„Ég held að það skipti verulegu máli að SA sjái að stjórnvöld taki tillögur þeirra til gaumgæfilegrar skoðunar svo traust geti ríkt á milli,“ segir í tölvupósti sem Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sendi til samstarfsfólks síns í lok maí 2019 og boðaði um leið að ráðuneytið færi í að breyta lögum. Páll Þórhallsson, annar lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, svaraði um hæl:
„Samþykkt.“
Tilefnið var sérstakt. Alþingi var þarna í miðjum klíðum að breyta upplýsingalögum. Að gera á þeim löngu tímabærar breytingar, hvers markmið var að stytta málshraða, setja vissar skyldur um frumkvæði hins opinbera til birtingar og bæta rétt almennings til upplýsinga. Í meðförum Alþingis höfðu Samtök atvinnulífsins, eins og fjöldi annarra, sent inn umsögn vegna þessarar fyrirhuguðu lagasetningar. Meðal þess sem SA hafði fett fingur út í voru atriði sem ekki var verið að fjalla um í frumvarpinu.
Það varð svo að lögum um miðjan júní 2019 og var kynnt af forsætisráðherra sem liður í því að koma Íslandi í fremstu röð ríkja á sviði opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu.
Ráðherrann minntist hins vegar ekki á að forsætisráðuneytið var á þessum sama tíma komið á fullt í það að ætla að breyta lögunum – aftur. Allt vegna þess að Samtök atvinnulífsins höfðu sent Alþingi umsögn. Það þurfti ekki meira til en svo, til að ræsa út heilt forsætisráðuneyti.
Vegna þess að á milli þess og Samtaka atvinnulífsins þarf að ríkja traust.
Forsætisráðuneytið var langt komið með nýtt frumvarp þegar það fyrra var samþykkt í júní 2019. Efni nýs frumvarps var kynnt ráðuneytisstjórum stjórnarráðsins nokkrum dögum síðar. Síðan var hafist handa við að skrifa nýja frumvarpið. Eftir forskrift SA.
Og eins og það hefði ekki verði nóg, sendi nú Egill Pétursson, enn einn lögfræðingurinn í forsætisráðuneytinu, sérstakt bréf til kollega síns, Davíðs Þorlákssonar hjá Samtökum atvinnulífsins:
„... vill forsætisráðuneytið hér með gefa samtökunum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna áformanna. Þá er sjálfsagt að koma á fundi til að kynna samtökunum áformin og eftir atvikum ræða athugasemdir vegna þeirra.
Verðum í sambandi og bestu kveðjur, Egill“
Þegar þarna var komið sögu hafði frumvarpið ekki verið kynnt í ríkisstjórn. Það þurfti fyrst að kynna það Samtökum atvinnulífsins á fundi. Já, og leyfa SA að gera við það athugasemdir.
Fyrir ríkisstjórn fór það ekki fyrr en síðar. Og fyrir augu okkar hinna, í svokallaða samráðsgátt stjórnvalda – rúmu hálfu ári síðar.
Þá fyrst fengum við að sjá hvað lögfræðingarnir í forsætisráðuneytinu voru að gera á meðan forsætisráðherra var að skipa okkur í fremstu röð.
Málsmeðferðartíminn sem forsætisráðherra hafði talað um að ætti loksins að stytta. Sú margra vikna og jafnvel mánaða bið eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skæri úr um réttmæti hins venjubundna nei-s íslenskrar stjórnsýslu, sem nú átti að eyða, var nú tekið til við að lengja.
Hennar eigin embættismenn höfðu setið við og gert hvað þeir gátu til að lengja hann, á sama tíma. Fyrir Samtök atvinnulífsins.
Það þarf að ríkja traust.
Tillaga SA, sem sett var fram á bréfsefni forsætisráðuneytisins, snerist um það að veita því sem kallað er „þriðji aðili“ neitunarvald yfir því hvort upplýsingar yrðu opinberaðar. Og rétt þriðja aðila til að tefja birtingu upplýsinga, meðan hann léti svo reyna á það ef neituninni yrði synjað.
(Hér er rétt að taka fram að þegar Samtök atvinnulífsins tala um aðila, eða einkaaðila, er minna verið að vísa í Jóa á lagernum í Kassagerðinni. Meira í Kassagerðina)
SA hafði að vísu viljað ganga lengra. Að ríkið rukkaði fyrir upplýsingagjöf. Eins að gera það að skyldu að upplýsa um tilgang upplýsingabeiðna. SA sagði þetta nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að menn nýttu upplýsingarnar með ólögmætum hætti. Hvort það var vegna „skorts á vantrausti“ eða bara að forsætisráðuneytið var SA ósammála, var hitt látið duga.
Hvernig voru svo tillögur SA kynntar af forsætisráðuneytinu? Jú, svona:
„Breytingarnar eru í samræmi við sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis sem kveður á um að ríkisstjórnin leggi áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi.“
Hvernig svo sem frumvarpið samrýmdist sáttmála ríkisstjórnarinnar, var ljóst að fáir aðrir töldu það samrýmast „opinni stjórnsýslu“ eða „gagnsæi“.
Fagfélög blaðamanna lögðust alfarið gegn frumvarpinu og það gerði Siðfræðistofnun Háskóla Íslands einnig með þeim augljósu rökum að yrði það að lögum yrði stigið skref í þveröfuga átt við það sem frumvarpinu var ætlað; eða í það minnsta það sem fullyrt var að það myndi gera.
Ein umsögn við frumvarpið – auk hinnar hörðu opinberu gagnrýni sem strax kom fram – varð þó til þess að gera endanlega úti um að hægt væri að fórna upplýsingarétti almennings fyrir gott veður Samtaka atvinnulífsins.
Sú umsögn kom frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Sú nefnd heyrir beinlínis undir forsætisráðuneytið og hefur það hlutverk eitt að úrskurða um aðgengi að upplýsingum, samkvæmt upplýsingalögum. Það var þó fyrst þarna sem úrskurðarnefndin var kölluð að borðinu.
„Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum“
Og svo það sé alveg á hreinu: Samtök atvinnulífsins, eða félagsmenn hennar, eru sjaldnast aðilar að málum sem snúast um aðgengi að upplýsingum hins opinbera. Upplýsingar geta vel innihaldið einhverja félagsmenn SA, eða gögn um samskipti við þá, eins og vísað er til í þessum skrifum. En að öðru leyti hafa samtökin enga aðkomu að því þegar almenningur óskar eftir upplýsingum úr stjórnsýslunni.
Úrskurðarnefndin hefur það.
Skemmst er frá því að segja að úrskurðarnefndin skilaði umsögn sem gerði Alþingi ómögulegt að uppfylla þarfir forsætisráðuneytisins. Nefndin sagði ljóst að framkvæmd upplýsingalaganna yrði „bæði flóknari og óskilvirkari“ með breytingunni. Einboðið yrði að verði frumvarpið að lögum muni það valda enn tíðari og lengri töfum á afgreiðslu erinda á grundvelli upplýsingalaga.
Fullyrðingar sem komið höfðu fram um að í frumvarpinu væri verið að tryggja að upplýsingalög stönguðust ekki á við lög um persónuvernd, voru sömuleiðis hraktar.
Úrskurðarnefndin sá sérstaka ástæðu til að árétta að „sambærileg ákvæði um aðkomu þriðja aðila að málsmeðferð stjórnvalds, eins og frumvarpið felur í sér, eru ekki í norrænni löggjöf um upplýsingarétt almennings“.
Degi eftir að þessi umsögn úrskurðarnefndarinnar birtist var frumvarpið dregið til baka. Eðlilega.
Sú mynd sem birtist af baksviði þessarar furðulegu frumvarpsgerðar, og opinberast hér í krafti upplýsingalaga, ber ekki íslenskri stjórnsýslu gæfulegt vitni.
En ætti þó ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með íslenskri samfélagsumræðu. Í landi þar sem lobbíistar hafa lyklavöld í ráðuneytum og stjórnmálamenn eru skammaðir fyrir það opinberlega að fylgja ekki skipunum lobbíista, þvert á hagsmuni fjöldans, er þetta líkast til eins og hver annar dagur í Stjórnarráðinu.
„Það gengur bara betur næst“, var kannski viðkvæðið í þetta skiptið.
„Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá,“ sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands, í viðtali við Stundina fyrir tæpu ári. Hann ræddi þá meðal annars dæmalausa aðför að starfsmönnum Seðlabankans, sem ekki síst var háð í gegnum pólitískt skipaða fulltrúa í bankaráði bankans með liðsinni stjórnmálamanna. Hann bætti svo við:
„Íslendingar hafa aldrei vanist því að þurfa að taka tillit til heildarhagsmuna og þeir eiga mjög erfitt með að breyta því.“
Um allt land kinkaði fólk kolli yfir þessum orðum Ásgeirs. Og í huga fæstra voru þau mikil tíðindi í sjálfu sér. Miklu heldur hver það var sem mælti þau. Og í hvaða samhengi.
Sums staðar var þetta þó ekki svona skýrt.
„Hefði ég verið blaðamaður hefði ég beðið seðlabankastjórann um dæmi, ég verð nú að viðurkenna að ég hefði kosið að hann færi yfir það hvað hann nákvæmlega ætti við með þessu,“ var spurt í ræðustól Alþingis. Og svo orðið sé við ákalli ræðumannsins um dæmi:
Þú finnur þau til dæmis hér, Katrín.
Athugasemdir (1)