Í heiminum eru fleiri farsímatengingar en manneskjur, Facebook-notendur eru fleiri en samanlagður fjöldi íbúa Evrópu, Afríku, Suður- og Norður-Ameríku og í ágúst hlóðu 63 milljónir manna niður TikTok. Fólk þráir tengsl við annað fólk og umhverfi sitt.
Fólk þráir ekki aðeins tengsl, það þarf á þeim að halda. Í nánast öllu efni sem birt er um betra og lengra líf, er sýnt fram á jákvæð áhrif tengsla á andlega og líkamlega heilsu. Í leiðbeiningum frá Embætti landlæknis að vellíðan segir til dæmis: Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, ræktaðu tengslin, líttu á þau sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þessum tengslum, sem styrkja þig og auðga líf þitt.
Sem skýrir kannski af hverju notkun á stefnumótasmáforritum hefur stóraukist í heimsfaraldrinum, samhliða aukinni notkun á smáforritum sem styðja við andlega og líkamlega heilsu. Fólk sækir það sem þarf í símana. Meiri tíma, peningum og orku er varið í farsímanotkun en sjónvarpsáhorf, þar sem hægt er að innbyrða meira efni og hraðar en nokkru sinni fyrr. Enda hefur því verið lýst hvernig athyglisgáfu okkar hefur verið rænt. Þú veist það, þú finnur það. Og fram undan er nýr veruleiki, ný útgáfa af internetinu, þar sem „þú munt lifa, vinna og hanga“ í Metaverse. Nú þegar ver fólk hátt í þriðjungi vökustunda sinna í símanum, stundum meira. Í frétt RÚV um farsímanotkun háskólanema kom í ljós að meðaltíminn sem viðmælendur vörðu í símanum var svo miklu meiri en þeir héldu, ein sagðist halda að hún verði níu tímum á viku í símanum en komst að því að hún hékk í símanum að meðaltali í sjö tíma á dag, sem gera 49 tíma á viku en ekki níu eins og hún hélt. Annar var spurður hvort upplýsingarnar myndu breyta hegðuninni en svaraði hreint út: „Nei, maður er eitthvað svo háður þessu. Af augljósum ástæðum.“
Fólk þráir tengsl en sækir í læk eða viðurkenningu, um leið og það hverfur sífellt lengra inn í heim sem það hefur skapað sér í símanum. Stundir sem gætu orðið gæðastundir fara forgörðum vegna þess að fólk týnir tímanum á meðan það hangir í símanum. Skjárinn hefur orðið að enn einu neyslumynstrinu sem deyfir. Í leit að tengslum missir fólk samband við það sem skiptir raunverulega máli, snertinguna við annað fólk og umhverfið.
Hið þögla tóm
Áður þurfti fólk allavega að fara út í búð og brosa til náungans. Nú er nóg að opna símann. Þar getur þú fundið hvað sem er, hvenær sem er, allt nema snertinguna. Það er alveg sama hvað þú sérð margar myndir af Öskju á samfélagsmiðlum, þú munt aldrei upplifa það sem heimspekingurinn Páll Skúlason orðaði svo vel: „Þegar ég kom til Öskju gekk ég inn í sjálfstæða veröld, Öskjuheim, sem er ein skýrt afmörkuð heild sem spannar allt og fyllir hugann svo maður hefur á tilfinningunni að hafa numið veruleikann allan í fortíð, nútíð og framtíð. Handan sjóndeildarhringsins er hin ókunna eilífð, hið mikla, þögla tóm. Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfann. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loks um hvað lífið snýst.“
Í skrifum sínum velti Páll því upp hvernig það gerðist að svo alvarlegur brestur myndaðist í tengslum manns og náttúru, að náttúran hætti að vera til fyrir okkur sem sjálfstæð heild sem lýtur eigin undursamlegu lögmálum. Hvað gerði það að verkum að athygli okkar beindist að sköpunargáfunni, fræðilegri og tæknilegri byggingarstarfsemi, í stað þess að maðurinn þróaði með sér samúðargáfuna sem áreiðanlegan grundvöll andlegs skilnings á náttúrunni. Lýsti hann því sem harmleik síns tíma hvernig tæknilegri iðnbyltingu væri beitt á vopni, þar sem fólk væri enn á valdi þeirrar hugsunar að drottna yfir náttúrunni og nýta auðlindir hennar í framleiðslu. Á meðan hafi andleg og vitræn bönd sem þarf að mynda við náttúruna verið vanrækt. Tómhyggjan sem einkenni siðmenningu samtíma okkar sé eðlileg afleiðing slíkrar vanrækslu. Hliðarverkanir tómhyggjunnar birtast í skorti á trausti, heilindum og trúnaði, því fólk skortir þekkingu á sjálfu sér og því hvernig hægt er að tengjast náttúrulegum veruleika, félagslegum veruleika og veruleika eigin hugsunar. Þroski manns sem siðferðisveru felist í því að læra að treysta sjálfum sér og öðrum, sem og að sýna kröftum náttúrunnar virðingu því án þeirra værum við ekki til.
Upplýsingar sem vopn
Það er því langt síðan þessi tengsl rofnuðu, það þurfti ekki snjallsíma til. Eins og iðnvæðingunni var beitt til að temja náttúruna er netvæðingunni nú beitt til að hafa áhrif á fólk. Nánast allar athafnir daglegs lífs eru skráðar í gagnagrunna, sem geyma persónulegar upplýsingar um þig, hegðun þína og virkni. Fólk flettir upp veðrinu og verðinu á netinu og Netflix veit ekki aðeins hvað þú horfir á heldur einnig hvenær þú misstir þolinmæðina, sem hefur síðan áhrif á framleiðsluna. Nánast meðvitundarlausir samþykkja langflestir slíka gagnaöflun, án þess að velta fyrir sér hvernig þessum upplýsingum er beitt til að hafa áhrif á skoðanir þeirra, athafnir og langanir. Áður reyndu fyrirtæki að selja viðskiptavinum hugmyndir um hvað þeir vildu eða gætu orðið, en nú er fylgst með hegðun þeirra svo hægt sé að senda réttu skilaboðin, á réttum stað og tíma, til að hámarka líkurnar á að þeir láti undan.
Stundum er talað um tvö kerfi sem stjórna ákvörðunartöku. Annars vegar séu ákvarðanir teknar hratt og örugglega, eins og þegar fólk fer í matvörubúð, kaupir kannski 40 vörur á 20 mínútum og valið byggir á því hvort þeim líkar við vöruna eða ekki. Hins vegar beiti fólk stundum dýpri hugsun og leggi vinnu í að meta kosti og galla ákvarðana. Prófessor í Yale bendir á að það séu ekki endilega betri ákvarðanir, því fólk stjórnast minna af rökhugsun og meira af tilfinningum en það vill viðurkenna. Fólk sem skoðar bíl á blíðviðrisdögum er líklegra til að fjárfesta heldur en ef það skoðar bíl í rigningu, þótt bíllinn eigi að reynast vel í öllum veðrum. Meira að segja þótt fólk gefi margvíslegar ástæður fyrir ákvörðunum, hefur það almennt ekki góða innsýn í hvað liggur að baki þeim, segir prófessorinn.
Nammið er við kassann en ekki innganginn vegna þess að við erum miklu líklegri til að kaupa það þegar við erum orðin þreytt, eins og við verðum eftir 40 ákvarðanir á 20 mínútum. Fólk afþakkar frekar kökusneið að morgni, þegar hugurinn er úthvíldur, en eftir annasaman vinnudag. Alveg eins og það velur frekar heilalausa gamanmynd heldur en eitthvað vitrænt, listrænt og flókið sjónvarpsefni þegar það er þreytt. Allt er þetta þekkt og notað til að auka neyslu fólks. Þegar fólk áttar sig á því hvernig stöðug gagnasöfnun, hegðunarsálfræði og markaðssetning er markvisst notuð sem vopn til að ná til þess, verður skiljanlegra hvers vegna það kaupir eitthvað sem það hvorki þarf né vill. Sem er staðreynd, megnið af því sem fólk kaupir er óþarfi.
Þrátt fyrir að fólk viti almennt að fram undan eru óafturkræfar breytingar á loftslagi jarðar sem valda hamförum, nema við bregðumst við með afgerandi hætti. Nú er það jafnvel orðið of seint, staðan snýst um að lágmarka skaðann. Undirbúningur viðbragða vegna afleiðinga hlýnunar jarðar er hafinn hér á landi.
Gjaldið sem við greiðum
Kannski er of erfitt að ná utan um og tengja við vandamál framtíðarinnar. Þá hugsun að það sem er gert í dag geti haft áhrif um ókomna tíð. Kannski erum við undir of miklu álagi, of þreytt, streitt og dofin til að geta tekist á við svona risavaxin vandamál. Þá er auðveldara að hverfa í símann og leyfa huganum að fljóta. En kannski erum við bara orðin of góðu vön, án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Hver svo sem ástæðan er þá er ljóst að við greiðum dýru gjaldi fyrir lífsstílinn. Nýjar og áður óbirtar niðurstöður sýna að Íslendingar losa að meðaltali tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum heldur en almennt gengur á alþjóðamælikvarða. Norðurlandameistararnir. Ríkasta eina prósentið er ábyrgt fyrir meiri losun en allt fátækasta fólk heimsins. Þeir sem tilheyra tekjuhæstu tíu prósentunum veldur helmingi allrar losunar, Íslendingar þar á meðal. „Meira að segja einfaldir hlutir eins og að draga úr kjötneyslu, fatakaupum og fækka ferðum á einkabílnum vex okkur í augum,“ segir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.
Prófessor í sálfræði sem hefur sérhæft sig í eðli og afleiðingum neyslusamfélaga lýsir ástæðunni í viðtali við Stundina. Íslendingar sitja fastir í kerfi sem veldur loftslagsbreytingum. Samfélög séu byggð í kringum neyslu og framleiðslu. Þegar þess er krafist að fólk breyti hegðun sinni og hugsanagangi sé það inni í kerfi sem snýst um framboð og eftirspurn. Kerfi sem hvetur þá stöðugt til að kaupa meira, því nýjar vörur auðgi líf þeirra. Það er ekki hægt að gera þá kröfu að einstaklingar bjargi heiminum heldur verður að breyta kerfinu, segir hún. Það að fólk viti af offramboði af fötum dugi ekki til að það dragi úr fatakaupum þegar fólk verður fyrir stöðugu áreiti. Til að bregðast við aukinni umhverfisvitund en viðhalda samt neyslunni sé farið að selja vörur sem eiga að vera siðferðislega góðar, eins og hollar sígarettur í gamla daga. Á sama tíma geta mannslíf verið í hættu á Íslandi vegna skriðufalla og tíðari gróður- og skógarelda af völdum loftslagsbreytinga.
Á áramótum staldrar fólk gjarna við, gerir upp og horfir til framtíðar. Af því skrifaði forstjóri eins stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins grein þar sem hann varaði við því að stjórnendur mótuðu stefnu út frá sjálfbærni eða öðrum „tískustraumum“ og krýndu sjálfa sig „riddara réttlætis“. Hlutverk fyrirtækja væri að skapa verðmæti, og hlutverk stjórnvalda að marka stefnu í umhverfismálum. „Það er ekki fyrirtækja, fjárfesta eða lífeyrissjóða að gera það. Ef þessum hlutverkum er blandað saman villumst við algjörlega af leið.“ Sem er kannski skiljanlegt viðhorf manns sem hækkaði launin sín um tæpar tvær milljónir á mánuði á milli ára vegna hagnaðar fyrirtækisins. Sömuleiðis er hægt að skilja hvers vegna maður sem er metinn á 78,2 milljarða bandaríkjadollara reyni allt til að halda áfram að græða á samfélagsmiðlum. Nema hvað við höfum nú þegar villst af leið. Ef við lítum af skjánum getum við séð Snæfellsjökul „hverfa fyrir augum okkar á næstu áratugum,“ samkvæmt jöklasérfræðingi.
Athugasemdir (1)