„Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl.“ Það vantaði ekki kraftinn í eldræðu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur á kvennafrídeginum árið 1975, þar sem hún miðlaði þeirri trú að heimurinn myndi breytast þegar konur færu að stýra honum til jafns á við karla.
Aðgengi að forréttindum
Finnst þér þetta þreytandi umræða? Að vera stöðugt að horfa á samfélagið út frá kynjagleraugum? Getur þú þá ímyndað þér hversu þreytandi það hlýtur að vera að vera stöðugt í baráttu fyrir jöfnum réttindum kvenna og karla? Ekki bara það heldur jöfnum rétti allra kvenna og allra karla, því ekkert er svarthvítt í þessum heimi og það kostar átak að draga þarfir jaðarhópa inn í umræðuna.
Láglaunakona sem nær ekki endum saman og berst í bökkum, þarf að streða alla daga til að brauðfæða börnin sín, hefur ekki sama svigrúm eða sömu orku til að velta því fyrir sér hvort konur eða karlar stýri fyrirtækjum og fjármagni í samfélaginu eða eigi sæti í Hæstarétti eða guð má vita hvar misréttið birtist ekki. Kona í slíkri stöðu þarf að lifa af og hefur helst það markmið að veita börnunum það skjól sem hún getur. Annar hópur hefur frekar beitt sér fyrir því að koma konum í áhrifa- og valdastöður. Báðir hóparnir eiga það hins vegar sameiginlegt að búa við kynbundið misrétti, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Svo eru það karlarnir sem eru ekki jafn ríkir af forréttindum og aðrir karlar. Karlar sem falla ekki að staðalmyndunum og ganga ekki inn í hefðbundin hlutverk karlmanna. Karlar sem hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi eða orðið undir, einhverra hluta vegna. Líklega er enn erfiðara fyrir karlmann að leita sér aðstoðar vegna kynferðis- eða heimilisofbeldis, þar sem þessi hópur hefur ekki fengið jafn mikið pláss í samfélagslegri umræðu.
Það er heldur ekkert auðveldara að vera karl en kona í láglaunastarfi, það er alveg jafn erfitt að ná endum saman. Og það er ekkert grín að vera einstæður faðir. Stundum er meira að segja eins og kerfið taki stöðu þeirra ekki jafn alvarlega. Fyrir utan allt hitt, karlmenn eru líklegri til að valda sjálfum sér og öðrum skaða, beita og verða fyrir ofbeldi, enda í fangelsi, deyja í umferðarslysum og fremja frekar sjálfsvíg heldur en konur.
Heimurinn er ekki svarthvítur, jafnréttisbaráttan snýst ekki um að egna öðru kyninu gegn hinu heldur einmitt að jafna rétt þeirra, svo tækifæri og lífsgæði karla og kvenna verði á endanum þau sömu. Reyndar hefur verið margoft bent á að kynjakerfið bitni á fólki af báðum kynjum og líka hvernig því er viðhaldið af fólki af báðum kynjum. Fólki sem afgreiðir þessa umræðu sem rugl og vitleysu, trúir ekki á neitt sem kallast kynjakerfi, feðraveldi eða skaðlega karlmennsku.
Allt og ekkert breyst
Aftur til ársins 1975, þar sem 25 þúsund konur komu saman á kvennafrídaginn. Fleiri tóku til máls og sögðu ekki raunhæft að ná jafnrétti í núverandi þjóðfélagsramma, heldur þyrfti að skapa nýtt, betra og réttlátara þjóðfélag. Við sjáum hvernig það gekk.
Þrjátíu árum síðar steig Valgerður H. Bjarnadóttir á svið af sama tilefni, nýr kvennafrídagur var runninn upp og 50 þúsund íslenskar konur, þriðjungur allra kvenna, söfnuðust saman á stærsta fundi Íslandssögunnar. Í ávarpi hennar sagði að á þeim tíma sem liðinn væri frá því síðast hefði allt breyst og ekkert breyst. Konur hefðu uppgötvað mátt sinn en væru enn „fangar og fulltrúar karlaveldis“. Annars vegar hættu þær vinnu átta mínútur yfir tvö vegna vitundar um launamisréttið, og hins vegar virtust fáir tilbúnir í þann slag og fórnarkostnað sem fylgir því að jafna laun í raun. Annars vegar hefðu konur opnað augun fyrir óþolandi ofbeldi og hins vegar væri eins og ekkert næði að stöðva glæpinn. Þetta var árið 2005.
Þá var staðan þessi: Þrátt fyrir meiri menntasókn kvenna höfðu þær ekki sömu atvinnutækifæri og karlar, engin kona hafði enn gegnt starfi biskups, bankastjóra, utanríkis-, fjármála- eða forsætisráðherra. Hlutfall kvenna í forstjórastól var eitt prósent og þær voru aðeins tíu prósent stjórnarmanna. Af 63 þingkonum var 21 kona, 3 af 12 ráðherrum og í sambærilegum störfum sem kröfðust sömu menntunar og vinnutíma fengu þær greiddar 72% af launum karla, auk þess sem hefðbundin kvennastörf voru orðin láglaunastörf. Það eru ekki nema fimmtán ár síðan þetta var.
Formleg völd
Í dag hafa tvær konur verið forsætisráðherra. Önnur var krafin um að skila lyklunum og hinni er stöðugt stillt upp sem strengjabrúðu samstarfsmanns í fjármálaráðuneytinu. Tvær konur hafa verið fjármálaráðherrar í samtals sautján mánuði. Seðlabankastjóri er og hefur alltaf verið karl. Kona tók við sem biskup og varð fljótt umdeild. Uppreisn varð innan lögreglunnar eftir að kvenkynslögreglustjóri tók við völdum þar og færði kynbundið ofbeldi ofar á forgangslistann.
Ekki einu sinni hún gat samt lýst því yfir að hún tryði þolanda þegar málið sneri að fjölskyldunni, því áður hafði hún stigið fram í fullum skrúða og efast um frásögn mágkonu sinnar af ofbeldi af hálfu föður síns. Hún sem fékk viðurkenningu Stígamóta fyrir að taka mansalsmál alvarlega og innleiddi nýtt verklag varðandi heimilisofbeldi. Hvar er þá skjól?
Eða þegar þáverandi dómsmálaráðherra steig fram í myndbandinu Við trúum en við sitjum enn eftir með rotið réttarkerfi þegar kemur að þessum málaflokki, þar sem ákært var í 31 máli af 189 tilkynningum og kærum árin 2008 og 2009. Enda varð að taka myndbandið niður því þar stigu menn fram í anda jafnréttisbaráttunnar og lýstu því yfir að þeir trúi þolendum, þegar þeir voru sjálfir sakaðir um brot.
Með öðrum orðum: Við trúum, vegna þess að við vitum.
Fjárhagsleg völd
Vegna þess hversu virkar íslenskar konur hafa verið í stjórnmálum og atvinnulífi mælist jafnrétti mest hér á landi á alþjóðavísu, en íslenskar konur njóta að jafnaði 89,2 prósent af þeim gæðum sem karlar njóta.
Hvað felst í þessum 10,2 prósenta mun á stöðu karla og kvenna? Fyrst og fremst skilaboðin um að konur séu ekki alveg jafn mikils virði og karlar.
Tíu prósenta munur felur meðal annars í sér að karlar eru forstjórar í öllum félögum sem skráð eru á markað Kauphallar Íslands nema einu, og aðeins ein kona er stjórnarformaður. Skráð félög teljast vera þjóðhagslega mikilvæg. Hlutfall kvenna í forstjórastólum er reyndar hærra á almennum markaði, eða 23 prósent. Svona er þetta og svona hefur þetta verið, enda er send út fréttatilkynning í hvert sinn sem kona er ráðin í stjórnunarstöðu.
Konur fara ekki með fjárhagsleg völd í íslensku samfélagi. Árlega tekur Kjarninn saman hverjir stýra fjármagni á Íslandi, alls þúsundum milljarða króna. Niðurstaðan síðast var að þeir sem fóru með slík völd voru 89 karlar, 11 konur. Nýjar fréttir sýna að fjárfestingar í fyrirtækjum kvenna í nýsköpun eru líka hverfandi á móti fjárfestingum í fyrirtækjum karla.
Fyrir utan kynbundinn launamun. Í skýrslu World Economic Forum kemur fram að hann þrífst hér á landi og er mestur í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem karlar fengu 33 prósent hærri laun en konur árið 2019.
Tókstu eftir því að þegar kona varð formaður KSÍ var talað um að hún „þénaði vel“, þegar hún var á sömu launum og karlinn sem var með „tæpar“? Framsetningin endurspeglar oft viðhorfið.
Svo er það hitt, hvernig virði starfa er metið. Árið 2007 fékk bankastjóri Landsbankans 250 milljónir, sem var réttlætt með því að hann bæri svo mikla ábyrgð, eða þar til efnahagshrunið skall á. Leikskólakennari kemst aldrei undan þeirri ábyrgð sem hann ber á velferð barna og hæstu laun leikskólakennara eru 550 þúsund á mánuði með álagi, 6 milljónir á ári.
Nú fær launahæsti forstjóri landsins 432 milljónir á ári, 36 milljónir á mánuði, 1,2 milljónir á dag. Sá sem kemur næst þar á eftir fær 26 milljónir á mánuði, 870 þúsund á dag. Engin kona þénar neitt í líkingu við þetta.
136 ár til stefnu
Situr þú eftir og hugsar, hvað eru konur alltaf að setja sig í hlutverk fórnarlambsins, geta þær ekki borið ábyrgð á eigin lífi? Spáðu þá í það að samkvæmt skýrslu World Economic Forum mun kynjajafnrétti ekki nást fyrr en eftir 136,6 ár. Áður var áætlað að það myndi taka 99,5 ár en nú er tekið mið af bakslagi sem hefur orðið víðs vegar um heiminn.
Hvernig ætli staðan væri ef íslenskar konur hefðu ekki staðið í stöðugri jafnréttisbaráttu undanfarna áratugi? Líklega leiðist öllum að þurfa þess. Mest þeim sem þurfa að lifa misréttið.
Líka þeim sem draga vagninn í samfélagsumræðunni og skapa rými fyrir aðra með því að leggja sjálfa sig að veði, í von um betra samfélag. Og eru fyrir vikið berskjaldaðir fyrir illu umtali og dómhörku. Einu sinni var kona teiknuð upp sem vændiskona í einum stærsta fjölmiðli landsins vegna þátttöku sinnar í pólitík, ein þeirra sem studdi frumvarp sem gerði kaup á vændi refsivert. Með tilkomu samfélagsmiðla flýtur kvenfyrirlitningin upp á yfirborðið, þar sem þær geta allt eins átt von á því að vera uppnefndar, lítillækkaðar og fá yfir sig alls konar ógnanir.
Óskað hefur verið eftir nektarmyndum af þeim á þar til gerðum vefsíðum þar sem karlar komast upp með það ár eftir ár að dreifa hefndarklámi af konum án þess að þurfa nokkru sinni að axla ábyrgð á afleiðingunum.
Baráttukonum hefur verið hótað nauðgunum og ofbeldi.
Allt þetta og miklu verra hafa konur þurft að þola, bara fyrir það eitt að vilja bæta samfélagið og beita sér fyrir því. Þá skiptir engu hvort um er að ræða konur í valdastöðu eða konur sem eru algjörlega valdalausar í íslensku samfélagi. Stöðugt er lítið gert úr þekkingu þeirra, reynslu og sjónarhorni.
Misbeiting valds
Þannig að þegar þú finnur fyrir þreytu vegna endalausrar umræðu um kynbundið misrétti í íslensku samfélagi og hneigist til þess að afgreiða hana sem væl, máttu leiða hugann að því að árið 2019 höfðu 9.212 leitað aðstoðar á Stígamótum vegna 13.180 ofbeldismanna. Væntanlega eru þeir færri vegna þess að sumir hafa beitt fleiri en einn ofbeldi, en á móti kemur að sumir þolendur hafa sætt ofbeldi af hálfu fleiri en einum aðila.
Á einu ári, 2019, leituðu 26 þolendur til Stígamóta vegna hópnauðgana. Flestir voru þeir fimm sem níddust á einni og sömu konunni. Hvernig gerist það að fimm menn brjóti saman af sér, hvernig fer það samtal fram?
Og hvað gerðist eiginlega í þessum heita potti, í huga ríkra og valdamikilla karla, sem halda að það sé í lagi að leika sér að og með konu, sem er þar ein, á þeirra vegum, miklu yngri og í mun veikari samfélagslegri stöðu heldur en þeir? Hvernig geta menn haldið áfram eftir svona atvik, horfast þeir bara í augu næsta morgun eins og ekkert sé, hittast í matarboði með eiginkonunum? Skaðleg karlmennska? Fastir liðir eins og vanalega?
Meiri tölfræði: Aðeins 12,2 prósent allra sem leituðu til Stígamóta fóru með málið til opinberra aðila. Tvær algengustu ástæður fyrir því að konur kæra ekki eru skömm og sú trú að ofbeldið sé þeim að kenna.
Þess vegna var svo frelsandi að heyra unga konu segja skammlaust frá ofbeldi sem hún varð fyrir. Það að fara nakin í heitan pott með fjórum mönnum kallar ekki yfir þig ofbeldi. Það að vera fáklædd, full, dópuð, daðra, stríða, vera með ólæti, fara út eða heim með einhverjum, yfirhöfuð bara vera til, kallar ekki yfir þig ofbeldi. Ekkert kallar yfir þig ofbeldi. Það er bara einhver sem tekur ákvörðun um að beita ofbeldi og hann einn ber ábyrgð á því.
Sjálfsásakanir eru lærð hugsun, meðal annars út frá umræðum um hvernig eigi að varast og verjast ofbeldi. Skömm hefur síðan verið haldið að þolendum og notuð sem vopn til að halda þeim niðri. Þetta viðhorf hefur ratað alla leið inn í réttarkerfið þar sem farið er að afmá nánast allar upplýsingar úr dómum er varða ákveðin kynferðisbrotamál með þeim rökum að það sé verið að verja þolendur, eins og þeir hafi eitthvað til að skammast sín fyrir. Með sömu rökum var þinghaldi yfir vændiskaupendum lokað, sem varð til að verja þá gegn opinberri umræðu.
Kannski er kominn tími til að hleypa konum að í Hæstarétti. Á öllum þeim árum sem rétturinn hefur starfað hafa sjö konur átt þar sæti. Sérálit þeirra birtast í málum er varða kynbundið ofbeldi.
Rétturinn til að vera
Reyndu að setja þig í fótspor kvenna sem fengu ekki nálgunarbann þrátt fyrir stöðuga ógn og áreiti eða þeirra sem fengu nálgunarbann sem sífellt var brotið án þess að það hefði nokkrar afleiðingar fyrir ofbeldishrottana.
Kvenna sem voru settar í þá stöðu að vera aðskildar líkama sínum, þegar líkami þeirra var skilgreindur sem vettvangur glæps samkvæmt íslensku réttarkerfi, og þær þar af leiðandi vitni en ekki aðilar máls þegar þær kæra kynferðisbrot.
Kvenna sem börðust fyrir því að líkamar kvenna væru ekki söluvara, aðeins til þess að maður sem stýrði samtökunum sem reka langstærstu, langdýrustu og best tengdu heilbrigðisstofnun Íslands fyrir vímuefnaneytendur fullnægði eigin hvötum með því að kaupa vændi af þeirra allra veikustu skjólstæðingum. Sagðist svo hafa talið að samskiptin væru bara gleymd og grafin, en það væri sárt að hafa valdið fjölskyldunni vonbrigðum.
Konunnar sem kvartaði undan kynferðisofbeldi borgarfulltrúa sem steig niður „af virðingu við stjórnmálaflokk og baráttu verkafólks“ – en ekki hana.
Þegar þær þurftu að víkja
Konur eftirlétu körlum völdin í íslensku samfélagi. Nú gera þær kröfu um að þeir fari vel með þau. Því miður virðist það of mörgum um megn.
Ef þér finnst allt of langt gengið nú þegar hver karlinn á fætur öðrum þarf að víkja af opinberum vettvangi, úr valda- og áhrifastöðu eða afsala sér broti af forréttindum sínum vegna ásakana, hugsaðu þá til allra þeirra sem hafa þurft að víkja úr vinahópum, fjölskyldum eða nærsamfélögum vegna þess að þeir sögðu frá ofbeldinu sem þeir voru beittir. Ekki aðeins frá því sem kom fyrir þá heldur líka hinu sem hefur alltaf verið hættulegra, hver gerði þeim það.
Hugsaðu til Guðnýjar Jónu, sem á menntaskólaárunum hrökklaðist frá Húsavík því samfélagið safnaði undirskriftum til stuðnings geranda hennar, Sóleyjar sem steig fram vegna þess að fyrrverandi tengdafjölskyldan gat ekki sætt sig við nauðgunardóm yfir fyrrverandi manninum hennar og var stöðugt að áreita hana.
Hugsaðu til Guðrúnar sem vonaðist til að faðir sinn fengi þann dóm sem hann átti skilið, eftir að hann braut gegn yngri systrum hennar, eins og margoft hafði verið varað við að hann myndi gera því hann hafði þá þegar verið dæmdur fyrir brot gegn henni.
Þegar þeir þurftu að víkja
Ásakanirnar eru auðvitað misalvarlegar og viðbrögð manna eru það sömuleiðis. Á meðan dæmi eru um menn sem hafa sjálfir opnað á málin vegna þess að þeir iðrast þess að hafa sært aðra manneskju og stigið sjálfviljugir út úr sviðsljósinu, eru aðrir sem afneita gjörðum sínum eða gera lítið úr þeim og virðast helst líta á sig sem fórnarlömb aðstæðna.
Játa í mesta lagi að hafa farið yfir mörk, ekki yfirgefið aðstæður eða gengið inn um ranga hurð. Finnst fólki trúverðugt að einhver lýsi því yfir að hann vilji axla ábyrgð og fari í leyfi frá störfum vegna þess að hann gekk inn í herbergi?
Svo er það maðurinn sem stillti því þannig upp að hann ætti sér einskis kosta völ en að gerast glæpamaður, vegna þess að samfélagið væri svo vont að vilja hann ekki á svið, þrátt fyrir óumbeðnar typpamyndir til unglingsstúlkna, sem er jú hegningarlagabrot.
Eða hinn sem sagðist kannski hafa einhvern tímann verið dónalegur, ekki til fyrirmyndar, en alls ekki sekur um ofbeldi og þar af leiðandi væri ekkert tilefni fyrir naflaskoðun af hans hálfu, þrátt fyrir tugi nafnlausra frásagna um óviðeigandi og meiðandi háttsemi af hans hálfu.
Leiðin til baka veltur líklega á viðbrögðunum, því hvort menn séu viljugir til að horfast í augu við sig og sínar gjörðir, hvort þeir takist á við aðstæður af auðmýkt og vilja til að skilja og leita leiða til að gera betur.
Líklega vilja flestir að hægt sé að snúa aftur en það getur ekki verið á kostnað þolanda. Þeir hafa gjarna tjáð sig á þá vegu að það sé viðurkenningin sem skipti máli, en ekki endilega langvarandi afleiðingar fyrir gerendur. Að minnsta kosti ekki þá sem eru tilbúnir til að axla ábyrgð á gjörðum sínum og bæta fyrir brotin. Sem er kannski frumforsenda fyrir endurkomu.
Að lokum
Finnst þér þreytandi að horfa á samfélagið út frá kynjagleraugum? Veltu því þá fyrir þér hvað það hlýtur að vera þreytandi að vera í þeirri stöðu að þurfa stöðugt að berjast fyrir rétti sínum.
Kannski er kominn tími til að segja: Takk stelpur.
Athugasemdir (13)