Árið 2016 varð ég fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur. Ég var einn, þeir voru fleiri og sá sem réðst á mig var greinilega í vígahug því ég þurfti ekki nema að „vera fyrir“ til að vinna mér inn högg og spörk. Það er skemmst frá því að segja að ég tapaði þeim slagsmálum. Ég var blár og marinn en blessunarlega óbrotinn og gekk frá öllu saman með sært egóið undir vængnum. Engu að síður þótti mér réttlætismál að kæra manninn enda árásin með öllu óverðskulduð, geti slíkt á annað borð nokkurn tímann verið verðskuldað. Lögreglan tók skýrslu og sagði að haft yrði samband við mig þegar meira lægi fyrir í málinu. Tveimur vikum síðar fékk ég símtal þar sem mér er tilkynnt að árásarmaður minn hefði verið yfirheyrður og neitaði öllum sökum. Þann vitnisburð studdu félagar hans og þar sem ekki lægju fyrir önnur vitni eða myndbandsupptökur þá næði málið ekki lengra að sinni. Orð stæði á móti orði og afskaplega ólíklegt að nokkuð myndi vinnast frekar í málinu færi það lengra. Þar með lauk símtalinu sem og von minni um eitthvert réttlæti gagnvart árásarmanni mínum. En þá spyr ég þig, lesandi góður: Þegar símtalinu lauk og ég fékk að vita að ekki yrði aðhafst frekar í málinu, hafði ég þá ekki lengur verið laminn? Hafði ofbeldið sem ég varð fyrir gufað upp fyrir tilstilli réttarríkisins? Að sjálfsögðu ekki og það sem meira er þá hefur enginn sem ég hef sagt þessa sögu verið í nokkrum einasta vafa um að á mig hafi verið ráðist. Ég var ungur karlmaður í aðstæðum þar sem ofbeldi kemur reglulega fyrir. Ég meira að segja efast um að þú, lesandi góður, hafir í eitt augnablik efast um sannleiksgildi sögu minnar. Hvers vegna er það þá svo að okkur gengur illa að trúa fólki, aðallega konum, sem segist hafa orðið fyrir annars konar ofbeldi? Nánar tiltekið kynferðisofbeldi?
Viðbrögð gagnvart þolendum
Þegar þolendur greina frá kynferðisofbeldi sem þau hafa orðið fyrir eru tvenns konar viðbrögð ávallt framarlega í umræðunni. Annars vegar er það frasinn „Saklaus uns sekt er sönnuð“, gjarnan með vísan í það réttarríki sem við búum í. Hins vegar eru það óumflýjanlega ásakanir um lygar, að þolendur séu að segja ósatt, gjarnan viljandi, og séu þannig sek um rangar sakargiftir. Hið síðarnefnda heyrist gjarnan frá gerendum og stuðningshópi þeirra. En á hve traustum grunni standa þessi tvö viðbrögð?
„Það er líklegra að verða fyrir röngum sakargiftum í flestum málaflokkum öðrum en kynferðisbrotamálum“
Þetta með sektina og sakleysið
Til að ná fram mynd af umfangi kynferðisbrota á Íslandi má rýna í tölulegar upplýsingar viðkomandi stofnana, það er lögreglu, saksóknara og Stígamóta. Nýjustu tölulegar upplýsingar sem gefa heildstæða mynd af fjölda mála og niðurstöðu þeirra eru frá 2017, sem skýrist helst af því að kynferðisbrotamál geta verið afar flókin og umfangsmikil í meðförum og geta því tekið langan tíma í dómskerfinu, sérstaklega þegar litið er til áfrýjana.
Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2017 kærðu aðeins um 10% þeirra sem leituðu til Stígamóta til lögreglu.1 Þessi tölfræði liggur nokkuð nærri meðaltali Stígamóta yfir síðustu ár og rímar við erlendar rannsóknir sama efnis. Ástæður þess að þolendur kæra ekki geta verið margar, en sem dæmi má nefna að um 85% þeirra sem leituðu til Stígamóta nefndu skömm sem ástæðu til að kæra ekki og að um 75% kvenna sem hafði verið nauðgað litu svo á að nauðgunin hefði verið þeim sjálfum að kenna.2

Lögreglu bárust 144 tilkynningar um nauðganir árið 2017.3 Af þeim féllu 78 mál niður í meðförum lögreglu en 66 mál voru send áfram til saksóknara. Meðferð saksóknara leiddi til niðurfellingar 45 mála en 15 ákærur voru gefnar út. Af þeim var sakfellt í 7 málum og 5 mál leiddu til sýknu en niðurstaða hinna þriggja er ýmist óljós eða liggur ekki fyrir.4
Með hliðsjón af tölfræði Stígamóta má leiða að því líkum að um 1.440 nauðganir hafi átt sér stað á Íslandi yfir árið 2017 en við sjáum aðeins 7 sakfellingar. Getur verið að það sé ekkert hæft í hinum 1.433 tilfellunum? Skoðum aftur tölfræðina.
Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2017 segjast á bilinu 80%–85% skjólstæðinga Stígamóta finna fyrir kvíða, skömm og/eða depurð í kjölfar þess kynferðisofbeldis sem þau lentu í. Þar skammt á eftir koma sektarkennd, léleg sjálfsmynd, reiði og ótti. Skjólstæðingar Stígamóta segjast upplifa erfiðleika í tengslum við maka og/eða vini, erfiðleika með svefn, tilfinningadoða, félagslega einangrun, erfiðleika með kynlíf, sjálfsvígshugleiðingar, sjálfsskaða og svona má áfram telja. Miklar og ítrekaðar birtingarmyndir áfallastreituröskunar sem ólíklegt verður að telja að komi fram nema um einhvers konar áfall sé að ræða.

Til stuðnings þessu sjónarmiði, það er líkindum þess að sú eða sá sem kærir kynferðisbrot upplifi að á sér hafi verið brotið, má vísa til ummæla Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara við vísi.is frá árinu 2015 (feitletrun er eftir höfund):
„Það að kynferðisbrot sé fellt niður þýðir ekki að það liggi eitthvað fyrir um að kærandi hafi verið að ljúga.“ 5
Í sama streng tekur Helga Vala Helgadóttir, núverandi þingkona og lögfræðingur, sem starfað hefur um árabil sem lögmaður brotaþola kynferðis- og ofbeldisbrota:
„Ég ítreka, ég hitti aldrei á mínum lögmannsferli einstakling sem var að leika sér að því að leita á Neyðarmóttöku eða kæra brot til lögreglu. Þetta er engin gleðistund.“ 6
Kynferðisbrot geta verið gríðarlega flókin og sönnunarfærslan sérlega torveld. Gjarnan er engum öðrum gögnum fyrir að fara en vitnisburði þolanda og geranda og séu báðir metnir trúverðugir fellur málið niður. Eindregin neitun gerandans trompar vitnisburð þolandans ef ekkert annað kemur til, þannig er kerfið einfaldlega sniðið. Í ákæruvaldinu felst gríðarlega mikil ábyrgð enda dómar með tilheyrandi refsingum og frelsissviptingu með þeim mest íþyngjandi aðgerðum sem ríki getur beitt gagnvart þegnum sínum. Það má því færa rök fyrir því að í dómsal þurfi dómari að fara með sakborning sem saklausan uns sekt er sönnuð, það er útdeila ekki íþyngjandi refsingum af hálfu ríkisins fyrr en sekt er hafin yfir allan vafa. En líkt og bæði saksóknarar og lögmenn hafa bent á þýðir niðurfelling og jafnvel sýkna í máli ekki að ekkert hafi átt sér stað. Hvað gerist í raun og veru og hvað hægt er að sanna fyrir dómstólum eru tveir ólíkir heimar og þegar kemur að kynferðisbrotamálum virðast líkur þess að sakborningur sé með tandurhreina samvisku vera hverfandi.
Alltaf verið að ljúga svona löguðu
Að kæra einhvern ranglega fyrir refsiverðan verknað er brot á lögum, og það nokkuð alvarlegt brot í augum löggjafans.
Í 1. mgr. 148. gr. Almennra hegningarlaga segir:
Ég segi alvarlegt því 10 ára refsirammi laganna er nokkuð rúmur í samhengi íslenskra hegningarlaga og sambærilegur við brot á borð við að stefna öryggi landsins í hættu á alþjóðavettvangi, stuðning við hryðjuverk og vopnuð eða á annan hátt ofbeldisfull rán. Það er því ljóst að þegar slík mál koma upp þá eru þau tekin föstum tökum.
Ef litið er til erlendra rannsókna má sjá að tíðni rangra sakargifta þegar kemur að kynferðisbrotamálum er gjarnan talin vera um 5%, sem er nokkurn veginn á pari við aðra brotaflokka.7 Stóri gallinn við þessar rannsóknir er að í þessum málaflokki getur verið sérlega erfitt að meta hvenær um eiginlegar rangar sakargiftir sé að ræða, það er hvenær kærandi er vísvitandi að segja ósatt. Ólíkt öðrum brotaflokkum þar sem finna má urmul haldbærra sönnunargagna, er vitnisburður þolenda kynferðisbrota oft eina sönnunargagnið. Og minni er flókið fyrirbæri sem getur reynst óáreiðanlegt, sérstaklega þegar einstaklingur hefur orðið fyrir áfalli. Þannig getur minningum slegið saman við aðrar frá svipuðum tíma og eins geta minningar litast eftir á af upplýsingum sem berast eftir að atvikið á sér stað.8 Þetta þýðir þó ekki að þolandinn hafi ekki orðið fyrir kynferðisbroti, einungis að heili mannskepnunnar virkar ekki eins og tölva, sérstaklega undir álagi. Með þetta í huga má nálgast tíðni rangra sakargifta í kynferðisbrotamálum með öðrum hætti.
Það er líklegra að verða fyrir röngum sakargiftum í flestum málaflokkum öðrum en kynferðisbrotamálum. Til dæmis er fjórum sinnum líklegra að verða fyrir röngum sakargiftum í umferðarbrotamálum en kynferðisbrotamálum.
Samkvæmt úttekt Crown Prosecution Service (ríkissaksóknara Englands og Wales) sem gjarnan er litið til í þessum efnum voru á 17 mánaða tímabili 2011 og 2012 þar í landi gefnar út 5.651 ákæra vegna nauðgana. Á sama tíma voru einungis gefnar út 35 ákærur vegna rangra sakargifta er lúta að nauðgun.9 Það þýðir að einungis um 0,6% ákæra vegna nauðgana hafi verið taldar mögulegar rangar sakargiftir samkvæmt ákæruvaldinu. Þetta rímar við tölfræði íslenskra dómstóla. Hæstiréttur hefur einungis einu sinni staðfest dóm um rangar sakargiftir yfir konu sem áður hefur kært kæranda fyrir kynferðisbrot.10 Til samanburðar hefur rétturinn haft um 400 kynferðisbrotamál til meðferðar frá árinu 1991 11 sem þýðir að tíðni rangra sakargifta í kynferðisbrotamálum sé um 0,25% og fer minnkandi. Sé litið yfir dómasögu má sjá að það er margfalt líklegra að verða fyrir röngum sakargiftum í málaflokkum á borð við umferðarlaga- eða fíkniefnabrot en í kynferðisbrotamálum. 12 Líkurnar á að kærandi sé vísvitandi að segja ósatt eru hér einnig hverfandi.
Gerum betur
Af einhverjum ástæðum eru kynferðisbrotamál föst í orðræðu sem þekkist ekki í öðrum brotaflokkum. Einstaklingar sem kæra innbrot eru sjaldnast sökuð um að ljúga innbrotinu fyrir athygli eða hafa í raun viljað fá innbrotsþjófinn inn til sín. Einstaklingar sem kæra líkamsárás eru sjaldan vændir um að hafa í raun viljað slagsmálin en séð svo eftir því. Af einhverjum ástæðum hefur stór hluti samfélagsins tekið kynferðisbrot út fyrir sviga og kosið að trúa heldur gerendum en þolendum og líta á alla vangetu dómstóla til að klára málin sem fullkominn hvítþvott gerenda. Samt hallast öll okkar tölfræði í sömu átt. Það eru tölfræðilega yfirgnæfandi líkur á að einstaklingur sem leitar sér aðstoðar vegna kynferðisofbeldis hafi í raun og sann upplifað kynferðisofbeldi. Það eru tölfræðilega yfirgnæfandi líkur á að einstaklingur sem kærir kynferðisofbeldi hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það eru tölfræðilega hverfandi líkur á að einstaklingur sem kærir kynferðisofbeldi sé að segja ósatt. Sem skynsemisverur verðum við því að opna augun, taka betur á móti þolendum og breyta orðræðunni. Trúum fólki sem segist hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi því þar liggur ekki einungis manngæskan heldur einnig líkurnar. Að trúa þeim ekki býr til eitrað samfélag þar sem sárir fá ekki bót meina sinna, þar sem alið er á sundrung, og þar sem gerendur fá skjól til að halda brotum sínum áfram. „Saklaus uns sekt er sönnuð“ kann að vera góð vinnuregla fyrir dómara en í mannlegu samfélagi er það eitruð hugmyndafræði.
Athugasemdir