Í dag eru rúmlega 3.800 íslensk börn í einangrun eftir að hafa greinst með covid-19, 90% með ómíkron-afbrigðið svokallaða sem veldur vægari veikindum en fyrri afbrigði smitsjúkdómsins.
Samtals eru 10.637 Íslendingar í einangrun, sem þýðir að þeir þurfa að vera bundnir við heimili sitt án umgengni við aðra í viku, en mega nú fara í hálftíma gönguferð. Til viðbótar eru 12.438 Íslendingar í sóttkví vegna umgengni við fólk sem hefur síðan greinst með covid.
Fram kom í dag að meirihluti þeirra 32 sem eru liggjandi inni á spítala með covid-19 eru ekki á spítalanum vegna sýkingarinnar, heldur eru þeir með veikina ótengt tilefni innlagnarinnar. Aðeins eru þrír á gjörgæslu, en allir þeirra í öndunarvél. Það þýðir að 0,03 prósent smitaðra eru nú á gjörgæslu.
Ekki kemur fram að allir þeirra þriggja, sem nú eru á gjörgæslu, séu þar vegna covid eða eingöngu með covid. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í dag að sjúklingar á gjörgæslu væru „langflestir með delta og óbólusettir“, og vísaði þar til eldra afbrigðis covid-19.
Landspítalinn er engu að síður á neyðarstigi, en 163 starfsmenn hans eru í einangrun.
Strangar samkomutakmarkanir eru í gildi vegna covid-faraldursins. Tveggja metra regla er í gildi og grímuskylda. Opið má hafa á veitingastöðum til kl. 21. Einkasamkvæmi eru óheimil á stöðum með vínveitingaleyfi eftir kl. 22. Sundlaugar og skíðasvæði mega taka við 50% af hámarksfjölda gesta. Takmarkanirnar gilda næstu tvær vikur, til 2. febrúar.
Ekki er ljóst hver langtímaáhrif ómíkronsýkingar eru á heilsu fólks, þótt veikindin hafi reynst mildari en af fyrri afbrigðum. Að auki er ófyrirsjáanlegt hvernig veiran stökkbreytist næst, en líkur á stökkbreytingu aukast með meiri dreifingu. Umboðsmaður barna hefur þó nýverið varað við áhrifum þess að halda börnum innilokuðum eða frá skóla ítrekað eða til lengri tíma.
Athugasemdir