Í vettvangsferð, sem hluti af undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa, fór í Borgarnes síðastliðinn miðvikudag fann nefndin gilt atkvæði í bunka sem var merktur auð atkvæði. Stundin hefur heimildir fyrir þessu. Þá bendir margt til þess að talning atkvæða hafi hafist áður en kjörstöðum lokaði í Norðvesturkjördæmi.
Þetta sýnir fram á enn meiri óvissu með hvernig talningu atkvæða var háttað í Norðvesturkjördæmi. Áður hefur Stundin fjallað um að starfsmenn Hótel Borgarnes höfðu óheftan aðgang að óinnsigluðum atkvæðum í auðum sal hótelsins meðan yfirkjörstjórn var ekki á staðnum eftir að fyrstu talningu lauk. Þá getur lögregla ekki staðfest hvort starfsmennirnir hafi farið að svæðinu sem kjörgögnin voru geymd vegna þess að þeir hurfu úr sjónsviði eftirlitsmyndavéla sem lögregla fékk aðgang að. Þrír starfsmenn tóku þá myndir af eftirlitslausum seðlunum í salnum.
Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Til skoðunar hvort atkvæði voru talin áður en kjörstaðir lokuðu
Þá er einnig til rannsóknar hjá nefndinni hvort byrjað var að telja atkvæði í Norðvesturkjördæmi áður en kjörstöðum lokaði. Þetta er þó ennþá til skoðunar hjá nefndinni og staðfesting ekki komin enn en þó er ljóst að fyrstu tölum úr kjördæminu var skilað snemma. Fyrstu tölur úr Norðvesturkjördæmi voru þannig birtar klukkan ríflega tíu mínútur yfir tíu að kvöldi kjördags og voru þá talin atkvæði 5.932 talsins. Óheimilt er að hefja talningu fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað, sem gert var klukkan 22:00. Það er því ljóst að hafa hefur þurft gríðarlega hraðar hendur við talninguna, hafi tekist að telja tæplega sex þúsund atkvæði á tíu mínútum.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur lokið rannsókn á broti á kosningalögum af hálfu yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Yfirkjörstjórninni hefur verið boðið að ljúka málinu með sektargerð og Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnarinnar fékk hæstu sekt af öllum, upp á 250 þúsund krónur, fyrir að hafa ekki tryggt innsiglingu atkvæða eftir að talningu lauk.
Athugasemdir