig Anna segir að samkomulag hafi náðst og vísar þar til umræddra fjögurra atriða þó ekki hafi náðst samkomulag um að hætta við uppsagnirnar.
Þá greinir trúnaðarmenn og Sólveigu Önnu á um hvort umrædd bókun hafi verið trúnaðarmál. Í yfirlýsingu trúnaðarmanna segir að samkvæmt lögmanni stjórnar Eflingar sé bókunin „ekki lengur trúnaðarmál“ á meðan að Sólveig Anna segir að „þessi bókun var aldrei neitt trúnaðarmál“. Umrædda bókun má sjá hér að neðan.
Þetta gagg í þeim er jafn árangursríkt. Þau halda bæði að þau stjórni einhverju innan félagsins, en svo er ekki.
Finnst formanni verkalyðsfelags alveg i lagi ef félagsmenn þeirra eru úthrópaðir a samfélagsmiðlum?