Guðrún Helgadóttir rithöfundur lést á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík í nótt. Guðrún var fædd í Hafnarfirði 7. september árið 1935 og var því 86 ára gömul. Guðrún starfaði í stjórnmálum, sat á Alþingi og í borgarstjórn.
Hennar er minnst fyrir baráttu sína fyrir bættum mannréttindum. Þá var vellíðan barna henni alla tíð afar hugleikin og hún skrifaði fjölda barnabóka.
Fyrsta bók Guðrúnar kom út árið 1974. Það var bókin um bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Bækurnar um bræðurna urðu þrjár talsins. En auk þeirra skrifaði Guðrún meðal annars bækurnar Sitji guðs englar, Óvitar og bókina um Pál Vilhjálmsson sem síðar varð sjónvarpsstjarna á Íslandi.
Á vefsíðu Rithöfundasambands Íslands er Guðrúnar minnst í dag. Þar segir að hún hafi hlotið fjölda verðlauna fyrir skrif sín, allt frá því hún fékk barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir frumraun sína Jón Odd og Jón Bjarna 1975 þar til hún fékk Sögusteininn, heiðursverðlaun íslandsdeildar IBBY (The International Board on Books for Young People) árið 2018 en aðalmarkmið samtakanna er að stuðla að eflingu íslenskra barnabóka. Í millitíðinni hafi Guðrún fengið Menningarverðlaun DV, bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina Undan illgresinu. Guðrún var gerð heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 2002. Þá hlaut Guðrún stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1992.
„Fyrst af öllu verður barn að finna að það er elskað“
Skömmu eftir að Guðrún fékk Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY árið 2018 ræddi Hólmfríður Helga Sigurðardóttir við hana fyrir Stundina. Þar sagði Guðrún frá því að hún hefði byrjað að skrifa barnabækur þar sem henni ofbauð það sem börnum hefði verið boðið upp á. Barnabækur hafi verið illa þýddar og myndskreyttar. Síðan hafi orðið bylting sem rekja mætti til áttunda áratugarins þegar fleiri bókasafnsfræðingar og bókmenntafræðingar hafi komið til starfa. Nefnir Guðrún Silju Aðalsteinsdóttur sérstaklega í því sambandi, segir að Silja hafi vandað sig við að tala um barnabækur enda gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra.
„Ég segi það stundum, þegar fólk er að býsnast yfir velgengni minni, að ég hafi verið eins og Bítlarnir, manneskja á réttum stað á réttum tíma. Ég var svo heppin að detta inn í þessa bylgju,“ sagði Guðrún í viðtalinu í Stundinni árið 2018 og bætti við að það gæti verið að henni hafi tekist að skrifa skemmtilegar bækur sem bæði fullorðnir og börn höfðu gaman af.
Á þessum tíma var Guðrún enn að skrifa, þó minna en áður að eigin sögn „Ég var svo óheppin að ég fór að verða svolítið lasin, hafandi verið heilsubelgur allt lífið. Það veldur því að ég hef gert minna af því,“ sagði hún en baðst undan því að ræða veikindi sín frekar „Við skulum ekki tala um heilsu, í guðs bænum,“ sagði Guðrún.
Verið góð við börn
Varðandi barnauppeldi sagðist Guðrún hafa eitt ráð til fólks og það hafi hún kennt sínum börnum og barnabörnum „Það er að vera góð við þau. Ég kann enga uppeldisaðferð betri. Það getur verið dálítill vandi á köflum en fyrst af öllu verður barn að finna að það er elskað. Það skiptir bara akkúrat öllu máli,“ sagði Guðrún og bætti við að ein leið til að vera góð við börn sé að lesa fyrir þau. „Ég er sannfærð um það að barn verði ekki hamingjusamara í annan tíma en þegar það situr á volgu læri mömmu og pabba, ömmu, afa eða systkina, hlustar á sögu og skoðar kannski í leiðinni myndirnar. Það eru virkilega sælustundir fyrir alla,“ sagði Guðrún.
Þá sagðist hún vonast til þess að bækur hennar hafi og muni áfram hjálpa börnum við að opna augun og sjá lífið í kringum sig. „Við fullorðna fólkið eigum að kenna börnum að horfa á blómin, fjöllin, landið. Það gefur mikla hamingju að læra það. Öll fegurð gefur manni hamingju. Það þarf líka að opna huga þeirra fyrir umhverfinu, að kenna þeim til dæmis að hirða um hvernig félaganum líður. Þeir Jón Oddur og Jón Bjarni komust að því einhvers staðar í bókinni að það borgaði sig að vera góður. Ef börn eru opin fyrir lífinu, landinu, tungumálinu, þá held ég að þau verði afskaplega hamingjusöm.“
„Við fullorðna fólkið eigum að kenna börnum að horfa á blómin, fjöllin, landið“
Þann 19. júní árið 2015 á 100 ára kosningaafmæli kvenna var nokkrum konum gefinn kostur á því í Stundinni að minnast kvenna sem hafa verið þeim fyrirmyndir og veitt þeim innblástur. Guðrún Helgadóttir var ein þeirra sem rætt var við. Hún fagnaði deginum og sagði hann minna okkur á kærkomin réttindi kvenna en sagði að baráttan fyrir jöfnum réttindum væri hvergi nærri lokið. „Við þurfum að halda áfram að vinna að sameiginlegum réttindum manna – kvenna sem og karla, og leiðrétta muninn á ríkum og fátækum. Það er mikið eftir ógert,“ sagði Guðrún Helgadóttir í Stundinni daginn sem 100 ár voru liðin frá því að konur fjörutíu ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Athugasemdir (1)