Í Vínbúðum ÁTVR er til sölu vín frá vínframleiðandanum Psagot en framleiðsla vínsins fer fram á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum í Palestínu. Landtökubyggðir Ísraela þar eru brot á alþjóðalögum og brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindalög. Með sölu vínanna brýtur Vínbúðin einnig gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtækið starfar eftir.
Félagið Ísland-Palestína hefur sent alþingismönnum erindi þar sem vakin er athygli á þessari staðreynd. ÁTVR er eitt þeirra fyrirtækja sem starfar samkvæmt Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er alþjóðleg yfirlýsing sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Fyrstu atriði sáttmálans eru að „fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda og fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.“
Þá eru vínin sem um ræðir einnig ranglega upprunamerkt en þau eru sögð frá „Hinu forna Ísrael“ þegar staðreyndin er sú að þau er framleidd á Vesturbakkanum. Með því er brotið gegn samþykktum Evrópusambandsins en Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í nóvember 2019 um að vörur frá landtökubyggðum skuli skýrt merktar upprunastað.
Athugasemdir