Á einn mann hefur verið stöðugt öskrað í tvö ár. Það er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Allan þennan tíma hefur Þórólfur verið bljúgur, setið fyrir svörum, svarað af yfirvegun og verið opinn fyrir öðrum sjónarmiðum.
Fyrst var hann á móti grímum. Í september 2020 skipti hann um skoðun og lagði til grímuskyldu. Í þarsíðasta mánuði viðurkenndi hann að hafa gert of mikið úr áhættunni fyrir börn á tilteknum tímapunkti. Í upphafi faraldursins var hann gagnrýndur fyrir að loka ekki skólum, af því að hann taldi smit færri hjá börnum.
Í hvert skiptið sem Þórólfur skipti um skoðun litu andstæðingar á það sem veikleika, þegar hann var í reynd að sýna þann styrkleika að uppfæra mat sitt eftir reynslu, ígrundun og nýjar upplýsingar.
Innsæið og frelsið
Á meðan Þórólfur beitti vísindunum til að ná stjórn á faraldrinum, fóru aðrir fram á frelsi og beitingu innsæis.
„Finnið þið þetta? Finnið þið innsæið?“ kallaði leik- og söngkona yfir mótmælendur á Austurvelli í síðustu viku, eftir að hún hélt því ranglega fram að bólusettir væru líklegri til að deyja af Covid en óbólusettir. „Þetta er ofbeldishegðun,“ sagði hún um sóttvarnir.
„Ég hringi í allt gengið,“ kallaði grímuhatandi múrari að sóttkvíarflýjandi lýtalækni þegar hún var handtekin af lögreglu fyrir að neita að undirgangast lögbundna skimun við komuna til landsins fyrir rétt sléttu ári síðan.
Um daginn fór hópur fólks í Kringluna með grímur úr kvikmyndinni V for Vendetta, sem átti að skapa hughrif um „ofríki, harðstjórn, einræði, þöggun og spillingu“ á Íslandi.
Þegar fylgt er ráðleggingum Þórólfs segir íhaldsmaðurinn að hann sé „einráður“, en þegar skólum er haldið opnum kvartar annar hópurinn yfir því að viljandi sé verið að láta börn smitast.
Þegar börn eru bólusett er Covid-spyrnan ósátt, en hin sátt. Ein kallar bólusetningar „morðtilraunir“, annar hvetur Þórólf til sjálfskaða. Kona sem hefur meðal annars skrifað fréttir kallaði Þórólf nýlega „loddara“.
Við gengum hins vegar skemur en margir. Við neyddum fólk ekki í bólusetningu og gerðum ekki kröfu um bólusetningarvottorð fyrir viðburði. En við gengum á andlega heilsu með takmörkunum og fjárhagsstöðu margra. Á tímabili stökkbreyttist samstaðan í fylgispekt og fólk sagðist hlýða Víði, þegar þetta snerist ekki um að hlýða heldur í besta falli að trúa, treysta, skilja og vera með.
Samsærið um sóttvarnalækni
Þriðja mest selda bókin á sölulista Amazon, sem var einu sinni vefbókabúð en er núna hálfgerð þrælakista fyrir lagerstarfsfólk og stökkpallur fyrir stéttarfélagastöðvandi auðmann í reðurtákni á braut um jörðu, er núna bók um bandaríska sóttvarnalækninn Anthony Fauci, þar sem hann er sakaður um ýmis samsæri, allt frá því að vinna gegn lækningu á aids yfir í allsherjar meinsæri með yfirvöldum, leyniþjónustum og fjölmiðlum til að dreifa blekkingum um hættuna af Covid.
Bókin fær 4,8 stjörnur af fimm mögulegum hjá lesendum hennar.
Allir með bjagaða sýn
Rannsóknir sýna að mat fólks á áhættu vegna Covid stýrist frekar af lífsviðhorfi en raunveruleikanum.
Yfir 90% demókrata eru bólusettir, en 60% repúblikana höfðu í síðasta mánuði fengið eina sprautu. Samt hafa demókratar mun meiri áhyggjur af Covid, þótt þeir séu með meiri vörn. Á sama tíma og repúblikanar hafa minni áhyggjur af Covid, deyja fleiri í ríkjum repúblikana, enda eru þeir minna bólusettir. Áhættumatið er því öfugt við raunveruleikann hjá báðum hópum.
Einhvers staðar þarna í miðjunni, með það sérstaka hlutverk að hindra faraldur, hefur Þórólfur Guðnason verið, úthrópaður af sumum, en elskaður af fleirum.
Í Covid-faraldrinum var þekkingin að verða til frammi fyrir augunum á okkur og við vorum sannarlega tilraunadýr raunveruleikans.
Í slíkum ófyrirsjáanleika, þar sem fólk gefur sér líka mismunandi grunnforsendur, er tvennt víst:
1) Að það er ómögulegt að hafa alltaf rétt fyrir sér.
2) Að aldrei verða allir sáttir við ákvörðunina.
Eitt er síðan að sætta sig við áhættu eða ekki, en annað að dreifa vafasömum eða fölskum upplýsingum um áhættuna.
Niðurstaðan er komin
Fyrstu niðurstöður hjá Íslenskri erfðagreiningu benda til þess að yfir 100 þúsund manns hafi fengið Covid á Íslandi. Nú þegar Covid-faraldurinn er líklegast að líða undir lok er niðurstaðan að dánartíðni á Íslandi, sem hlutfall af greindum smitum, er ein sú lægsta í þróuðum ríkjum, þar sem smit eru yfirleitt greind.
Dánartíðni á Íslandi var 128 á hverja milljón íbúa.
Í Noregi 273.
Í Finnlandi 364.
Í Danmörku var hún 650.
Í Þýskalandi 1.422.
Í Svíþjóð, 1.548.
Og í Bandaríkjunum 2.711.
Allt bendir því til að við höfum bjargað fleiri viðkvæmum lífum en allar Norðurlandaþjóðirnar. Húrra fyrir Þórólfi og húrra fyrir okkur hinum að hjálpa til. Hann hringdi nefnilega í allt gengið.
,, Á einn mann hefur verið stöðugt öskrað í tvö ár. "
Hvers vegna að segja ekki alla söguna ?
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur allan þennan tíma ,,öskrað" , og vill ekki standa með íslensku samfélagi !