Í nokkur ár er ég búinn að vera með tilvitnun í Styrmi Gunnarsson úr rannsóknarskýrslu Alþingis eiginlega á heilanum: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Það er svo margt í þessum ummælum sem er merkilegt. Hvernig áhrifamaður, innmúraður í pólitík, hluti af valdinu og baráttunni, sér samfélagið. Hún felur í sér að ekkert sé rétt eða rangt, að allt sé áróður, og að allt sé til að þjóna hagsmunum einhvers. Hún fríar alla þá sem höfðu einhver völd ábyrgðinni; svona er bara leikurinn, þeir gerðu ekkert rangt, það er samfélagið sjálft, við öll, sem berum ábyrgð á þessu.
Þessi setning hefur verið mér svo hugleikinn að ég ákvað að sauma hana út; svona í anda „Drottinn blessi heimilið“. Ég kann náttúrulega ekkert að sauma út en ákvað samt að prófa. Og það var eiginlega um það leyti sem ég kláraði að sauma textann á strangann (ég á enn eftir að skreyta með blómum) að annar maður notaði vettvang Morgunblaðsins, sem Styrmir stýrði lengst af og notaði til að fylgjast með valdabaráttunni, til að básúna samsæriskenningu sem byggir á sömu skrýtnu samfélagssýn. Að samfélagið sé ógeðslegt og allt snúist um að berjast um völd.
Af mörgum ástæðum les ég almennt ekki bloggsíðu Páls Vilhjálmssonar og sá því ekki bloggpistil sem hann tileinkaði mér. Það var ekki fyrr en dyggur lesandi Páls sendi mér hann í tölvupósti að ég vissi að sú samsæriskenning væri nú komin fram að ég væri glæpamaður sem hefði tekið þátt í eða framkvæmt tiltölulega flókinn stuld á farsíma norður á Akureyri. Glæpurinn – sem ég er sagður hafa framkvæmt – á meðal annars að hafa falið í sér að koma sjómanni í slíkt ástand að hann þurfti á öndunarvél á sjúkrahúsi að halda. Páll gengur svo langt að tala um „banatilræði“. Allt til þess að ég gæti flutt fréttir af skæruliðadeild Samherja. Þetta er lygi. Ég hef aldrei tekið þátt í að stela farsíma, stela gögnum eða orðið valdur þess að einhver hafi þurft að tengjast öndunarvél til að lifa. Og mér finnst grafalvarlegt að vera sakaður um það.
Í ofanálag fullyrðir Páll að ég hafi verið yfirheyrður vegna rannsóknar lögreglu á þessum glæp. Það er líka lygi.
Forsendur samsæriskenningarnar afhjúpa hvernig Páll sér tilgang fjölmiðla og störf blaðamanna: Að við séum tæki í hagsmunabaráttu mismunandi afla. „RÚV hafði fundið leið til að rétta hlut sinn eftir niðurlægingu siðadómsins,“ skrifar Páll í einni færslu og svo í annarri: „RÚV, Stundin og Kjarninn notuðu gögnin til að klekkja á Samherja.“ Þetta er sama sjónarmið sem gjarnan hefur birst hjá stjórnendum og starfsmönnum Samherja sem Páll freistar þess að verja með lygum sínum. Forstjóri útgerðarinnar og starfsmenn hans, sem kölluðu sig sín á milli skæruliðadeild, hafa ýmist sagt að umfjöllun um Namibíumálið sé hefndaraðgerð uppljóstrarans eða Helga Seljan og RÚV.
Þó að þeir sem nóg eiga af peningum geti haldið úti fjölmiðlum og misnotað þá með þessum hætti þýðir það ekki að við hin stundum það. Einu hagsmunir mínir í blaðamennsku er trúverðugleikinn því það er grundvöllurinn fyrir því að ég geti haft þetta að ævistarfi.
Það væri kannski ekkert sérstakt áhyggjuefni að forstjóri á Akureyri og menntaskólakennari í Garðabæ hefðu þetta viðhorf ef ekki væri fyrir þær staðreyndir að forstjórinn var lengst af einn aðaleigandi Morgunblaðsins (áður en fyrirtækið hans lánaði núverandi borgarfulltrúa peninga til að kaupa hlutinn og sleppti svo að innheimta lánið) og kennarinn einn helsti heimildamaður ritstjóra sama blaðs – sem í ofanálag titlar sjálfan sig ranglega sem blaðamann. Bara á árinu 2021 hafa ritstjórar blaðsins vitnað oftar en 26 sinnum í Pál í leiðurum og Staksteinum, samkvæmt fjölmiðlavakt Creditinfo.
Tuttugasta og sjöunda tilvitnunin í Pál hjá Morgunblaðinu er viðtal sem tekið var við hann í Dagmálum, sjónvarpsþætti blaðsins, á mánudag um kynjafræði. Viðtalið hófst á smá útúrdúr: umræðum um kenningar Páls um að ég sé glæpamaður og að í raun sé Stundin aðeins leppur RÚV, þar sem ég er í raun enn starfsmaður. Eins og áður er tilgangurinn sagður vera hefndarför. Nú mín og RÚV.
Það er ekki glæpur að segja fréttir, jafnvel þó einhverjum líki illa við það. Þeir sem deila sýn Styrmis á samfélagið upplifa sig þó í stríði um valdið og sannleikann, þar sem allt má. Líka að ljúga. Stimpla blaðamenn sem „geðveika“ og saka þá um að fremja glæpi, jafnvel banatilræði. Ég veit hreinlega ekki hvað er til ráða gagnvart svona samsæriskenningum. Meiðyrðamál mun líklega engu breyta. Svona svar kannski ekki heldur. Yfirleitt næ ég að hunsa svona málflutning, hvort sem hann birtist á Moggablogginu eða í kommentakerfinu, en þetta var sérstaklega ósvífið. En kannski bara í anda þeirra sem lifa eftir kenningum Styrmis um að þetta sé ógeðslegt þjóðfélag.
Þetta er það eina sem ég vil segja varðandi skrif ,,þessa Páls Vilhjálmssonar".
Man ekki eftir að hafa séð neitt í skrifum annað en skítkasst frá ,,þessum Páli Vilhjálmssyni" .
Búinn að fylgjast með skrifum hans og framkomu í áratugi.