„Við erum búnir að vera strand hér í fjóra daga, það er eins og Slóvakarnir viti ekki hvað eigi að gera við okkur,“ segir Mohamed, sem tiltekur að hann sé „ekki Salah“. Mohamed er íraskur lyfjafræðinemi sem var í námi í Kharkiv, annarri stærstu borg Úkraínu, sem liggur nærri rússnesku landamærunum. Nokkur þúsund nemendur frá löndum utan Evrópu stunduðu háskólanám í Úkraínu, og flestir fara að landamærum Slóvakíu. „Okkur var ráðlagt að fara hingað yfir, þó það væri lengra, okkur var sagt að Slóvakarnir taki betur á móti fólki eins og okkur, sem erum ekki frá Evrópu, en Pólverjarnir.“
Hann og félagi hans, læknanemi sem er líka frá Írak, voru fjóra daga í yfirfullri lest til Slóvakíu. „Þó ég sé uppalinn við stríðsástand heima í Írak þá er þetta miklu verra, Rússarnir eru svo grimmir. Morguninn sem við fórum, þá skutu þeir á rútu með almennum borgurum, á leið út úr Kharkiv. Svo við ákváðum að taka lest, það er öruggara.“ Mohamed segir að hann eigi ekki aura til að komast heim, hann viti ekki hvort honum verði hjálpað, eða verði fastur í flóttamannabúðum í lengri tíma. „Það versta við að vera hér í þessum litlu tjaldbúðum er smábarnagráturinn alla nóttina í næsta tjaldi. Það sker í hjartað, heldur fyrir manni vöku.“
Athugasemdir