Kjell Inge Røkke, sem er einn ríkasti og þekktasti kaupsýslumaður Noregs, hefur hafið samstarf við laxeldisfyrirtækið Salmar, eiganda Arnarlax á Bíldudal. Þetta er í fyrsta skipti sem Røkke fjárfestir í laxeldi en hann hefur hingað til ekki haft trú á þessum iðnaði. Hann viðurkennir nú að hann hafi haft rangt fyrir sér um laxeldi en fyrirtæki eins og Salmar hafa skilað hluthöfum þess gríðarlegum hagnaði í gegnum árin.
Um þetta segir Røkke: ,,Ég hélt að laxeldisiðnaðurinn myndi lenda í meiri mótvindi þegar þessi iðnaður var að hefjast; að smásöluverslanir, sem eru kannski bestu innkaupsaðilar í heimi, myndu ekki heimila stórkostlegan hagnað í greininni. En svo sá ég vöxtinn í laxeldinu og þegar ég horfi til þess hvað þessi grein hefur stækkað til allra heimshorna og hvað hún orðið stendur sterk þá verð ég bara að viðurkenna þetta: Ég hafði rangt fyrir mér. "
,,Ég hafði rangt fyrir mér "
Greint er frá þessu samstarfi í tilkynningu til norsku kauphallarinnar í dag sem og í norskum fjölmiðlum.
Frétt sem er ,,bomba"
Norskir fjölmiðlar spara ekki stóru orðin og tala um samvinnuna sem stórfrétt eins og sést á orðalaginu í frétt Dagens Næringsliv um málið: ,,Þeirri frétt sló niður eins og bombu þegar það varð ljóst á fimmtudagsmorgun að tveir af ríkustu mönnum landsins, laxamilljarðamæringurinn Gustav Witzøe og útgerðarmaðurinn, iðjuhöldurinn og olíumilljarðamæringurinn, Kjell Inge Røkke, hafa tekið upp samstarf um að reka aflandseldi á eldi."
Røkke fjárfestir fyrir 1,65 milljarða norskra króna, 23,6 milljarða íslenskra króna í sameiginlegu fyrirtæki fjárfestingarfélags hans, Akker, og Salmar. Þetta fyrirtæki heitir Salmar Aker Ocean.
Samvinna um nýja tíma í laxeldi
Um er að ræða samvinnu sem byggir á nýjum tæknilausnum í laxeldi þar sem eldið verður fært út á rúmsjó í geysistórum úthafskvíum, mannvirkjum sem líkjast olíuborpöllum, langt frá landi. Með þessum lausnum telja laxeldisfyrirtækin að laxeldi framtíðarinnar verði umhverfisvænna en það laxeldi sem hingað til hefur verið stundað í sjó, aðallega eldi í sjókvíum sem eru staðsettar nær landi.
Það er slíkt sjóakvíaeldi sem Salmar stundar hér á landi í gegnum Arnarlax, og mögulega einnig bráðlega í gegnum Arctic Fish ef svo fer að fyrirtækið fái að kaupa norskan eiganda Arctic Fish, Norway Royal Salmon. Salmar hefur lagt fram tilboð í Norway Royal Salmon og er líklegt að því verði tekið.
Salmar verður því líklega ekki bara stærsti, heldur langstærsti, hagsmunaðilinn í íslensku laxeldi um komandi ár og mun því eiga mestan þátt í að byggja upp sjókvíaeldi í fjörðum landsins. Samhliða þessu telur Salmar að þess konar laxeldi sé laxeldi fortíðarinnar og vinnur að því að finna umhverfisvænni lausnir til framtíðar. Salmar mun því stunda sjókvíaeldi í fjörðum Íslands en aflandseldi í fyrirtækinu sem félagið stofnar með Røkke.
Nýir tímar í laxeldi
Gustav Witzøe, forstjóri Salmar, segir í tilkynningunni til norsku kauphallarinnar að samstarfið sé hluti af ákveðnum tímamótum í laxeldisgreininni. ,,Fjárfesting Salmar í aflandseldi markaði upphafið að nýjum tíma í fiskeldi. Við erum mjög glaðir að hefja þetta samstarf með sterku fyrirtæki eins og Aker. Saman munum við leiða þessa þróun og tryggja sjálfbæran vöxt út frá forsendum laxsins. Við ætlum að nýta okkur möguleika sjávarins til að framleiða hollan mat, nota stafræna og umhverfisvæna tækni og tryggja, ásamt samstarfsaðilum okkar sem koma fisknum á markað, matarframleiðslu sem er sjálfbær til framtíðar. Saman getum við tekið næsta tækniskrefið í fiskeldi í sjó og metnaður okkar er hnattrænn."
Forstjóri Aker, Øyvind Eriksen, tekur í svipaðan streng þegar hann segir um þetta. ,,Laxeldisiðnaðurinn stendur frammi fyrir nýjum og sjálfbærari tímum og hefur opnað á að taka í notkum nýjan auðlindagrunn með grænni framleiðslu [...] Við trúum því að saman getum við tekið næsta skref í þróun fiskeldis í sjó, með því að að nota ákveðna tækni og sameiginlega hæfileika okkar til að standa vörð um hafið, velferð fiska og stuðla að sjálfbærum vexti."
Athugasemdir