Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að framganga Samherja sem afhjúpuð var í Stundinni og Kjarnanum fyrir helgi vera algerlega óboðlega. Þetta sagði hún á Alþingi í morgun, þar sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, spurði í óundirbúnum fyrirspurnum út í afstöðu hennar gagnvart framgöngu útgerðarfélagsins.
„Ég held að við hæstvirtur þingmaður séum algjörlega sammála um að þessi framganga er auðvitað algerlega óboðleg, óeðlileg og á ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. Þannig er það,“ sagði hún og bætti við:
„Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu. Svona gera menn einfaldlega ekki.“
Skæruliðar Samherja
Í forsíðufrétt Stundarinnar frá því á föstudag var hulunni svipt af starfsháttum starfsmanna Samherja og hvernig árásir á blaðamenn hafa verið skipulagðar af hópi lykilstarfsmanna útgerðarinnar.
„Skæruliðadeildina“ mynda þau Þorbjörn Þórðarson almannatengill, Arna Bryndís McClure Baldvinsdóttir lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri. Sá síðastnefndi hefur látið birta í sínu nafni fjölda greina sem Þorbjörn og Arna hafa ýmist skrifað eða ritstýrt.
Eins og fram kom í umfjöllun bæði Stundarinnar og Kjarnans eru þau öll íbeinu sambandi við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, Björgólf Jóhannsson, sem tímabundið var forstjóri útgerðarinnar, og Jón Óttar Ólafsson, rannsakanda fyrirtækisins.
Í samskiptum á milli Örnu og Páls var til að mynda ítrekað talað um að stinga og sparka í uppljóstrarann í Namibíumálinu svokallaða og blaðamennina sem afhjúpuðu það.
„Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið,“ sagði Arna til að mynda um uppljóstrarann.
Athugasemdir