Landssamtökin Geðhjálp telja að framlög til geðheilbrigðismála, sem lögð eru til í frumvarpi til fjárlaga næsta árs, hvergi nærri duga til svo hægt sé að takast á við málaflokkinn. Þannig hafi samtökin ítrekað bent á að til margra ára geðheilbrigðismál verið undirfjármögnuð hér á landi. Hlutfall fjármagns til geðheilbrigðismála hafi verið um tólf prósent af heildarfjármagni til heilbrigðismála, en umfang málaflokksins sé um 30 prósent. „Þegar búið er við slíka undirfjármögnun í ár og jafnvel áratugi er ljóst að eitthvað lætur undan.“
Geðhjálp óskar í umsögn um fjárlagafrumvarpið eftir því að samtökin verði sett á fjárlög eða að samningur verði gerður við þau til lengri tíma. Stærstur hluti rekrarfjár samtakanna er sjálfsaflaféa en á bilinu 20 til 30 prósent eru opinberir styrkir. Þeir styrkir hafa komið í gegnum styrkjakerfi heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis en eru alla jafna ekki ákveðnir fyrr en í febrúar ár hvert. Það skapar mikið óhagræði fyrir samtökin að vita ekki hver opinber framlög verða fyrr en almanaksárið er hafið, segir í umsögninni.
Geðhjálp segir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 verði að teljast nokkur vonbrigði, ekki síst í ljósi stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Í honum segir: „Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum.“
Ekki hægt að sjá aukningu fjármuna í málaflokkinn
Í fjárlagafrumvarpinu, segir í umsögn Geðhjálpar, skorti sýn til bæði skemmri og lengri tíma í málaflokknum. Margar spurningar vakni við lestur frumvarpsins. Þar á meðal nefna samtökin tímabundna hækkun framlaga til geðheilbrigðisþjónustu, í eitt ár, um 400 milljónir króna. Geðhjálp veltir því fyrir sér í umsögninni hvert það fjármagn eigi að fara. „Í ljósi þess verkefnis og vanda sem landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað bent á sl. misseri og ár er þetta út frá fjárþörf í raun aðeins dropi í hafið.“
„Að setja 100 m.kr. í það verkefni verður að teljast veruleg vonbrigði“
Þá er bent á það í umsögn Geðhjálpar að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir að settar verði 100 milljónir króna í niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Frumvarp um þá niðurgreiðslu var samþykkt á Alþingi vorið 2020 en hefur verið ófjármagnað síðan. „Að setja 100 m.kr. í það verkefni verður að teljast veruleg vonbrigði. Þess ber að geta að landssamtökin Geðhjálp settu árið 2021 rétt um 28 m.kr. í ráðgjöf og sálfræðiþjónustu sem var opin öllum að kostnaðarlausu. Þetta er meira en fjórðungur þeirrar upphæðar sem hér er lagt er til að verði sett árlega í niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.“
Í fjárlagafrumvarpinu segir einnig að lögð hafi verið áhersla á stóraukna geðheilbrigðisþjónustu. „Landssamtökin Geðhjálp sá ekki þessa stórauknu áherslu á geðheilbrigðisþjónustu. Vissulega hefur verið viðleitni til að gera betur í málaflokknum en miðað við það takmarkaða fjármagn sem sett er í málaflokkinn og það sem kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi og fjármálaátætlun ríkisstjórnarinnar 2022 til 2026 er ekki hægt að tala um aukningu í málaflokkinn,“ segir í umsögninni.
Geðhjálp gerir þá athugasemdir við að einungis sé getin viku frestur til að bera fram athugasemdir við fjárlagafrumvarps næsta árs. Það sé ekki nægilegur tími til að fara ítarlega yfir viðamikið frumvarp, sem feli ekki einungis í sér fjárveitingar heldur einnig stefnuþætti.
Athugasemdir