Knattspyrnumaðurinn sem kona sakaði um alvarlegt brot á Instagram, ásamt Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða, segist hafa haft samband við lögreglu í byrjun mánaðar til að segja frá sinni hlið málsins.
„Það er hrikalegt áfall að vera ásakaður um hræðilegt ofbeldisbrot vegna atviks sem var svo sannarlega ekki með þeim hætti sem lýst er í fjölmiðlum,“ segir Eggert í yfirlýsingu sem send var rétt í þessu.
„Þar sem ég hef ekki enn fengið tækifæri til að skýra mál mitt á réttum vettvangi og sökum umfjöllunar fréttamiðla í dag tel ég mig hinsvegar ekki eiga annan kost en að stíga fram og lýsa því opinberlega yfir að ég er fullkomlega saklaus af því sem ég hef verið sakaður um. Ég vona að málið komist í réttan farveg hið snarasta svo ég geti hreinsað mig af þessum ásökunum.“
Sams konar kæra á hendur Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða vegna kvölds í Kaupmannahöfn varð til þess að hann var tekinn úr landsliðshópnum í knattspyrnu.
Konan sem kærði þá tvo greindi frá reynslu sinni á Instagram í vetur, án þess að nafngreina þá. „Ég ligg andvaka, get ekki hætt að hugsa um alla sem hafa þurft að upplifa það sama og ég. Upplifa skömm, reiði, sorg, uppgjöf, vantrú á sínar eigin tilfinningar og upplifanir,“ sagði hún og lýsti atburðunum nánar. „Ég ætlaði að kæra, fékk lögfræðing, fór í skýrslutöku hjá lögreglu en hvar sem ég kom var mér sagt að þetta væri erfitt mál, annað land og þeir tveir gegn mér. Ítrekað var ég spurð hvort ég vildi leggja þetta á mig.“
Konan ákvað að fylgja málinu ekki eftir alla leið, en lét verða af því að kæra fyrr í ár eftir umræðu um brot landsliðsmanna.
Aron Einar hefur einnig neitað að hafa brotið gegn konunni. Í yfirlýsingu fyrr í mánuðinum sagðist hann aldrei hafa fengið tilkynningu um að hann væri undir grun. „Hafi einhver eitthvað út á mig að setja þá bið ég viðkomandi vinsamlegast að hlífa mér ekki, ásaka mig frekar og nafngreina og gefa mér kost á að verja mig. Það er heiðarlegt.“
Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Yfirlýsing Eggerts í heild sinni
Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað um atvik sem á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010 þar sem tveir landsliðsmenn hafa verið bornir þungum sökum. Ég er annar umræddra landsliðsmanna.
Það er hrikalegt áfall að vera ásakaður um hræðilegt ofbeldisbrot vegna atviks sem var svo sannarlega ekki með þeim hætti sem lýst er í fjölmiðlum.
Ég hef reynt að skýla mér og fjölskyldu minni fyrir kastljósi fjölmiðla þar sem ég hafði fram að birtingu fréttar Stundarinnar í dag ekki verið nafngreindur. Föstudaginn 1. október síðastliðinn hafði ég hinsvegar þegar óskað eftir því að vera boðaður í skýrslutöku til að skýra frá minni hlið.
Þar sem ég hef ekki enn fengið tækifæri til að skýra mál mitt á réttum vettvangi og sökum umfjöllunar fréttamiðla í dag tel ég mig hinsvegar ekki eiga annan kost en að stíga fram og lýsa því opinberlega yfir að ég er fullkomlega saklaus af því sem ég hef verið sakaður um.
Ég vona að málið komist í réttan farveg hið snarasta svo ég geti hreinsað mig af þessum ásökunum.
Eggert Gunnþór Jónsson.
Athugasemdir