Dótturfélag Samherja endurgreiddi skattyfirvöldum í Færeyjum 350 milljónir. Eyðun Mørkøre, yfirmaður TAKS, færeysku skattstofunnar, segir óljóst hvað verði um fjármunina þar sem færeysk yfirvöld leiðrétti ekki skattaálagningu lengra en þrjú ár aftur í tímann. Málið sé óvenjulegt.
„Við höfum ekki haft samband við skattyfirvöld í öðrum löndum ennþá og við vitum ekki enn hvar þessir peningar eiga að enda,“ sagði Eyðun í viðtali við Kringvarpið, færeyska ríkissjónvarpið, í kvöld.
Málið snýst um skattskil og endurgreiðslu á sköttum færeyska félagsins Tindhólms, sem meðal annars notað var til að greiða íslenskum starfsmönnum Samherja í Namibíu laun. Vegna reglna í Færeyjum gat útgerðin fengið skatta sjómannanna endurgreidda, að því gefnu að þeir væru starfsmenn um borð í flutningaskipum.
„Ef önnur lönd telja sig eiga þessa peninga, geta þau haft samband við okkur“
En það var ekki raunin.
Óljóst er hvernig málið verður hanterað af skattyfirvöldum í Færeyjum. Það kemur til greina að endurgreiða sjómönnunum skattana, sem þeir svo verða að gera upp við viðeigandi stjórnvöld. Eyðun segir í samtali við Kringvarpið að engin niðurstaða sé komin í málið.
„Það kemur til greina að við höldum eftir þessum 17 milljónum,“ segir hann og vísar til 17 milljóna danskra króna, jafnvirði 350 milljóna íslenskra króna, sem voru endurgreiddar í kjölfar uppljóstrunar Kringvarpsins.
Það sé á ábyrgð stjórnvalda á Íslandi og í Namibíu að sýna fram á réttmæti krafna yfir fjármunum, vilji þau fá þá til sín.
„Ef önnur lönd telja sig eiga þessa peninga, geta þau haft samband við okkur, og sýnt fram á kröfu. Þá verðum við bara að sjá hvernig við bregðumst við,“ sagði hann.
Athugasemdir