Eldgosið í Tonga hefur vakið gríðarlega athygli, ekki síst vegna merkilegra gervihnattamynda sem náðust af afleiðingum sprengigossins í neðansjávareldfjallinu Hunga Tonga.
Fram að því er óhætt að segja að eyríkið Tonga hafi ekki komist í heimsfréttirnar en það á sér þó sína merku sögu, eins og raunin er um öll ríki.
Á Tonga búa Pólýnesar en forfeður og -mæður þeirra eru talin komin frá Taívan af öllum stöðum.
Þau lögðust í ferðalög fyrir löngu, kannski um árið 2500 fyrir Krist, og sigldu fyrst suður til Filippseyja en svo þaðan áfram út á Kyrrahafið.
Og það er óhætt að segja að landnemar þeirra og -könnuðir hafi sigrað hafið á sínum litlu og léttu bátum og með hjálp siglingafræði sem við kunnum enn ekki glögg skil á.
Önnur útþensla — frá Tonga?
Á árabilinu 1200-800 fyrir Krist voru Pólýnesar búnir að nema marga eyjaklasa í suðvestanverðu Kyrrahafinu, svo sem Nýju Kaledóníu (nú undir stjórn Frakka), Fiji, Samoa — og Tonga.
Þarna staðnæmdust þeir í mörg hundruð ár, já, allt að þúsund ár og kannski rúmlega það en fóru þá aftur að stefna skipum sínum til hafs.
Og þá fundu þeir Tahítí, Markesaeyjar, Havaíeyjar, Páskaeyju (Rapa Nui) og síðast en ekki síst Nýja Sjáland þar sem þeir virðast hafa komið að landi um 1200 eftir Krist, það er að segja um svipað leyti og Sturlungaöld var að hefjast á Íslandi.
Því miður höfðu Pólýnesar ekki komið sér upp ritmáli áður en Evrópumenn komu siglandi nokkrum öldum síðar, og því er margt á huldu um þessa útþenslu þeirra. En talið er að um árið 1000 hafi verið risið býsna öflugt konungsríki á Tonga-eyjum sem teygði mjög áhrif sín til annarra eyjaklasa í nágrenninu.
Því er ekki ólíklegt að Tongamenn hafi beinlínis haft forystu um þessa nýju útþenslu.
Þegar á leið dró úr þrótti Tongaríkis bæði vegna átaka við nágrannaeyjar og innri togsteitu svo stundum jaðraði við borgarastríð.
Evrópumenn koma
Árið 1616 komu Evrópumenn fyrst til Tonga. Þar voru á ferð tveir hollenskir landkönnuðir. Þeir stóðu þó stutt við og næstur kom annar Hollendingur árið 1643, Abel Tasman, sem frægastur er fyrir siglingar sínar til Ástralíu.
Evrópumenn, bæði landkönnuðir og síðar hvalveiðimenn, notuðu Tonga mjög til að afla sér vista á leiðöngrum sínum. Ekki freistuðust þeir hins vegar til að leggja eyjarnar undir sig. Undir lok 18. aldar kom breski landkönnuðurinn James Cook til eyjarinnar og í kjölfar komu svo kristnir trúboðar.
Kristni breiddist hratt út um Tonga-eyjarnar og ekki leið á löngu þar til allir íbúarnir höfðu undirgengist Jesú.
Rétt fyrir aldamótin 1800 brutust út skæð og býsna grimmileg innanlandsátök sem stóðu í nokkra áratugi en árið 1845 gerðist stríðsmaður sem kallaður var Tāufaʻāhau konungur yfir eyjunum. Hann tók sér nanið Siaosi Tupou, en Siaosi er útgáfa Tongafólks á nafninu George — en kóngar Bretlands höfðu þá lengi heitið Georg.
Sioasi vildi ekki vera minni maður.
Kóngur í 48 ár
Siaosi Tupou var þá 48 ára gamall en ríkti önnur 48 ár og var á 96. aldursári þegar hann dó.
Siaosi þótti merkiskóngur og kom á þingbundnu konungsveldi. Hann afnam þrælahald á eyjunum, lét taka saman lagasafn, og takmarkaði völd ættarhöfðingjanna sem löngum höfðu ráðið því sem þeir vildu ráða. Landi var útdeilt og frjálsri fjölmiðlun komið á.
Sioasi sneið konungsveldi sitt mjög að evrópskri fyrirmynd og athyglisvert er að samskipti evrópskra leiðtoga við hann voru ævinlega byggð á gagnkvæmri virðingu.
Um þetta leyti voru evrópsku nýlenduveldin að setja frá völdum alla kónga og drottningar Kyrrahafseyjanna en þótt Bretar gerðu samning við arftaka Sioasi árið 1900 um að þeir skyldu vernda Tonga, þá settu þeir ekki af kónginn og æðsti valdamaður Breta á eyjunum bar aðeins hinn hógværa titil ræðismaður.
Og Tonga-menn réðu sér að mestu sjálfir. Því má því vel segja að Tonga sé eina ríkið í Eyjaálfu sem alltaf hefur verið sjálfstætt.
Drottning í 47 ár
Árið 1918 tók átján ára stúlka að nafni Sālote Tupou við sem drottning á Tonga en hún var afkomandi Sioasis.
Hún ríkti næstum jafn lengi og Sioasi eða í 47 ár. Skömmu áður en hún lést 1965 hafði hún gert samning við Breta um að aflétta „vernd“ þeirra árið 1970 og síðan hafa Tonga-eyjar verið að lausar við erlend yfirráð á nokkurn hátt.
Nú er Tupou 6. konungur á Tonga, en Sālote var amma hans.
Þótt stjórnarfar á Tonga hafi þótt lýðræðislegt á fyrri tíð er það nú að ýmsu leyti gamaldags og stundum hefur komið til átaka milli íhaldsmanna og þeirra sem vilja auknar umbætur. Samkynhneigð er til dæmis enn bönnuð með lögum á Tonga og liggur 10 ára fangelsi við.
Eftir að áhrif Breta tóku að minnka urðu Bandaríkjamenn bestu vinir Tonga-manna en nú hafa þeir einnig gengið glaðbeittir inn á áhrifasvæði Kínverja sem lána þeim peninga í stórum stíl.
Og vissulega vantaði peninga. Helstu atvinnugreinar eyjaskeggja eru landbúnaður en þó ekki í stórum stíl, sem og smáiðnaður ýmiss. Mjög stór hluti af tekjum landsmanna koma þó frá Tonga-búum sem vinna erlendis og senda peninga heim. Flestir hafa leitað hófanna í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum, og allt að helmingur hinnar 105.000 manna þjóðar mun búa og vinna erlendis.
Ferðamannaiðnaður þykir enn fremur vanþróaður, miðað við möguleika sem eyríkið ætti að hafa. Spilling þykir því miður vera ein mesta í heimi.
Tonga miðað við Ísland
Athugasemdir