Bandaríkin eiga nú í harðri samkeppni við önnur stórveldi sérstaklega Rússland í Evrópu og Kína í Asíu. Rússland er hnignandi stórveldi og mun líklega koma laskað út úr stríðinu í Úkraínu. Öðru máli gegnir með Kína sem er vaxandi stórveldi. Í Bandaríkjunum virðist skorta langtímastefnu um hvernig bregðast eigi við vexti Kína og hlutfallslegri hnignun Bandaríkjanna sem stórveldis. Þegar Bretton Woods ráðstefnan var haldinn við lok seinni heimstyrjaldarinnar voru Bandaríkin í ráðandi stöðu, með um 40% að vergri landsframleiðslu heimsins. Í dag er þetta hlutfall innan við 20% af vergi landsframleiðsla á jafnvirðisgengi (e. GDP PPP). Hagkerfi sem er innanvið 20% af hagkerfi heimsins getur ekki gengt sama hlutverki í heiminum og hagkerfi sem er um 40%. Evrópa verður að átta sig á þessu. Haldi Kína áfram að vaxa og nái svipaðri vergri landsframleiðslu á mann og í Suður Kóreu eða Singapúr, verður Kína tvisvar til fjórum sinnum stærra hagkerfi en Bandaríkin. Fyrr eða síðar mun þessi efnahagsstyrkur Kína breytast í hernaðarstyrk. Fyrr eða síðar verður honum svo beitt, í hernaði, eða til að knýja fram hagstæða samninga fyrir Kína.
Rússlandi í NATO?
Í grein í Guardian er vitnað í frásögn George Robertson fyrrum framkvæmdastjóra NATO af fundi með Pútin, sem var ný orðinn forseti Rússlands. „Pútín spurði: „Hvenær ætlarðu að bjóða okkur að ganga í NATO?“ Og Robertson svaraði: „Við bjóðum ekki löndum að ganga í NATO, þau sækja um að ganga í NATO.“ Og Pútin svaraði: „Við stöndum ekki í biðröð með löndum sem skipta engu máli.“ Og Rússland sótti ekki um NATO.
Hefði Rússland gengið í NATO væru landamæri varnarbandalagins kominn að Kína sem væri þá orðinn helsta ógn bandalagsins, ekki Sovétríkin sem féllu 1991 eða Rússland nú. Í skýrslu NATO sem ber titilinn „NATO 2030: United for a New Era“ er Rússlandi og Kína hvað eftir annað spyrt saman sem ógn við NATO og lýðræðisríki NATO. Í skýrslunni er einnig sagt „Kína er ... best skilið sem keppinautur í hinu alþjóðlega kerfi, frekar en eingöngu efnahagslegur aðili sem einungis leggur áherslu á öryggi Asíu.“ Í stuttu máli. Kína er alheimsógn. Í þessu samhengi má minn á orð Joseph Nye prófessors við Harvard sem sagði: „Ef þú kemur fram við Kína sem óvin, verður Kína óvinur.“ Hér vaknar spurning hvort það þjóni hagsmunum Evrópu að verða óvinur Kína?
Ólíkir hagsmunir Bandaríkjanna og ESB og klofningur innan Evrópu
Bandaríkin eru ráðandi í NATO og hafa mest um það að segja hvað er á dagskrá hjá NATO. Baráttan við hryðjuverk er löngu kominn á dagskrá NATO og réttlætti meðal annars þátttöku NATO í stríðinu í Afganistan. Orkumál sem eru mikið hagsmunamál fyrir Evrópu virðast ekki hafa fengið sama forgang enda nota Rússar nú gas sem vopn og Evrópa er algerlega berskjölduð og á engin svör við. Stækkun NATO til austurs virðist fyrst og fremst vera áhugamál Bandaríkjanna, og Evrópa eltir.
Bandaríkin hafa hendur sínar að verja í Asíu. Kína vill losna við Bandaríkin þaðan. Evrópa hefur hinsvegar fyrst og fremst hagsmuni af að hagnast á utanríkisviðskiptum við Kína. Það hefur reynst erfitt fyrir Bandaríkin að vera í deilum við Kína, átökum við Rússa og með stirt samband við Þýskaland, allt á sama tíma. Þýskaland hefur hinsvegar gott samband við Kína með miklum utanríkisviðskipum og veitir Kína líka rausnarlega þróunaraðstoð. Þýskaland vill líka eiga í miklum viðskiptum við Rússland sem Nord Stream 2 leiðslan sýnir. Eystrasaltsríkin og Pólland vilja ólm hleypa Úkraínu í ESB en Þjóðverjar og sumar ríkari þjóðir ESB ekki. Eystrasaltsríkin munu tapa styrkjum komi Úkraína í Evrópusambandið en ríkari ESB löndin hvorki vilja né telja sig geta fjármagnað þá uppbyggingu sem fram undan er ekki síst eftir eyðileggingu þeirrar styrjaldar sem nú geysar þar.
En getur Evrópa þá treyst á Bandaríkin í öryggismálum í framtíðinni?
Í grein í New York Times er vitnað í George Kennan reyndan Bandarískan diplómat sem meðal annars hafði verið sendiherra Bandaríkjanna í Sovétríkjunum. Um stækkun NATO sagði hann meðal annars: „Við höfum samþykkt að vernda fjölda landa, jafnvel þó við höfum hvorki fjármagn né ásetning til að gera það á einhvern alvarlegan hátt. [Stækkun NATO] var einfaldlega léttvæg aðgerð öldungadeildar Bandaríkjaþings sem hefur engan raunverulegan áhuga á utanríkismálum.“ Nú eru öll fyrrum leppríki (e. satellite states) Sovétríkjanna sem voru í Varsjárbandalaginu komin í NATO. Spurningin er nú með fyrrum Sovétlýðveldin sem voru 15 talsins. Af þeim eru Eystrasaltsríkin komin í NATO og næst áttu Georgía og Úkraína að fara inn. Hvað með hin ríkin 10. Eiga þau öll, nema Rússland, að ganga í NATO og treysta á vernd Bandaríkjanna?
Bandaríkin munu að öllum líkindum í framtíðinni hvorki geta né vilja veita allri Evrópu þá vernd sem svokallað Article 5 guarantee NATO mælir um (þ.e. hugmyndin um að ef ráðist yrði á eitt NATO-ríki myndu hin koma því til hjálpar). Bandaríkin munu reyna að verja lönd sem þau hafa sjálf beina hagsmuni af að verja en beita viðskiptaþvingunum fyrir hin sem við vitum að reynslunni að skila litlum árangri. Article 5 guarantee gæti haft þýðingu fyrir Íslandi vegna hagsmuna Bandaríkjanna sjálfra. Ísland er mitt á milli Evrópu og Norður Ameríku, nær Bandaríkjunum en önnur NATO ríki á meginlandi Evrópu, auk þess sem siglingaleiðir í kringum Ísland eru mikilvægar hernaðarlega. Öðru máli gegnir um t.d. Eystrasaltsríkin sem eru fjær Bandaríkjunum og skipta Bandaríkin efnahags- og hernaðarlega litlu máli. Í þessu samhengi má minna á orð fyrrverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Newt Gingrich í viðtali við CBS „Eistland er í úthverfi Sankti Pétursborgar ... Ég er ekki viss um að ég myndi hætta á kjarnorkustríð vegna einhvers staðar sem er úthverfi St. Pétursborgar.“ Það er allsendis óvíst að öll Evrópa geti treyst á Bandaríkin í öryggismálum í framtíðinni, ekki einu sinni öll NATO ríki.
Hilmar Þór Hilmarsson er prófessor við Háskólann á Akureyri. Hann starfaði fyrir Alþjóðabankann um 12 ára skeið þar á meðal sem stjórnandi og sérfræðingur á skrifstofu Alþjóðabankans í Ríga Lettlandi og í Hanoi Víetnam.
Athugasemdir (4)