Það má ýmislegt gott segja um íslenska heimsspekinga. Þeir hafa til dæmis á síðasta aldarfjórðungi verið duglegir við að reyna að bæta samfélag sitt með því að hvetja til upplýstrar umræðu um allt milli himins og jarðar. Ég er ekki frá því að þeim hafi orðið nokkuð ágengt í þeirri baráttu og því ber að fagna, meðal annars vegna þess að upplýst umræða er ekki bara gagnleg heldur getur hún líka verið ótrúlega skemmtileg. En af og til lenda heimsspekingarnir okkar í slíkri sjálfsupphafningu að þegar þeir líta niður á okkur pöpulinn, ofan úr hæðum sínum þá sundlar þá og þeir tapa áttum. Gott dæmi um þetta má finna í greinarstúf eftir fimm íslenska heimsspekinga sem birtist í Fréttablaðinu þann 9. febrúar undir fyrirsögninni: Áleitnar spurningar um Ísland sem tilraunaland. Hann byggði að mestu á spurningum um rannsókn sem ekki var búið að setja saman og var því ekki til. Hún var einungis óljós hugmynd í kollunum á nokkrum mönnum beggja vegna Atlantshafsins.
Spurningar sem bornar voru upp í grein heimsspekinganna byggðu á ágiskun þeirra á því hvernig sú hugmynd yrði gerð að rannsókn sem síðan yrði framkvæmd hér á landi. Þetta er svipað því og þegar einn af okkar ágætu tónlistargagnrýnendum skrifaði í dagblað dóm um tónleika sem aldrei voru haldnir. Síðan bæta félagarnir fimm gráu ofan á svart með því að efast um vísindalegt gildi rannsóknar sem þeir vissu ekkert um, vegna þess að það var ekkert til að vita um. Það er dagljóst á stúfnum að þeir hafa ekki hundsvit á þeim bólusetningarvanda sem blasir við heiminum í dag.
Nokkur atriði um hugsunina sem aldrei varð að rannsókn, rætur hennar og athugasemdir fimmmenninganna:
1Bóluefni Pfizers var þróað á tíu til ellefu mánuðum sem er undraskammur tími og fyrir vikið vitum við enn þann dag í dag fátt um það utan að það veitir góða vörn til skamms tíma, þeim sem eru bólusettir. Hversu lengi endist vörnin? Er þörf á því að gefa þriðja skammt eftir einhvern tíma og ef svo er hver er hann? Ver bóluefnið jafn vel fyrir öllum stofnum veirunnar? Hversu stóran hundraðshluta af samfélagi þarf að bólusetja til þess að það verji líka þá sem eru ekki bólusettir? Öllum þessum spurningum er ósvarað en hefði að öllum líkindum verið hægt að svara með stórri rannsókn á Íslandi, ef við hefðum ekki verið búin að kveða veiruna í kútinn með sóttvörnum.
2 Hér var alls ekki um að ræða tilraun til þess svindla sér fram fyrir í röðinni, heldur til þess að leggja að mörkum til lausnar á vanda sem allur heimurinn er að glíma við. Svör við spurningunum hér að ofan hefðu gert það mun auðveldara að skipuleggja bólusetningar um allan heim og jafnvel gert þær ódýrari. Án þess að gera stóra rannsókn á þjóð eins og Íslendingum tekur það býsna langan tíma að leita svara við spurningunum sem hefðu að öllum líkindum skipt mestu máli fyrir þær þjóðir sem minnst mega sín.
3 Heimsspekingarnir gefa það í skyn að niðurstöður rannsóknar á bólusetningu á Íslandi væru kannski ekki yfirfæranlegar á aðrar þjóðir, sem er einhvers staðar milli þess að vera hlægileg og grátleg minnimáttarkennd en minnimáttarkennd er það. Við Íslendingar erum nefnilega býsna góðir fulltrúar þeirrar dýrategundar sem er um það bil að gera jörðina óbyggilega. Þetta er ekki prívat og persónuleg skoðun mín heldur líka risastórs lyfjafyrirtækis sem heitir Pfizer og hefur stundað lyfjatilraunir um allan heim, svo lengi sem elstu menn muna, sem og allra virtustu vísindatímarita heimsins sem reglulega birta niðurstöður rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar sem oftast byggja á því að skoða eðli og hátt Íslendinga.
4 Síðan benda heimsspekingarnir á að það séu knýjandi spurningar um siðferðislegt réttmæti rannsóknarinnar og láta með því eins og þeir séu sér ómeðvitaðir um lögin um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og tilvist Vísindasiðanefndar. Engar vísinda-rannsóknir á mönnum eða á gögnum um menn mega fara fram á Íslandi án þess að vísindasiðanefnd leggi blessun sína yfir þær. Greinarstúfur fimmmenninganna er að vissu leyti vantraustsyfirýsing á okkar ágætu Vísindasiðanefnd. Það er hins vegar ljóst að allar bólusetningar á Íslandi, hvort sem þær eru gegn SARS-CoV-2 eða öðru illfygli, eru lögum samkvæmt skráðar í gagnagrunn sóttvarnarlæknis og notaðar til þess að sækja skilning á áhrifum bólusetninga. Það getur enginn sagt sig úr þeim gagnagrunni; ef þú ert bólusettur endarðu í honum. Þar af leiðandi hefðu allar bólusetningar undir hatti rannsóknarinnar sem aldrei varð, endað í gagnagrunninum og það hefði verið lögbundin skylda sóttvarnarlæknis að gera á þeim gagnarannsókn í því skyni að svara spurningunum sem ég rakti í #1.
5 Þeir spyrja líka félagarnir: „Er hætta fólgin í því að heil þjóð verði rannsóknarþýði fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki?“ Ef hugmyndin hefði verið þróuð upp í tilraun og hún framkvæmd á Íslandi hefði þjóðin öll orðið rannsóknarþýði fyrst og fremst fyrir mannkyn allt, ekki eitt alþjóðlegt lyfjafyrirtæki.
6 Í tilraun sinni til þess að hljóma fræðilega í greinarstúfnum nota heimsspekingarnir nokkur heiti sem ég er ekki viss um að hafi merkingu. Til dæmis spyrja þeir „Hvernig verður reynt að tryggja lýðræðislegt lögmæti rannsóknar sem varðar alla þjóðina“. Til hvaða eiginleika lögmætis er verið að vitna með lýsingarorðinu „lýðræðislegt“? Í tilraun minni til þess að skilja þetta fór ég að velta fyrir mér hvort þeir ættu við að rannsóknin yrði að vera í samræmi við lög sem væru sett af lýðræðislega kjörnu þingi, en það gekk ekki upp af því það gilda engin önnur lög í landinu. Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að þeir hafi verið að nota orðið „lýðræðislegt“ sem innhaldslaust skraut.
7 „Hvernig samrýmist slík rannsókn markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og annarra alþjóðastofnanna um að tryggja jafnan aðgang allra þjóða að bóluefni?“ spyrja heimsspekingarnir. Nú er erfitt að svara því hvernig rannsókn sem ekki er búið að hanna samrýmist markmiðum WHO. Eitt er þó víst að eftir því sem meira er vitað um bóluefnið og þá vörn sem það veitir þeim mun auðveldara er að dreifa því á þann hátt að það gagnist heiminum sem best. Það væri til dæmis mikill akkur fyrir þær þjóðir sem er líklegt að verði út undan ef við sýndum fram á að það sé lítil þörf á því að bólusetja alla. Það er hins vegar alveg ljóst að samningar Evrópusambandsins við lyfjafyrirtækin, sem við erum aðilar að, ganga í berhögg við þessi markmið WHO.
8 Heimspekingarnir klykkja svo út með því að segja: „Upplýst samfélagsumræða er mikilvægur aðdragandi svona rannsóknar, en hún tekur tíma.“ Hvar hafa þessir menn verið undanfarna tíu mánuði? Þjóðin hefur ekki um annað talað og hugsað en þessa pest. Það er ekkert sem hefur haldið meira fyrir henni vöku, ekkert sem hefur þrengt meira að henni, ekkert sem hefur svipt hana mannréttindum að sama marki. Þess vegna er ekkert í hugmyndinni um rannsókn af þeim toga sem hér um ræðir sem kallar á langa samfélagsumræðu, ef hún stæði til boða gæti þjóðin tekið upplýsta afstöðu í einni andrá eða í mesta lagi á dagsparti.
Að lokum þetta: Vegur og áhrif vísindasiðfræðinnar hefur aukist til muna á síðustu hálfri öld og það er af hinu góða. Hún hefur ekki bara varið samfélagið gegn afleiðingum hráslagalegra vísinda og vísindamenn gegn sjálfum sér, hún hefur gert vísindin það ásættanleg samfélaginu að þau hafa fengið að halda áfram sleitulaust. Það er afrek. Það er hins vegar með vísindasiðfræðina eins og önnur fög að hún er aldrei betri en fólkið sem stundar hana og góðu fólki jafnt sem hinum verða á mistök. Ég held að það séu mistök vísindasiðfræðinnar (fólksins sem stundar hana) að hafa nær einvörðungu beint sjónum sínum að réttindum fólks gagnvart læknisfræðinni og gleymt því að reyna að skilgreina skyldur þess. Víða er farið að líta á aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi; hvaða skyldur fylgja þessum mannréttindum til dæmis þegar kemur að vísindarannsóknum á heilsu og sjúkdómum? Þegar einstaklingur leitar til heilbrigðiskerfisins vegna sjúkdóms byggja líkur á því að hann fái bót meina sinna alfarið á því að þeir sem komu á undan honum með sama sjúkdóm veittu til þess leyfi að upplýsingar um þá yrðu notaðar til þess að gera uppgötvanir sem voru nýttar til þess að búa til aðferðir til þess að greina og lækna. Er það siðferðilega ásættanlegt að veita fólki rétt til þess að nýta sér þetta þótt það banni að upplýsingar um það sjálft séu notaðar til þess að bæta enn betur aðferðir til að lækna og greina?
Athugasemdir