Jón Óttar Ólafsson, rannsakandi Samherja, sótti gögn inn á Dropbox-geymsluský Jóhannesar Stefánssonar í kjölfar þess að hann steig fram og ljóstraði upp um Namibíumálið svokallaða. Þetta er staðfest í yfirlýsingu hans sjálfs til namibískra dómstóla.
„Ég opnaði að nýju í fyrsta sinn drop-box sem ég hafði lokað í júlí 2016. Það hafði aldrei verið greint af neinum allan þennan tíma,“ segir Jón Óttar í yfirlýsingu sinni.
Þessi yfirlýsing Jóns Óttars, sem og annarra lykilstarfsmanna útgerðarinnar, var send namibískum dómstólum 31. apríl síðastliðinn. Í yfirlýsingunum er allri ábyrgð á mútugreiðslum og öðru ólöglegu vísað á Jóhannes sjálfan en þó á sama tíma dregið í efa að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.
Yfirlýsingar Jóns Óttars og Örnu Bryndísar Baldvins McClure, innanhúslögfræðings Samherja, lýsa nokkuð ítarlega hvernig þau komust yfir Dropbox-reikning Jóhannesar og hvenær þau sóttu þangað gögn. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar var um að ræða persónulegan aðgang hans, ekki geymslusvæði á vegum fyrirtækisins.
Það skal tekið fram að í gögnum málsins er búið að þýða íslenskan póstinn yfir á ensku og er þetta þýðing af þeim texta á íslensku.
Ingvar fullyrti að inni á þessum dropbox-reikningi væri að finna skjöl sem tengdust starfseminni í Namibíu. Engu að síður var um að ræða persónulegt geymsluský Jóhannesar.
Skoðaði gögnin eftir uppljóstrun
Arna lýsir því svo í yfirlýsingu sinni að Samherjafólk hafi munað eftir þessum reikningi eftir uppljóstrun Namibíumálsins.
„Í janúar 2020 mundum við eftir Dropbox reikningi sem hafði verið lokaður síðan 21. júlí 2016 og endurræstum það. Fram að því hafði Dropboxið verið lokað og gleymt. Enginn hafði aðgang að því síðan því var lokað í júlí 2016,“ segir Arna í sinni yfirlýsingu.
„Eftir ásakanir herra Stefánssonar og fjölmiðlateymisins í slagtogi með honum birtust fór ég í gegnum tölvupósta herra Stefánssonar sem og dropboxið hans frá 2016 sem hafði verið opnað að nýju,“ lýsir hún.
Telja sig sjá kókaínpoka
Bæði Arna og Jón Óttar fullyrða að myndir í þessu geymsluskýi sanni að Jóhannes hafi neytt vímuefna og átt samskipti við vændiskonur. Ekki er þó að sjá í yfirlýsingum þeirra hvernig þau komast að þessari niðurstöðu.
Á tveimur myndböndum segjast þau einfaldlega hafa borið kennsl á hvítt efni á hótelherbergi Jóhannesar sem líkist poka af kókaíni. Í yfirlýsingum sínum telja þau þessar myndir sína fram á að Jóhannes hafi verið óreglumaður og að yfirlýsingar Samherja þess efnis hafi átt rétt á sér.
Að öðru leyti virðist ekki vísað í þau gögn sem hafi fundist á Dropbox reikningnum.
Ásakanir um eiturlyfjaneyslu virðast þó ekki tengjast efnisatriðum Namibíumálsins, sem snýst um að Samherji hafi greitt áhrifamönnum þar í landi fyrir aðgang að verðmætum hestamakrílskvóta.
Sex einstaklingar sæta nú ákæru vegna þessa í Namibíu og eru þau málaferli tilefni yfirlýsinga Samherjafólksins.
Athugasemdir