Samkvæmt kröfugerð lögreglu telur hún sig hafa fengið fram játningu einstaklings sem nákominn er Páli, þar sem viðkomandi gengst við að hafa byrlað Páli svefnlyfjum, tekið síma hans og dreift efni þaðan til fjölmiðla, í maí í fyrra. Lögreglan segir viðkomandi hafa gert það „hugsanlega í hefndarskyni“ og síðan komið síma með gögnum í hendur ótilgreinds blaðamanns. Lögreglan átelur blaðamenn fyrir að hafa nýtt sér gögn „faglega og fjárhagslega“ í stað þess að styðja viðkomandi.
Þrír af þeim blaðamönnum sem lögreglan á Akureyri setur í stöðu sakborninga í rannsókn sinni birtu umfjallanir um svokallaða Skæruliðadeild Samherja, sem Páll var hluti af ásamt fleiri starfsmönnum og verktökum útgerðarfélagsins Samherja, og hafði það hlutverk að snúa almenningsáliti gegn blaðamönnum og uppljóstrara í mútumáli Samherja í Namibíu.
Lögregla segir nákominn aðila hafa játað
Einn sakborninganna, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, fór fram á það fyrir helgi að dómstólar skæru úr um hvort lögreglan hefði heimild til að yfirheyra hann sem sakborning, þar sem hann þyrfti að lúta 25. grein fjölmiðlalaga sem meinaði honum að tjá sig um heimildir sínar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fór Páll Steingrímsson, brotaþoli í rannsókninni, fram á að opið þinghald væri í málinu. Lögmaður Aðalsteins tók undir þá kröfu. Dómari kvað hins vegar upp þann úrskurð að þinghald væri lokað.
Kröfugerð lögreglu var lögð fram í dag. „Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er,“ segir þar. Þá er málsatvikum lýst, sem byggja ýmist á skýrslutöku yfir þeim einstaklingi, eða Páli Steingrímssyni.
Því er lýst að X, sem lögregla segir vera heimildarmanninn, hafi komið í yfirheyrslu 5. október síðastliðinn. „Í þeirri skýrslutöku viðurkennir X að hafa óskað eftir að fá að skoða síma brotaþola og þegar hann neitaði því kveðst X hafa snöggreiðst og farið fram og náð í svefnlyf sem hann vissi ekki hvaða tegund var og sett út í drykk brotaþola.“ Þá segir: „X viðurkennir að hafa skoðað innihald síma brotaþola og hafa ekki fengið heimild brotaþola til að gera slíkt. Hann viðurkennir líka að hafa afhent fjölmiðlamönnum símann daginn eftir að flogið var með brotaþola í sjúkraflugi til Reykjavíkur.“
Lögmaður Samherja greindi frá því 25. maí síðastliðinn að síma Páls hafi verið stolið þegar hann hafi legið á sjúkrahúsi. Þá sagði lögmaðurinn að þjófnaðurinn hefði verið kærður til lögreglu.
Fjölmiðlar hafi hugsanlega séð eða miðlað klámefni
Auk þess að veita X stöðu sakbornings segir lögreglan á Akureyri að fjórir blaðamenn séu grunaðir um brot. Það er þó ekki þjófnaðarbrot, eins og kært var í upphafi, heldur miðlun klámefnis og brot á friðhelgi.
„Lögreglan hefur staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit slíkra myndbanda hafi verið sent úr símanum. Brotaþoli hefur staðfest við lögreglu að í síma hans hafi verið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum,“ segir í kröfugerð lögreglu, sem kveðst telja fjölmiðla hugsanlega hafa tekið við klámefni, jafnvel þó hvergi sé getið um hvort umrædd myndbönd hafi verið send til blaðamannanna eða að þeir hafi komið að þeirri sendingu að öðru leyti.
„Þar sem X afhenti ekki gögn úr símanum heldur símann sjálfan liggur fyrir að fjölmiðlar sem tóku við símanum afrituðu hann. Ekki er ljóst hvort síminn var afritaður að hluta eða að öllu leyti en ljóst er að þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var þó þeir hafi bara afritað hann að hluta. Það er ljóst að gögnum úr þessum afritaða síma var dreift á milli fjölmiðlamanna, þ.á.m. hugsanlega kynlífsmyndböndum.”
Engin tilvísun er þó í klámefni í umfjöllunum fjölmiðla um skæruliðadeild Samherja og vísar lögregla ekki til neinna tilfella þess að klámefni hafi verið dreift.
Af kröfugerð lögreglu er ekki ljóst hvert sakarefni blaðamannanna er að öðru leyti. „Þau sakarefni sem er verið að rannsaka er líkamsárás (byrlun) og friðhelgisbrot. Rannsóknin snýst einnig um meint kynferðisbrot (dreifing á kynferðislegu myndefni),“ segir í kröfugerðinni. Þar kemur skýrt fram að sakborningur „er sá maður sem borinn er sökum og/eða grunaður um refsiverða háttsemi“.
Lögregla segir meintan heimildarmann „hugsanlega í hefndarhug“
Fram kemur í lýsingu lögreglu að meintur heimildarmaður, X, hafi játað að hafa rætt við tvo blaðamenn, sem viðkomandi nafngreinir ekki. Páll hafi síðan fullyrt að hann hafi fengið játningu frá sama einstaklingi, sem hafi verið „hágrátandi“, samkvæmt lýsingu lögreglu á vitnisburði Páls.
Lögreglan segist hafa undir höndum samskipti blaðamanna við heimildarmanninn. „Lögreglan er með töluvert af símasamskiptum, tölvupóstum og annars konar samskiptum X við ákveðna fjölmiðlamenn.”
Í máli Aðalsteins Kjartanssonar, sem dómsmálið varðar sérstaklega, vísar lögreglan til þess að Aðalsteinn hafi, ásamt fleirum, síðar á árinu fengið sendan fjöldapóst frá umræddum aðila sem stílaður var á lögmann viðkomandi og barst einnig fjölmiðlafólki sem kom ekki að umfjöllun um skæruliðadeild Samherja. Þessi fjöldapóstur er eina atvikið sem tengist Aðalsteini Kjartanssyni beint í allri atvikalýsingu lögreglu í greinargerðinni.
Fordæmir að blaðamenn hafi nýtt upplýsingar
Lögreglan fordæmir blaðamennina í kröfugerðinni.
„Blaðamönnum er umhugað um vernd heimildamanna sinna. Á móti bendir ákæruvaldið á að fjölmiðlar eru að hagnýta sér viðkvæma stöðu heimildarmannsins,“ segir lögreglan. Þá segir lögreglan að heimildarmaðurinn „sé mjög viðkvæmur og hugsanlega í hefndarhug“.
Lögreglan segir að fjölmiðlar hafi nýtt sér „augljóst brot“ heimildarmannsins sér í hag, „faglega og fjárhagslega“, og það „Í stað þess að staldra aðeins við og veita X stuðning og hjálp“.
Meðal þess sem kom fram í umfjöllun um hópinn, sem kallaði sig skæruliðadeild Samherja, voru áform um að hindra vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu, í Afríkulandinu síðar á árinu. Að auki skrifaði hópurinn greinar sem birtar voru í nafni Páls Steingrímssonar, til varnar Samherja og gegn fjölmiðlum. Í kjölfar þess að fréttirnar um skæruliðadeildina birtust baðst útgerðarfélagið Samherji afsökunar á framgöngu sinni.
Nýta lög til varnar þolendum hefndarkláms
Ef meint brot hefðu verið kærð fyrir árið 2021 hefði lögregla ekki haft lagaheimild til að saksækja blaðamennina. Í kröfugerð lögreglu er útskýrt að fyrir árið 2021 hafi lögregla ekki haft lagaheimild til að saksækja fyrir þau meintu brot sem blaðamenn eru nú grunaðir um, en hins vegar hafi brotaþoli áður þurft að höfða svokallað einkarefsimál. Í fyrra var lagagreinin uppfærð og var það kynnt af Stjórnarráði Íslands sem svar við hefndarklámi. „Tilefni lagasetningarinnar er aukið stafrænt kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi. Engin einhlít skilgreining lá fyrir um hugtakið en með því er vísað til háttsemi sem felst í því að nýta stafræn samskipti til þess að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi,“ sagði á vef Stjórnarráðsins í febrúar í fyrra.
Athugasemdir (13)