Almennt er talið að fimmti hver fullorðinn Íslendingur glími við langvinna verki, það er verki sem hafa varað í þrjá mánuði eða lengur. Að lágmarki 56 þúsund fullorðinna þjást því af langvinnum verkjum og ætla má að þriðjungur þessara einstaklinga sé óvinnufær af þeim völdum, tæplega 20 þúsund Íslendingar. Endurskipuleggja þarf heilbrigðisþjónustu og auka fræðslu til að takast á við vandann.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um langvinna verki. Mjög stór hluti langvinna verkja er af óljósum toga og oft er erfitt bæði að greina þá og meðhöndla. Þeir trufla hins vegar daglegt líf og hafa áhrif á hegðun og geðheilsu fólks, auk líkamlegrar heilsu. Oftast er um að ræða verki í stoðkerfi líkamans en stoðkerfissjúkdómar eru afar algeng orsök örorku á Íslandi. Bakverkir eru allt að helmingur langvinnra verkja í stoðkerfi.
Íslenskar rannsóknir benda til að algengi langvinnra verkja hjá fullorðnum sé í kringum 20 til 48 prósent. Sé tekið mið af lægstu tölum má því gera ráð fyrir að hið minnsta 56 þúsund fullorðnir Íslendingar þjáist af langvinnum verkjum. Ætla má að þriðjungur þessara einstaklinga sé óvinnufær af þessum völdum.
Samkvæmt rannsóknum eru verkir alla jafna algengari hjá eldra fólki en yngra og sömuleiðis hjá konum fremur en körlum. Það skýrist að hluta til af því að konur eru í aukinni áhættu þegar kemur að ýmsum langvinnum verkjavanda. Má þar nefna að konur eru í aukinni áhættu á að glíma við vefjagigt, slitgigt og mígreni.
Ópíóðalyf notuð í of miklum mæli
Flestir þeirra sem glíma við langvinn verkjavandamál leita fyrst til heilsugæslu, en hún hefur hingað til haft takmörkuð skipulögð eða fjölþætt úrræði til að takast á við vandann. Aðgengi að fjölþátta endurhæfingu og sérhæfðri verkjameðferð er þá takmarkað hér á landi og biðlistar eru langir. Samkvæmt íslenskri rannsókn sagðist fimmti hver sá sem hafði langvinna verki þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda. Yfir helmingur sjúklinga hafði leitað sér heilbrigðisþjónustu vegna verkjanna einvern tíma á sex mánaða tímabili áður en rannsóknin var gerð.
Mikil aukning hefur orðið á lyfjaávísunum sterkra ópíóðalyfja síðustu tvo til þrjá áratugi hér á landi. Þannig var árið 1990 ávísað einum dagskammti ópíóða fyrir hverja þúsund íbúa. Árið 2016 var talan komin í rúma 27 skammta á hverja þúsund manns. Sama ár var lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins settur á laggirnar og frá þeim tíma hefur dregið úr ávísunum ópíóðalyfja og eru þær nú 12 skammtar á hverja þúsund íbúa Íslands. Samkvæmt bresku leiðbeiningum sem vísað er til í skýrslunni ætti almennt ekki að nota ópíóðalyf við langvinnum verkjum af óþekktum toga heldur einkum við bráðum verkjum eða illkynja sjúkdómum.
Starfshópurinn leggur til aðgerðir í þremur liðum að bættri þjónustu við sjúklinga sem glíma við langvarandi verki. Í fyrsta lagi þurfi að auka kennslu um verki í námi nema í heilbrigðisgreinum og auka fræðslu til almennings um langvinna verki, auk þess sem auka þurfi fræðslu um sterk verkjalyf og vinna að skynsamlegri ávísun þeirra. Í öðru lagi þurfi að koma á þverfaglegu endurhæfingarteymi í heilsugæslu til að þróa þjónustu fyrir fólk með langvinna verki. Í þriðja lagi þurfi að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu vegna langvinnra verkja.
Athugasemdir