Það var í Iðnó á þessum degi fyrir 10 árum, 29. júlí. Við stóðum prúðbúin fyrir framan ljósmyndara öll 25 sem höfðum ásamt fámennu en dugmiklu starfsliði unnið saman sleitulaust í stjórnlagaráði í fjóra mánuði. Við höfðum verið kjörin til verksins af þjóðinni og skipuð af Alþingi til að endurskoða lýðveldisstjórnarskrána frá 1944 eða umskrifa hana eftir atvikum. Við höfðum stuðzt við gagnlega undirbúningsvinnu stjórnlaganefndar sem Alþingi hafði skipað og haft samráð við fjölda fólks um allt land. Til verksins hafði Alþingi falið okkur víðtækt umboð með sérstökum lögum og ályktunum og efnt að fullu fyrirheit sitt um að hafa engin afskipti af verkinu. Þingið kvaddi ráðið saman til aukafundar í marz 2012 til að svara fáeinum tæknilegum spurningum. Þau samskipti gengu eins og bezt verður á kosið.
Forsagan
Aðdragandinn var öllum ljós. Hrunið hafði leitt Alþingi líkt og fólkið í landinu að þeirri niðurstöðu að nú yrði ekki lengur undan því vikizt að endurskoða stjórnarskrána. Því hafði Alþingi marglofað og margsvikizt um eins og Sveinn Björnsson forseti lýsti í nýársávarpi sínu til þjóðarinnar 1949 og Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti, ítrekaði í formála sínum að Nýja íslenska stjórnarskráin 2018. Alþingi hafði staðið vel að undirbúningi málsins, ekki aðeins stjórnarflokkarnir Samfylkingin og Vg 2009–2013 heldur einnig stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsókn framan af. Allir þingflokkar höfðu lagt hönd á plóg.
Ítarlegar skoðanakannanir DV sýndu ríkan samhljóm meðal þjóðarinnar og kjörinna stjórnlagaráðsfulltrúa um helztu mál, einkum auðlindir í þjóðareigu og jafnt vægi atkvæða, erfið mál sem styrr hafði staðið um allar götur frá 1975 (auðlindir) og 1849 (vægi atkvæða) og Alþingi hafði reynzt ófært um að leysa. Þjóðfundurinn 2010 þar sem 950 kjósendur valdir af handahófi úr þjóðskrá áttu sæti tók í sama streng.
Við sem sátum í stjórnlagaráði skildum ábyrgðina sem á okkur hvíldi. Okkur tókst að gera frumvarp til nýrrar stjórnarskrár með mörgum brýnum og löngu tímabærum réttarbótum þannig úr garði að allir fulltrúar í ráðinu samþykktu frumvarpið að lokum. Einróma samþykkt stjórnarskrárfrumvarps er einsdæmi í sögu heimsins. Upphafsorðin slógu tóninn: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“
Þegar leikstjórinn í hópnum, Þórhildur Þorleifsdóttir, stillti okkur upp til myndatöku eftir afhendinguna byrjaði eitt okkar (játning: það var ég!) að syngja Ísland ögrum skorið lágum rómi og hin tóku undir eitt af öðru þannig að úr varð innilegur kórsöngur. Ég heyrði hjörtun slá. Þannig var andrúmsloftið í stjórnlagaráði frá fyrsta degi. Þaðan barst ekki ein frétt um misklíð. Stundum var sungið milli funda, Ómar Ragnarsson, söngmálastjóri ráðsins, sá til þess, því tónlist þjappar fólki saman. Við máttum vera stolt og glöð að loknu verki.
Á leiðinni heim úr Iðnó að lokinni athöfn varð Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, á vegi mínum. Ég sagði honum að það hefði valdið vonbrigðum sumra ráðsmanna að forseti Alþingis, flokkssystir hans, hefði tekið við frumvarpinu úr hendi formanns stjórnlagaráðs með sýnilegri ólund og ekki sagt neitt við athöfnina. Okkur Degi kom saman um að þetta viðmót þingforsetans mætti ekki reynast fyrirboði válegra tíðinda.
Alþingi fór nú yfir frumvarpið og gerði á því fáeinar orðalagsbreytingar og hugðist leggja það í þjóðaratkvæði samfara forsetakjöri í júní 2012. En þá var hlaupin ágeng ólund í stjórnarandstöðuflokkana, Sjálfstæðisflokk og Framsókn, sem stafaði öðrum þræði af því að Alþingi hafði kært fv. forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins til Landsdóms fyrir vanrækslu í aðdraganda hrunsins en hlíft öðrum þingmönnum sem Rannsóknarnefnd Alþingis hafði í skýrslu sinni 2010 lýst seka um vanrækslu í skilningi laga og þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu RNA hafði lagt til að yrðu ákærðir. Þetta kostaði stríð.
„Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lét þegar hér var komið eins og henni kæmi málið ekki lengur við“
Stjórnarandstaðan tók nú að beita fordæmalausu málþófi í þinginu en kvartaði jafnframt undan tímaskorti. Þeim tókst ekki að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, en þeim tókst með málþófinu að fresta henni fram í október 2012 gagngert til að draga úr kjörsókn, tefja vinnu þingsins og búa til færi á að gera lítið úr úrslitum atkvæðagreiðslunnar með skírskotun til dræmrar kjörsóknar þótt engin heimild sé í lögum til slíkrar túlkunar. Reglan er auðvitað þessi: þeir ráða sem kjósa. Kjörsóknin reyndist 49% sem er meira en til dæmis í þjóðaratkvæðagreiðslunni um dönsk-íslenzku sambandslögin 1918 (44%). Skoðanakannanir sýndu mjög svipaðar niðurstöður og sjálf atkvæðagreiðslan.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lét þegar hér var komið eins og henni kæmi málið ekki lengur við, svo það kom í hlut þeirra sem gáfu sig fram að fara um landið og kynna frumvarpið fyrir kjósendum. Rokkrúta Dögunar undir stjórn Lýðs Árnasonar, læknis og stjórnlagaráðsfulltrúa, fór um landið og hélt fjöruga fundi með ræðuhöldum, söng og hljóðfæraslætti. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 urðu þau að 67% kjósenda lýstu sig fylgjandi frumvarpinu sem grundvelli nýrrar stjórnarskrár, 83% lýstu sig fylgjandi ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu, og 67% lýstu sig fylgjandi ákvæðinu um jafnt vægi atkvæða. Þjóðin hafði talað.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis undir forustu Valgerðar Bjarnadóttur brást vel við þessum skýru úrslitum með því að mæla fyrir um að einungis orðalagsbreytingar af hálfu þingins kæmu úr þessu til álita, en engar efnisbreytingar, enda gæti þingið ekki leyft sér að taka fram fyrir hendur kjósenda. Fyrirmyndir voru skýrar. Bandaríkjaþing breytti til dæmis ekki stafkrók í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu 1787–1789.
Eftirleikurinn
Nú var Bleik brugðið. Máttlítil viðleitni til að spilla málinu, þar á meðal löglaus ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar af hálfu sex hæstaréttardómara, þar af fimm með skipunarbréf frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, hafði ekki skilað tilætluðum árangri. Kærurnar höfðu þrír innmúraðir sjálfstæðismenn lagt fram. Öryrkjabandalagið höfðaði hliðstæða kæru vegna forsetakosninganna 2012 gagngert til að velta Hæstarétti upp úr lögleysunni. Hæstiréttur vísaði þeirri kæru frá með þeim rökum að meintir ágallar hefðu engin áhrif getað haft á úrslit kosninganna alveg eins og réttinum bar einnig en láðist að gera við fyrri kæruna. Virðing Hæstaréttar hrapaði og var þó ekki úr háum söðli að detta.
Nú tók Alþingi sér annan vetur til að fara betur yfir frumvarp stjórnlagaráðs og gerði fáeinar orðalagsbreytingar til viðbótar þeim sem áður höfðu verið gerðar. Teymi lögfræðinga var falið að gera athugasemdir, en þeir komu upp um sig með því að leggja til efnislega gerbreytingu auðlindaákvæðisins í þeim augljósa tilgangi að negla niður óbreytta úthlutun aflakvóta til útvegsmanna. Héldu lögfræðingarnir að auðlindaákvæðið hefði verið samþykkt samhljóða í stjórnlagaráði með 22 atkvæðum og með dúndrandi lófataki í ofanálag til að fagna óbreyttri fiskveiðistjórn? – (tveir sátu hjá, einn fulltrúi var fjarverandi; sjá Stjórnlagaráðstíðindi 2, bls. 679). Héldu lögfræðingarnir að 83% kjósenda hefðu samþykkt auðlindaákvæði stjórnlagaráðs til að innsigla óbreytta fiskveiðistjórn? Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sá í gegnum ósvinnuna og setti upprunalegan texta aftur á sinn stað. Annað var eftir þessu.
„Virðing Hæstaréttar hrapaði og var þó ekki úr háum söðli að detta“
Frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, það er frumvarp stjórnlagaráðs með fáeinum orðalagsbreytingum af hálfu Alþingis eftir næstum tveggja ára yfirlegu, lá fullbúið til afgreiðslu á lokadögum þingsins í marz 2013. Fyrir lágu skriflegar yfirlýsingar 32ja þingmanna um stuðning þeirra við staðfestingu frumvarpsins. Líklegt mátti telja að allmargir þingmenn myndu láta sig vanta eða sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið frekar en að ganga fyrir opnum tjöldum í berhögg við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Úrslit væntanlegrar atkvæðagreiðslu í þinginu virtust því stefna í 2/3 með og 1/3 á móti líkt og í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Og þá gerist það að forseti Alþingis slítur þinginu um miðja nótt án þess að bera frumvarpið upp til staðfestingar eins og lög um þingsköp Alþingis frá 1991 kveða á um.
Í stað þess að þingforsetinn væri dreginn til ábyrgðar fyrir lögbrot var hún nokkru síðar gerð að formanni siðanefndar Alþingis.
Í kosningunum 2013 náðu höfuðandstæðingar nýju stjórnarskrárinnar meiri hluta á Alþingi einkum í krafti kosningaloforða um „leiðréttingu“ til handa fasteignaeigendum. Í því felst þó engin þversögn. Rannsóknir sýna að kjósendur hegða sér öðruvísi í þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem stjórnmálaflokkar koma hvergi nærri en í þingkosningum þar sem flokkar með fullar hendur fjár hræra í kjósendum og smala þeim á kjörstað. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fengu 51% atkvæða 2013 og 60% þingsæta (38 af 63).
Síðan 2013 hefur Alþingi haldið nýju stjórnarskránni í gíslingu þótt allar skoðanakannanir hafi æ síðan sýnt óbreyttan stuðning allt að 70% kjósenda við hana, nú síðast fyrr í þessum mánuði. Í október 2020 undirrituðu 43.423 kjósendur kröfu til Alþingis um að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og lögfesta nýju stjórnarskrána.
Þingið hefur reynt að láta líta svo út að málið sé enn í vinnslu með því að skipa nýjar nefndir. Ein nefndin skipuð þingmönnum 2013–2016 ætlaði sér að fara yfir öll 114 ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs, en gat aðeins komið sér saman um þrjú ákvæði til útþynningar og málið fjaraði út í þinginu án afgreiðslu líkt og fráleit frumvörp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir þinglok um daginn. Allt hefur þetta verið á eina bók lært: hvergi heil brú, hvergi þurr þráður. Í millitíðinni gaus hvert hneykslið upp á eftir öðru í herbúðum andstæðinga nýju stjórnarskrárinnar. Ein stjórnin sprakk 2016 vegna Panama-skjalanna sem gerðu þrjá íslenzka ráðherra heimsfræga að endemum á einni nóttu og önnur sprakk 2017 vegna trúnaðarbrests milli ráðherra varðandi vel tengdan barnaníðing.
Mótbárurnar
Hverjar eru mótbárurnar sem andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar hafa haldið fram? Svarið við spurningunni skiptir að vísu ekki miklu máli úr því að 67% kjósenda lýstu stuðningi við frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þar með átti málinu að réttu lagi að ljúka. En Alþingi brást. Menn bregðast ekki við úrslitum kosninga með því að leggjast yfir sjónarmið þeirra sem urðu undir, þau mega bíða, heldur með því að virða sjónarmið sigurvegaranna og taka jafnframt sanngjarnt tillit til hinna. Þetta er eitt aðalsmerki lýðræðis.
Vandinn er þessi. Alþingi er bersýnilega handgengið og háð auðstétt útvegsmanna, nýríkri stétt manna sem Alþingi bjó sjálft til með lögfestingu núgildandi fiskveiðistjórnarkerfis sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði 2007 að bryti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um mannréttindi. Alþingi kaus að hunza vilja þjóðarinnar með því að hrifsa aftur til sín hlutverk stjórnarskrárgjafans, hlutverk sem tilheyrir þjóðinni samkvæmt viðtekinni grundvallarhugsjón lýðræðis og Alþingi hafði áður með réttu falið í hendur þjóðarinnar svo sem staðfest er berum orðum í nýju stjórnarskránni. Alþingi sniðgengur þannig vilja kjósenda, einkum til að þóknast útvegsmönnum sem virðast hafa gleypt þingið með húð og hári. Öll rök málsins liggja fyrir vandlega skýrð í miklum fjölda greina og bóka innan lands og utan, en andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar sýna þeim engan áhuga heldur aðeins lítilsvirðingu. Á meðan þessu vindur fram halda áfram að birtast nýjar uppljóstranir um spillinguna sem bogar af sumum borgunarmönnum þeirra. Handjárnakliðurinn er byrjaður að berast heim til Íslands frá Namibíu og víðar að. Hann mun hækka.
„Handjárnakliðurinn er byrjaður að berast heim til Íslands frá Namibíu og víðar að“
Við þetta bætist hagsmunaárekstur þings og þjóðar þar eð nýju stjórnarskránni er ætlað að færa vald frá þingmönnum til kjósenda gegnum jafnt vægi atkvæða, beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum og heimild til röðunar á lista í almennum kosningum. Slíkar lýðræðisumbætur samkvæmt nýju stjórnarskránni myndu draga úr starfsöryggi einstakra þingmanna og kunna því að freista þingmanna til valdbeitingar til að vernda eigin hag á kostnað almennings. Má af því ráða mikilvægi þess að kjósendur setji landinu stjórnarskrá frekar en alþingismenn. Enda segir í nýju stjórnarskránni: „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.“ Í stjórnarskránni frá 1944 segir hins vegar: „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“
Ekkert af þessu ætti að koma á óvart. Fyrir liggur að bankarnir gleyptu Alþingi með húð og hári fyrir hrun. Þeir keyptu sér frið til að setja efnahagslíf landsins á hliðina og leggja fjölda heimila og fyrirtækja í rúst. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2010 (RNA, 2. bindi, bls. 200) kemur fram að skuldir tíu þingmanna, þar af sex sjálfstæðismanna að meðtöldum formanni og varaformanni flokksins, við föllnu bankana í hruninu námu samtals 8,3 milljörðum króna. Ekki hefur enn, þrátt fyrir fjölda áskorana, verið greint frá því hvort eða hvernig þessar skuldir voru gerðar upp. Einnig kemur fram í skýrslu RNA að árin fram að hruni styrktu bankarnir einstaka stjórnmálamenn um alls 34 mkr. auk styrkja til flokka og stjórnmálasamtaka um samtals 198 mkr. (RNA, 8. bindi, bls. 164-169; þar kemur fram að Kristrún Heimisdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, þáði 1 mkr. af Landsbankanum 2006 en sat þó aðeins á þingi í október-nóvember 2004, október 2008 og mars-apríl 2009 – dýrt hefði heilt kjörtímabil orðið). Í skýrslunni segir að bankarnir hafi haldið „illa utan um þau gögn sem vörðuðu alls kyns risnu og boðsferðir. Ekki er útilokað að kostnaður af þessu tagi hafi verið færður á dótturfélög bankanna í útlöndum ... tillögur um að bókhald flokkanna yrði gert opinbert voru lengst af kveðnar niður, meðal annars vegna eindreginnar andstöðu Sjálfstæðisflokksins gegn því.“
Lítum nú samt sem snöggvast á sumar helztu mótbárurnar gegn nýju stjórnarskránni og látum fjögur dæmi duga.
- Fyrrverandi forseti Alþingis hélt því fram í ræðustóli í Valhöll að viðstöddum gestum úr stjórnlagaráði 2011, þar á meðal okkur Katrínu Fjeldsted lækni og Ómari Ragnarssyni fréttamanni, að stjórnlagaráðið væri ólöglegt þar eð Hæstiréttur hefði ógilt kosninguna til Stjórnlagaþings. Þetta er tvöföld markleysa. Í fyrsta lagi var ógilding kosningarinnar lögleysa eins og Hæstiréttur viðurkenndi sjálfur í reynd þegar hann vísaði hliðstæðri kæru Öryrkjabandalagsins frá árið eftir. Í annan stað hætti aðdragandi málsins, þar með talin tilurð stjórnlagaráðs og starf þess, að skipta máli eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 lágu fyrir. Kjósendur samþykktu frumvarpið og þá skipti ekki lengur máli hvernig það hafði orðið til.
- Hér er annað dæmi um málflutning andstæðinganna tekið af félagsmiðli sjálfstæðismanns 12. júlí sl.: „Hjákátleg hrákasmíð Ómars Ragnarssonar, Illuga Jökulssonar, Þorvaldar Gylfasonar og kó má aldrei, aldrei verða stjórnarskrá! Dæmi úr hrákasmíðinni: ... „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér FRAMSAL RÍKISVALDS TIL ALÞJÓÐLEGRA STOFNANA““.
Um það sjónarmið hefur lengi ríkt víðtæk sátt innan Alþingis og utan að einn alvarlegur galli á núgildandi stjórnarskrá er að hún veitir ekki skýra heimild til aðildar að alþjóðlegu samstarfi, heimild eins og þeirri sem Danir bættu inn í sína stjórnarskrá 1953 og Norðmenn 1962. Ákvæðið í nýju stjórnarskránni um framsal ríkisvalds er sniðið eftir hliðstæðum ákvæðum dönsku og norsku stjórnarskránna. Upphrópun sjálfstæðismannsins að framan sýnir að hann vill að stjórnarskráin standi í vegi fyrir því að Íslendingar geti ákveðið að ganga til dæmis í Evrópusambandið. Hann vill að stjórnarskráin sé notuð til að aftra framgangi þjóðarviljans eins og hann kynni að birtast í þjóðaratkvæðagreiðslum. Bloggfærsla sama manns í Morgunblaðinu 17. júní 2016 bar yfirskriftina: „Nasistar hafa sómatilfinningu, þrátt fyrir allt.“
- Þá hefur því verið haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 hafi aðeins verið ráðgefandi og því beri enga nauðsyn til að virða úrslit hennar. Lögin í landinu leyfa ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Níu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið haldnar á Íslandi frá 1908 til þessa dags, en hin síðasta, þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána 2012, er hin fyrsta sem Alþingi hefur hunzað. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit á Bretlandi 2016 var með líku lagi ráðgefandi, en úrslit hennar voru virt.
- Fv. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lýsti sig andvígan nýju stjórnarskránni eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 lágu fyrir og tefldi fram tvíþættum rökum.
Annars vegar fann hann að ákvæði frumvarpsins um stjórnarmyndanir, ákvæði sem enginn hafði áður hreyft andmælum gegn, og sagði þetta meðal annars í nýársávarpi sínu 2013: „Frumvarpið ... yrði tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum“. Þetta er alrangt enda styðst ákvæði frumvarpsins um stjórnarmyndanir við skýrar fyrirmyndir meðal annars frá Finnlandi, Þýzkalandi og Svíþjóð.
„Það var því eins og útvegsmenn hefðu einnig gleypt forsetann fyrrverandi með húð og hári líkt og bankarnir höfðu gert fram að hruni“
Hins vegar hélt forsetinn því fram fullum fetum að „stjórnskipun nýrrar aldar [þyrfti] að hvíla á víðtækri og varanlegri sátt“ eins og stuðningur 67% kjósenda 2012 og æ síðan lýsti ekki nógu breiðri sátt. Forsetinn lét eins og hann vissi ekki að það liggur í hlutarins eðli að nýjar stjórnarskrár mæti andstöðu minni hlutans sem telur sig missa spón úr aski sínum líkt og gerðist hér heima við stjórnarskrárbreytingarnar 1942 og 1959. Svo harður ágreiningur reis á Alþingi 1942 að Sveinn Björnsson ríkisstjóri neyddist þá til að skipa utanþingsstjórn 1942. Og svo hörð rimma reis milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar 1959 að flokkarnir tveir gátu vart talazt við í 15 ár eftir það og má segja að vel hafi farið á því.
Það var því eins og útvegsmenn hefðu einnig gleypt forsetann fyrrverandi með húð og hári líkt og bankarnir höfðu gert fram að hruni. Rannsóknarnefnd Alþingis lýsti vandanum eftirminnilega í skýrslu sinni 2010 (8. bindi, bls. 170-178): „Forsetinn þjónaði ... öllum stóru bönkunum. ... hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H. C. Andersen.“
Gaslýsingin
Víkur nú sögunni að ritgerð eftir Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing sem heitir því hátíðlega nafni „Landfesti lýðræðis“ og birtist nýlega í Tímariti lögfræðinga. Skemmst er frá því að segja að ritgerð Kristrúnar morar í einstrengingi og rangfærslum. Kjarni málflutnings hennar er að fyrir stuðningsmönnum nýju stjórnarskrárinnar innan þings og utan hafi vakað „sniðganga stjórnarskrár, lögleysa og að endingu fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla í sögu Íslands sem var haldin var [sic] slíkum smíðagöllum að hún var frá frá [sic] öndverðu ófær um að leiða það mál til lykta sem heita átti að hún snerist um“ (bls. 408). Kristrún vitnar hvergi í þá fjölmörgu erlendu prófessora við suma helztu háskóla heims svo sem Berkeley, Chicago, Columbia, Harvard, Texas og Yale sem hafa auk margra innlendra höfunda fjallað um stjórnarskrármálið frá öllum hliðum án þess að sjá þá annmarka sem Kristrún þykist sjá. Þessi slagsíða á málflutningi hennar vitnar um einbeitta rangsleitni. Látum fjögur dæmi duga.
Kristrún fullyrðir að „framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings mistókst ... sem leiddi stjórnarskrármálið í farveg lögleysu“ (bls. 380). Þetta er rangt enda liggur fyrir að Hæstiréttur hefur sjálfur viðurkennt í verki að ógilding kosningarinnar var röng eins og lýst var hér að framan og einn dómarinn hefur viðurkennt fyrir mér í einkasamtali. Reynir Axelsson dósent afhjúpaði villu Hæstaréttar með þessum ályktunarorðum: „Eini raunverulegi og eini verulegi annmarkinn á kosningunni var að Hæstiréttur eyðilagði hana með ákvörðun sem hvílir á sannanlega röngum forsendum og byggist á hæpnum réttarheimildum.“ Kristrún segir: „tóku allir reglulegir dómarar þátt í umfjöllun málsins, alls sex dómarar“ (bls. 383). Þetta er einnig rangt enda voru dómarar í Hæstarétti þá níu. Athygli vakti að forseti Hæstaréttar, Markús Sigurbjörnsson, kom hvergi nærri ógildingunni.
„Hæstiréttur hefur sjálfur viðurkennt í verki að ógilding kosningarinnar var röng“
Kristrún skrifar að Feneyjanefndin sem Alþingi fékk til að fara yfir frumvarp stjórnlagaráðs ásamt tillögum þingsins um orðalagsbreytingar 2013 hafi gefið frumvarpinu „algjöra falleinkunn“ (bls. 398). Þetta er rangt. Feneyjanefndin gerði hjálplegar en þó ekki stórvægilegar athugasemdir við frumvarpið. Hún lýsti ánægju með lykilákvæðin um jafnt vægi atkvæða, persónukjör, beint lýðræði, upplýsingafrelsi og auðlindir í þjóðareigu og lagði lagatæknilega blessun sína yfir frumvarpið með því að benda eingöngu á atriði sem auðvelt reyndist fyrir Alþingi að bregðast við áður en frumvarpið var lagt fyrir þingið til staðfestingar vorið 2013.
Kristrún mærir 79. grein gildandi stjórnarskrár sem kveður á um að til að breyta stjórnarskránni þurfi Alþingi fyrst að samþykkja breytinguna, síðan skuli kjósa að nýju til Alþingis og nýtt þing þurfi síðan að staðfesta breytinguna. Hún heldur því síðan fram að „án víðtæks sammælis á Alþingi sé afgreiðsla stjórnarskipunarlaga með tilheyrandi þingrofi óframkvæmanleg“ (bls. 378). Hún segir síðan: „Væri það allsendis óeðlilegt ef þeir réðust þannig í að svipta sjálfa sig þingmennsku, e.t.v. fyrir fullt og allt ...“ (bls. 395). En einmitt þannig var stjórnarskránni breytt bæði 1942 þegar var kosið til Alþingis fyrst í júlí og síðan aftur í október og 1959 þegar kosið var fyrst í júní og síðan aftur í október. Þingmenn réðust þannig í að „svipta sjálfa sig þingmennsku, e.t.v. fyrir fullt og allt ...“ Nýja stjórnarskráin leggur til einfaldari leið, þá að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá og beri þær síðan undir þjóðaratkvæði. Það taldi stjórnlagaráð vera eðlilegri aðkomu þings og þjóðar að stjórnarskrárbreytingum hlið við hlið. Einmitt þannig – með einni atkvæðagreiðslu þingsins og einni þjóðaratkvæðagreiðslu – var lýðveldisstjórnarskráin lögfest 1944 þvert gegn breytingarákvæði gildandi stjórnarskrár frá 1874, ákvæði sem er enn í gildi.
Kristrún lýsir „samhljóða samþykki“ (bls. 387) frumvarps stjórnlagaráðs í júlí 2011. Hún virðist ekki kunna skil á muninum á „samhljóða“ og „einróma“. „Samhljóða“ samþykki þýðir að enginn fulltrúi greiddi atkvæði á móti en einhverjir – kannski allir nema einn! – kunna að hafa setið hjá. „Einróma“ þýðir að allir fulltrúarnir 25 greiddu atkvæði með, enginn var á móti og enginn sat hjá. Á þessu tvennu er reginmunur. Frumvarp stjórnlagaráðs var samþykkt einróma, ekki samhljóða. Kristrún heldur áfram: „Afhenti ráðið Alþingi skjal sem var ... alls ekki fullbúið stjórnarskrárfrumvarp hvorki að efni né formi.“ Þetta er rangt, enda lagði ríkisstjórnin frumvarpið fram á Alþingi að vandlega athuguðu máli með smávægilegum orðalagsbreytingum sem voru að vísu ekki allar til bóta að minni hyggju, einkum breytingin úr „fullt gjald“ í „eðlilegt gjald“ í auðlindaákvæðinu fyrir tilstilli þingflokksformanns Vg með kveðju frá Samherja og Namibíu, en það var bitamunur en ekki fjár.
Steininn tekur úr þegar Kristrún sakar stuðningsmenn nýju stjórnarskrárinnar óbeint um „lýðhyggju, popúlisma og jafnvel fasisma“ (bls. 371) og skipar sér þar með í sveit með nokkrum virðingarmönnum Sjálfstæðisflokksins, til dæmis bæjarstjóranum sem telur „talsmenn Stjórnarskrárfélagsins nota sömu aðferð og Trump“. Hér stöndum við frammi fyrir þekktu sálfræðilegu fyrirbæri sem kallast gaslýsing og lýsir sér meðal annars í því að einn sakar annan um það sem hann sjálfur aðhefst. Trump, fv. Bandaríkjaforseti, sakar andstæðinga sína rakalaust um að hafa stolið af sér forsetakosningunni í fyrra og á nú yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til valdaráns enda liggja skýrar sannanir fyrir í Georgíu og víðar. Það lýsir makalausri óskammfeilni að bera slíkan málflutning á borð – og það í Tímariti lögfræðinga.
Þeim mun spaugilegri er yfirlýsing tímaritsins á forsíðu greinar Kristrúnar: „Þessi grein hefur staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt verklags- og ritrýnireglum Tímarits lögfræðinga.“
Hugsum okkur bílasölu þar sem stórt skilti hangir yfir innganginum með svofelldri áletrun: „Við ástundum heiðarlega viðskiptahætti.“
Myndir þú, lesandi minn góður, kaupa notaðan bíl á slíkum stað?
Athugasemdir