Borgarstjóri hefur lagt til að 413 milljónum króna verði veitt aukalega í aðgerðir til að skapa sumarstörf fyrir ungt fólk og vegna fjölgunar nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur. Um aðgerðir vegna Covid-19 faraldursins er að ræða. Fast að því eitt þúsund fleiri umsóknir um störf hjá Vinnuskólanum hafa borist í ár miðað við árið 2019, áður en kórónaveirufaraldurinn skall á.
Tillaga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um viðauka við fjárhagsáætlun borgarinnar var lögð fram á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag. Í tillögunni er gert ráð fyrir að 278 milljónir verði færðar af liðnum ófyrirséð og til sumarstarfa fyrir 17 ára og námsmenn 18 ára og eldri. Áætlað er að kostnaður borgarinnar nemi 147 milljónum króna vegna starfa fyrir 17 ára fólk og 131 milljón króna vegna starfa námsmanna eldri en 18 ára.
Þá er lagt til að fjárheimildir vegna Vinnuskóla Reykjavíkur verði hækkaðar um 135 milljónir króna vegna fjölgunar nemenda þar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að aðsókn í Vinnuskólann sé töluvert meiri en var fyrir kórónaveirufaraldurinn. Þannig var fjöldi nemenda sumarið 2019 um 2.300 talsins en skráðir nemendur við skólann 4. júní síðastliðinn voru tæplega 3.300 talsins. Er sá fjöldi svipaður og síðasta sumar. Launakostnaður vegna fleiri nemenda nemur 78 milljónum króna, launakostnaður vegna fjölgunar starfsfólks er 45 milljónir og annar rekstrarkostnaður vegna fjölgunar nemenda er 12 milljónir króna. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar.
Athugasemdir