Stærsti hluthafi íslenska leigufélagsins Heimstaden ehf., sem einnig er samnefnt leigufélag í mörgum löndum í Evrópu, hagnaðist um 8,8 milljarða norskra króna í fyrra eða sem svarar tul tæplega 126 milljarða íslenskra króna. Heimstaden ehf. á 1.637 íbúðir á Íslandi, aðallega á höfuborgarsvæðinu. Íslenska leigufélagið var með rúma 3 milljarða króna í leigutekjur í fyrra og hagnaðist um rúman 1 milljarð króna samkvæmt ársreikningi félagsins.
Heimstaden ehf. hét áður Heimavellir og er stærsta leigufélag landsins en norska félagið Fredriksborg AS gerði öðrum hluthöfum Heimavalla yfirtökutilboð í félagið í fyrrasumar og eignaðist félagið að fulllu fyrir um 17 milljarða króna. Í kjölfarið var nafni Heimavalla breytt í Heimstaden og var fyrirtækið afskráð af íslenska hlutabréfamarkaðnum.
„Markmið okkar er að einfalda og bæta líf viðskiptavina okkar með því að bjóða upp á vinaleg heimili“
Fjallað er um hagnað Fredriksborg AS í norskum fjölmiðlum í dag. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2020 varð opinber í gærkvöld. Hagnaður félagsins jókst um 55 prósent á milli áranna 2019 og 2020.
8 milljarða hagnaður
Fredriksborg AS seldi svo sænska móðurfélagi Heimstaden-samstæðunnar allt hlutafé í íslenska félaginu Heimstaden ehf. fyrr í sumar fyrir 25 milljarða króna. Mismunurinn á kaup- og söluverði Fredriksborg AS á Heimavöllum var því 8 milljarðar króna. Hagnast félagið því vel á viðskiptum með íslenska leigufélagið.
Fredriksborg AS er eftir sem áður stærsti óbeini hluthafi íslenska leigufélagsins í gegnum Heimstaden-samstæðuna sem rekur sambærileg leigufélög í Noregi, Svíþóð, Danmörku, Hollandi, Póllandi og Tékklandi. Félagið gerir mikið út á samfélagslega ábyrgð og hefur forstjóri félagsins, Patrick Hall, meðal annars sagt: „Markmið okkar er að einfalda og bæta líf viðskiptavina okkar með því að bjóða upp á vinaleg heimili.“
Félagið á 116 þúsund íbúðir
Eigandi Frediksborg AS og þar með stærsti hluthafi Heimstaden AS er norski fjárfestirinn og ævintýramaðurinn Ivar Tollefsen sem oftsinnis hefur verið í kastljósi fjölmiðla í Noregi fyrir hvers konar afrek á sviði útivistar. Hann hefur meðal annars skíðað yfir Grænland og klifið hæstu tinda í fimm heimsálfum á einungis fimm vikum. Tollefsen á í dag 86 prósenta hlut í Heimstaden-samstæðunni í gegnum félagið Fredriksborg. Í fyrra var hann í 805. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn í heimi.
Alþjóðlega leigufélagið Heimstaden, sem íslenska dótturfélagið er hluti af, á nú samtals 116 þúsund íbúðir í áðurnefndum löndum. Íbúðirnar á Norðurlöndum er um 50 þúsund og í Tékklandi á félagið 40 þúsund íbúðir. Reksturinn á Íslandi er því aðeins lítill hluti af heildarrekstri Heimstaden-samstæðunnar eða rúmlega eitt prósent sé horft á heildarumfang leiguíbúðanna sem Heimstaden á.
Athugasemdir