Ég gerði óformlega könnun um daginn. Ég spurði vini mína, eruð þið sammála því að árið 1970 hafi verið fyrir 30 árum? Þeir sögðu allir já strax. Ég spurði, eruð þið vissir? Þeir hugsuðu aftur og var brugðið og hristu hausinn – 50 ár! Hálf öld! Ég sagði, þið eruð að verða fimmtugir á næsta ári, hvernig gat ykkur fundist þetta vera 30 ár síðan?
Ég veit ekki hvort þetta sé alvöru kenning, en mér finnst eins og mín kynslóð tilheyri ekki þessari öld. Það er sárt að viðurkenna það, það var svo augljóst að langamma í peysufötunum tilheyrði sínum tíma, að afi sem söng Davíð Stefánsson og Dalakofann og kunni aldrei að meta Bítlana, hann var svo augljóslega barn millistríðsáranna og kallaður Jón gamli frá því hann var fertugur. Pabbi og mamma og vinir þeirra, öll svo augljós 60s kynslóð. En ég, mín kynslóð, við töldum okkur vera öðruvísi, við ætluðum aldrei að verða gömul, við höfum uppfært okkur reglulega, með nýjasta símann og playlistann. Við erum eilíf og ætlum að fagna sextugsafmæli með hálfum Iron Man.
Ég held samt að við séum bara verbúðarkynslóðin, árið 2000 var í óraframtíð og þá yrði heimurinn eins og í 2000 Space Odyssey. Blade Runner gerðist 2019, enn fjær en fjarlægasta framtíðarsýn. Okkur finnst enn þá að árið 2000 sé framtíðin, ég held að við séum langamma í peysufötunum. Við erum bara Duran Duran og Hemmi Gunn, Kalda stríðið og brauðtertur.
Þetta væri ekki alvarlegt í venjulegu árferði. En ég held að allir sem voru á loftslagsráðstefnunni í Glasgow og ræddu ástand jarðarinnar, hafi verið kynslóð sem heldur að 1970 hafi verið fyrir 30 árum, kynslóð sem finnst 2050 vera lengra í framtíðinni en ímyndunaraflið ræður við. Sjálfur á ég samt börn sem hafa greitt fyrstu greiðslur í Lífeyrissjóð verslunarmanna, í von um fyrstu greiðslu árið 2072!
Spurningin er, getum við tengt við framtíðina á ábyrgan hátt og gripið til aðgerða, eða þarf að sópa okkur sem fyrst frá völdum og hleypa að kynslóð sem er ekki þjökuð af 2000 vandanum og finnst 1970 hafa verið fyrir 100 árum?
Athugasemdir (1)