31 prósent svarenda sögðust jákvæðir gagnvart sósíalisma í könnun sem MMR gerði fyrir Sósíalistaflokk Íslands. 29 prósent sögðust jákvæðir gagnvart kapítalisma.
Könnunin var gerð dagana 8. til 14. júlí. Svöruðu 945 einstaklingar og var könnunin gerð á netinu. 43 prósent svarenda sögðust neikvæðir gagnvart kapítalisma, en 41 prósent neikvæðir gagnvart sósíalisma. Þannig var mjög mjótt á mununum.
Þegar litið er til afstöðu eftir kyni kemur hins vegar í ljós að 51 prósent kvenna sögðust neikvæðar gagnvart kapítalisma og 41 prósent sögðust jákvæðar gagnvart sósíalisma. Þannig virðist félagshyggja njóta mikillar hylli kvenna umfram kapítalisma.
Hjá körlum var þessu hins vegar öfugt farið. 37 prósent þeirra sögðust jákvæðir gagnvart kapítalisma og 49 prósent þeirra neikvæðir gagnvart sósíalisma. Lítill munur var á afstöðunni eftir því hvort svarendur eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni.
Einnig var spurt um afstöðu til nýfrjálshyggju. Voru svarendur afgerandi andvígir henni. 51 prósent sögðust neikvæðir, en aðeins 13 prósent jákvæðir. Var lítill munur á körlum og konum að þessu leyti.
Athugasemdir