Deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga nýrrar byggðar í Skerjafirði var samþykkt í borgarstjórn síðastliðinn miðvikudag. Um er að ræða blandaða byggð með 690 íbúðum, leikskólum og grunnskólum auk verslunar og þjónustu.
Íbúðirnar verða af ýmsum stærðum og hluti þeirra fellur undir verkefnið Hagkvæmt húsnæði, sem miðar að uppbyggingu fyrir ungt fólk og kaupendur fyrstu íbúða. Þá byggir Bjarg íbúðafélag íbúðir fyrir sína félagsmenn og Félagsstofnun stúdenta einnig stúdentagarða.
Deiliskipulagstillagan var samþykkt með atkvæðum flokkanna sem mynda meirihluta í borgarstjórn gegn atkvæðum fulltrúa minnhlutans, en borgarfulltrúi Sósíalista og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sátu hjá. Í bókun meirihlutans var uppbyggingunni fagnað en fulltrúar Sjálfstæðisflokks töldu ákvörðunina ótímabæra vegna meðal annars álitamála er varða samgöngur og álag á umferð auk umhverfisþátta.
Athugasemdir