Samkvæmt haglíkönum Seðlabanka Íslands byrja áhrif stýrivaxta að gæta einu ári eftir ákvörðun og ná hámarki eftir aðra sex mánuði. Áhrifin af vaxtabreytingum er sérstaklega óbein og hægvirkandi – jafnvel samkvæmt innri líkönum og rannsóknum seðlabankans.
Stjörnuhagfræðingurinn Stephanie Kelton sem var í forsíðuviðtali New York Times fyrir skemmstu komst vel að orði þegar hún gagnrýndi oftrú fólks á stýrivaxtatólinu og kallaði það „weak tea“ í samanburði við önnur tól. Hún hefur verið afar gagnrýnin á ofnotkun og ofurtrú á stýrivaxtatækið.
Hagfræðingar af MMT skólanum – og Stephanie er líklega sú fremsta í dag – eru hrifnari af sértækari tólum. Illréttlætanlegt er að hækka stýrivexti svona snarpt með tilheyrandi eignatilfærslum og kjaraskerðingum. Kelton segir að það sé ábyrg hagstjórn að leita að orsökum verðlagshækkana og grípa til aðgerða sem bíta á þá undirliði hverju sinni. Framkvæmd á slíkum aðgerðum geti verið á ábyrgð löggjafans, sérstaklega ef tregðan er á framboðshliðinni.
Staðan á Íslandi
Síðan í janúar 2021 hefur hækkun á fjölbýliseignum á höfuðborgarsvæðinu verið yfir 16%. Verðbólguviðmið er 2,5% svo um er að ræða gríðarlega mikla hækkun - þrátt fyrir að stýrivextir hafi á þessu tímabili hækkað úr 0,75% í 2,00%. Hækkun fasteigna er um 40% af hækkunum á neysluverðsvísitölunni og langstærsti staki orsakavaldur verðbólgunnar hérlendis.
Eins og svo oft áður þá eru það nýmyndun útlána til fyrirtækja og heimila sem ýtir upp eignaverði.
Seðlabankastjóri ætti að spurja sig afhverju hækkun stýrivaxta frá upphafi 2021 hafi ekki slegið á hækkun húsnæðis fram að þessu og hvaða tilgangi það þjónar að hækka vexti með enn meiri hraða núna. Ef til vill er verið að stíga á bremsu sem byrjar að virka eftir hálft ár, og Seðlabankastjóri sér verðlagshækkanir koma úr þvílíkum fjarska. Hann hafði reyndar eimitt sérstaklega orð á kjarasamningum sem eru framundan. Það er ónotaleg hagstjórn fyrir verkalýðshreyfinguna og launafólk svo ekki sé meira sagt.
Seðlabankastjóri Íslands hafði einnig orð á því í viðtali í kjölfar fundar peningastefnunefndar að hann teldi seðlabankastjóra annara landa vera of seinir að grípa í taumana. Ljóst er að okkar seðlabanki hefur enn trölla trú á stýrivöxtum einmitt þegar umræðan úti í heimi hverfist um notkun annara tækja og að draga úr væntingum okkar til stýrivaxta.
Rétt verðbólguviðbrögð
Hagfræðingurinn Isabella Weber skrifaði í síðustu helgarútgáfu þýska dagblaðsins Süddeutschen Zeitung að til skamms tíma ætti að taka til greina verðþak á orkuverði til heimila til að hemja verðlag. Svona tillaga hefur hingað til þótt afar róttæk og sértæk aðgerð til að draga úr verðbólgu, en ef til vill til marks um breytta tíma og þróun umræðunnar um verðlag í Evrópu. Verð á gasi í Þýskalandi er að hækka snarpt og vegur þungt í vísitölumælingu. Í tillögunni felst að ákveðin grunnur neyslu fylgi fastri verðskrá.
Vestanhafs eru staðan flóknari. Þar eru sömu skiptu skoðanir á því hvort miklar vaxtahækkanir geti bitið á verðbólgu – og það innan seðlabankanna sjálfra sem og innan mismunandi hagfræðiskóla. Það er ekki lengur róttæk skoðun að stýrivextir hafa takmarkaða, of óbeina og óvænta virkni á verðlag. Veltur umræðan meðal annars á því hvort verðbólgan sé komin til að vera eða megi rekja til flöskuhálsa á framboðshliðinni sem hafi stíflað virðiskeðjur og skert framleiðslugetu til skamms tíma. Ef um tímabundna tregðu er að ræða gerir afar lítið að hækka vexti.
Ólafur Margeirsson skrifaði áhugaverða Facebook færslu 11. febrúar. Þar bendir hann á að Seðlabanki hafi í gegnum faraldurinn getað örvað framboð húsnæðis með því að stýra útlánamyndun til verktaka en ekki húsnæðislána. Þá væri staðan önnur í dag. Seðlabankastjóri tók illa í spurningu á blaðamannafundi um þetta atriði, sagði þá sem gagnrýndu stýringu útlána í gegnum faraldurinn hrjást af minnisleysi - og voru þá eflaust minnisstæðar fjölda athugasemda Ólafs Margeirssonar sem og þingkonunnar Kristrúnar Frostadóttur sem var þar áður aðalhagfræðingur Kviku. Ásgeir Brynjar Torfason hefur einnig varað við ofnotkun stýrivaxta.
Nóg komið
Ár eftir ár hafa íslenskir hagfræðingar bent á þá óráðsíu í hagstjórn landsins. Í Seðlabankanum er ofurtrú á stýrivaxti á meðan að önnur tól eins og breytingar á útlánareglum eru illa nýtt. Löggjafinn hefur varpað knettinum varanlega til Seðlabankans og vill ekki gangast við sameiginlegri ábyrgð. Framboð húsnæðislausna er brýnasti efnahagsvandinn þessa stundina og varðar grundvallar mannréttindi. Það er helst hin nýja verkalýðsbarátta sem hefur gefið þessum málsstað verðskuldaða athygli með teljanlegum árangri síðustu ár. Ríkisstjórnin bendir á fjársvelt sveitarfélög eða yppir öxlum.
Það er mikilvægt að Ísland sé þátttakandi í því samtali sem á sér nú stað um allan heim um verkfærin sem tryggja best fjármálastöðugleika. Almenningur hefur mátt þola rússíbana úr 4,5% um mitt árið 2019 niður í 0,75% undir lok 2020, og nú aftur upp með öðrum eins hraða. Nú er komið nóg af tilgangslausu hringli með vexti og aðgerðarleysi stjórnvalda.
Athugasemdir