Geir Guðmundsson, meðlimur í kjörstjórn í Kópavogi, hefur lagt fram kæru til lögreglunnar vegna „gruns um kosningasvik í Alþingiskosningunum 2021“. Í kærunni er nánar útlistað „hvað gerðist og hvenær“ og þar segir að við talningu atkvæða í Suðvesturkjördæmi í íþróttahúsinu í Kaplakrika „telur umboðsmaður J-lista, Baldvin Björgvinsson, sig hafa séð tvær stærðir af utankjörfundaratkvæðaseðlum í talningarbunkum við talningu“.
„Ef það er rétt vaknar grunur um kosningasvik,“ segir Geir í kærunni. Nú þegar hefur landskjörstjórn sent fyrirspurn vegna þessa til dómsmálaráðuneytisins og niðurstaða ráðuneytisins var að sú að formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi hafi fullyrt ekki var önnur tegund af utankjörfundarseðlum í notkun í kjördæminu en sú sem ráðuneytið útvegaði.
Geir segir fullyrðingu formannsins ekki vera nóg til að útiloka þann möguleika að önnur stærð af utankjörfundaratkvæðum hafi verið notuð í kosningunni og segir í kærunni að eina leiðin til að staðfesta slíkt sé að „lögregla skoði alla þá 15.148 utankjörfundaratkvæðaseðla sem greiddir voru í SV kjördæmi og athugi hvort þar á meðal finnist utankjörfundaratkvæðaseðlar sem samrýmast ekki þeirri stærð og gerð sem dómsmálaráðuneytið útvegaði fyrir Alþingiskosningar. Ef þar finnast öðruvísi utankjörfundaratkvæðaseðlar, þarf lögreglan að rannsaka ástæðu þess og möguleg kosningasvik.“
Áður hafði Geir og annar meðlimur kjörstjórnar Kópavogs gefið frá sér munnlega greinargerð um annmarka sem þeir fundu í meðhöndlun atkvæða í Kópavogi til kjörstjórnar Kópavogs. Ekkert varð úr þeirri kvörtun Geirs og málið ekki sent áfram til yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis eða landskjörstjórnar.
Sendi erindi á landskjörstjórn
Fyrst hafði Baldvin samband við landskjörstjórn vegna málsins þann 29. september til að fá staðfest hversu stórir utankjörfundaratkvæðaseðlar ættu að vera. Þegar hann hafði fengið svar við þeirri fyrirspurn ákvað hann að senda frá sér ábendingu.
Baldvin sendi ábendingu á landskjörstjórn þann 4. október undir yfirskriftinni: „Formleg ábending um alvarlegan ágalla á talningu í Suðvesturkjördæmi.“ Þar bað hann Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur, ritara landskjörstjórnar, að koma þeim upplýsingum sem hann sendi til „réttra aðila, meðal annars til Undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar.“
Upplýsingarnar voru eftirfarandi:
„Baldvin Björgvinsson umboðsmaður J lista Sósíalistaflokks Íslands varð þess áskynja að við talningu atkvæða í Suðvesturkjördæmi voru taldar þrjár stærðir af kjörseðlum.
1. Venjulegur kjörseðill sem notaður var á kjördag þann 25. September.
2. Kjörseðill sem samræmist málum þeim er Landskjörstjórn vísar til að sé rétt stærð.
3. Kjörseðill sem er um það bil helmingi minni en sá er kjörstjórn vísar til að sé rétt stærð.“
„Orð á móti orði“
Þá segir einnig í kærunni að þann 22. október hafi lagaskrifstofa Alþingis sent fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins um stærð atkvæðaseðla sem notaðir voru í utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna ábendingu Baldvins og þann 25. október hafi borist svar frá ráðuneytinu.
Í svari ráðuneytisins, sem undirritað var af Bryndísi Helgadóttur og Hjördísi Stefánsdóttur fyrir hönd dómsmálaráðherra, segir að vegna fyrirspurnarinnar hafði ráðuneytið samband við Huginn Frey Þorsteinsson, formann yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, og samkvæmt upplýsingum frá honum „komu ekki fram við talningu önnur stærð af utankjörfundarseðlum en þeirri sem ráðuneytið lætur í té“.
Í kærunni sem send var til lögreglu var farið yfir þennan þátt málsins. „Þarna stendur orð á móti orði. Nauðsynlegt er að fá fullnægjandi úrskurð um hvor aðilinn hafi rétt fyrir sér, umboðsmaður J-lista í SV eða formaður yfirkjörstjórnar i SV. Eina leiðin er að lögreglan skoði alla þá 15.148 utankjörfundaratkvæðaseðla sem greiddir voru í SV kjördæmi og athugi hvort þar á meðal finnist utankjörfundaratkvæðaseðlar sem samrýmast ekki þeirri stærð og gerð sem dómsmálaráðuneytið útvegaði fyrir Alþingiskosningarnar. Ef þar finnast öðruvísi utankjörfundaratkvæðaseðlar, þarf lögreglan að rannsaka ástæðu þess og möguleg kosningasvik.“
Samkvæmt 104. grein laga um kosningar er kjörseðlum eytt eftir að Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna og búið er að rannsaka kærur sem Alþingi hafa borist. Það er því ljóst að ef Alþingi berst ekki þessi kæra, til að mynda ef lögreglan lætur málið niður falla eða hún berst of seint, verður kjörseðlum eytt og ekki hægt að rannsaka efni kærunnar.
Kæran eðlilegt framhald
Baldvin Björgvinsson, umboðsmaður Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi, segir í samtali við Stundina að honum þyki umrædd kæra vera „eðlilegt framhald“ í ljósi þess hvernig dómsmálaráðuneytið svaraði ábendingu hans. „Mér þykir bara fullkomlega eðlilegt að þetta verði skoðað, að atkvæðaseðlarnir verði skoðaðir.“
„Ég veit hvað ég sá,“ segir Baldvin varðandi þau svör formanns yfirkjörstjórnar sem birtust í svari dómsmálaráðuneytisins að við talningu hafi ekki komið fram önnur stærð af utankjörfundarseðlum en ráðuneytið lét í té. Hann segist hafa tekið eftir misræminu þegar farið var yfir vafaatkvæði í lok talningar. Þá hafi hann að eigin sögn staðið um meter frá borðinu þar sem atkvæðin lágu.
Þá segir hann enn fremur að umboðsmönnum kjördæmisins hafi verið gert það „ómögulegt að sannreyna nokkurn skapaðann hlut í talningunni. Við erum bara uppi í stúku“.
„Við fengum ekki að koma nálægt neinu eftirliti á talningarstað. Okkur er vísað út úr talningunni og upp í stúku af yfirkjörstjórn og við vorum þarna eins og hverjir aðrir almennir borgarar.“
Fylgst með framkvæmd kosninga síðan 2009
Baldvin segir að hann hafi sem umboðsmaður fylgst með framkvæmd kosninga síðan 2009. „Ég hef fylgst með framkvæmd kosninga síðan eftir hrun, fylgst með öllu frá a til ö og ég veit hvað er mikið að framkvæmdinni. Ég hef sjálfur skilað inn mörgum kvörtunum, kærum, ábendingum og athugasemdum. Ekkert af þeim hefur verið tekið til greina með nokkrum hætti eða brugðist við með nokkrum hætti. Þetta lendir allt undir stól og í skúffu.“
Fleiri kærur vegna kosninganna
Fyrr í dag var greint frá því að Jón Þór Ólason, fyrrverandi þingmaður Pírata, sem ekki var í framboði í alþingiskosningunum, hefði kært Inga Tryggvason, formann kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglu vegna brota við framkvæmd kosninganna. Ingi var, líkt og komið hefur fram, einn með óinnsigluðum kjörkössum á Hótel Borgarnesi daginn eftir kjördag, áður en atkvæði voru endurtalin.
Áður hafa fleiri kært kosninguna, meðal annars Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.
Loks hefur Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, sem náði ekki inn á þing, greint frá því að hann muni vísa máli vegna kosninganna alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu ef þess gerist þörf.
Á morgun kemur Alþingi saman eftir að hlé var gert frá fyrsta þingdegi í gær. Þá verður kosið um tillögur kjörbréfanefndar. Meirihluti virðist vera fyrir því að samþykkja að síðari talningin í Norðvesturkjördæmi verði tekin gild.
Minnihluti virðist vera fyrir því að hafa svokallaða uppkosningu, sem myndi þýða að kosið yrði aftur í Norðvesturkjördæmi. Það hefði þó í för með sér að uppbótarþingsæti myndu að líkindum breytast og nýir þingmenn koma inn á kostnað þeirra sem nú hafa tekið sæti. Píratar hafa hins vegar farið fram á að kosið verði aftur á öllu landinu.
kt. 220643-7199
Kjósum því áframhaldandi kosningasvindl og FLokkinn.
ÖSE getur svo hoppað upp í svartnættið á sér.
Spillingin er góð fyrir okkur....XD.