Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í tilkynningu til fjölmiðla að hluturinn sem fannst í gær í ruslagámi við Mánatún í Reykjavík hafi verið heimatilbúin sprengja. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út til að tryggja vettvang og eyða sprengjunni.
Lögreglan segir að rannsókn miði vel og að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að málið tengist sendiráði erlends ríkis en Fréttablaðið sagði frá því í gærkvöldi að bústaður sendiherra Bandaríkjanna væri næsta hús við gáminn þar sem sprengjan fannst. Samkvæmt heimildum Stundarinnar býr enginn í sendiráðsbústaðnum um þessar mundir.
Eins og fram hefur komið voru þrír handteknir í tengslum við málið. Einum þeirra hefur nú verið sleppt en tveir eru komnir í afplánun vegna fyrri refsidóma segir í tilkynningu frá lögreglu.
Athugasemdir (1)