Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn undir stjórn Guðmundar Franklíns Jónssonar, fyrrum forsetaframbjóðanda, segist ekki ætla að birta þá sem koma til greina á lista flokksins fyrr en allir flokkar hafa birt lista, af ótta við fjölmiðla. Flokkurinn hefur fengið úthlutað listabókstafnum O og verður því auðkenndur sem X-O.
„Það kemur ekki til greina að birta listann núna. Það er fullt af fólki á honum og það er svo hrætt við fjölmiðla og fjölmiðlar rífa fólk niður og fara að rannsaka hvað það hefur gert,“ segir Guðmundur í samtali við Stundina en flokkurinn tilkynnti um framboð sitt í gær.
Sama segir Guðmundur eiga við stefnuskrá flokksins en með því að fresta því að birta hana segir hann flokkinn vera koma í veg fyrir að aðrir steli hugmyndum þeirra. „Við ætlum að vera síðastir á vettvang og við ætlum að vera síðastir til að birta stefnuskrána. Við ætlum ekki að láta stela af okkur hugmyndum, sem hefur komið fyrir mig áður af Hægri grænum,“ segir Guðmundur.
Öfgafull orðræða
Nýlega birti Stundin grein um öfgafulla orðræðu í kjölfar skotárásar á bifreið Dag B. Eggertssonar borgarstjóra. Á umræðuvettvangi Frjálslynda Lýðræðisflokksins birtust færslur og ummæli sem réttlættu skotárásina. „Við erum búin að fá nóg af þessu spillta pakki. Farið að vinna vinnuna ykkar. Þá væri ekki skotið á ykkur. Hvað, halda þau að við fáum ekki ógeð á þessu elítupakki. Gott mál að hrista aðeins í ykkur,“ segir í einum ummælum sem finna má á umræðuvettvangnum.
Þá birti Guðmundur sjálfur færslu þar sem ábyrgðin á skotárásinni er færð yfir á stjórnmálamenn. „Það er þyngra en tárum taki að vita til þess að einhver sé orðin svo alvarlega staddur að viðkomandi sér ekki annað í stöðunni en að beita „hnefanum“ og í þessu tilfelli skotvopni. En það er ennþá sárara að horfa upp á mikilsmetið fólk skella skuldinni á harðari orðræðu. Við skulum algerlega hafa sökina þar sem hún liggur, en ástæðan fyrir vaxandi harðari umræðu og vaxandi ofbeldi, eru áratuga svik pólitíkusa, slóð brostinna vona þar sem öll loforð um bættan hag þeirra verst settu eru ALLTAF svikin og spilling í íslensku stjórnkerfi,“ segir þar.
Getur ekki borið ábyrgð á ummælum
Guðmundur segist ekki geta borið ábyrgð á ummælum sem birtast á síðunni, þrátt fyrir að vera stjórnandi síðunnar. Varðandi það að hafa deilt færslu sem færir ábyrgðina yfir á stjórnmálamenn segir Guðmundur að hann deili öllu sem hann fær sent. „Ég deili öllu sem á mig er sent. Þetta eru opin skoðanaskipti, það geta allir bara haft allar sínar skoðanir. Ég þarf ekki að vera sammála þeim eða ekki en menn verða að passa sig hvað þeir segja,“ segir hann og kveðst vera ósammála færslunni sem hann deildi.
„Við ætlum ekki að láta stela af okkur hugmyndum, sem hefur komið fyrir mig áður af Hægri grænum“
Aðspurður hvers vegna hann deili færslum sem hann er ósammála á umræðuvettvangi flokks undir hans forrystu segir hann málfrelsi vera í landinu svo lengi sem það „meiði ekki aðra“. Sömuleiðis segir hann mjög strangar reglur vera á síðunni. „Það eru mjög harðar reglur á síðunni að það má ekki blóta og það má ekki vera með hatursorðræðu og ef það eru erlendar fréttir þá verða þær að vera þýddar og ef eittthvað brýtur þetta er það tekið út strax. Ég hef þurft að taka út helling af dóti sem aðrir eru að setja þarna inn,“ segir hann. Guðmundur blótar hins vegar oft í pistlum sínum og brýtur þar með reglur síðunnar.
Þá segist hann enfremur hræðilegt að skotárásin hafi átt sér stað en svona sé þetta. „Það eru allir að verða brjálaðir,“ segir hann.
Lokuð síða vegna ótta um skemmdarverk
Í einum af mörgum pistlum sem Guðmundur deildi inn á vettvanginn, dagsettum þann 31. janúar 2020, sagði hann að hver sem er geti sent hvað sem er inn og stjórnendur síðunnar ákveði hvort það verði birt eða ekki. „Við birtum til dæmis ekki klám,“ sagði hann í pistlinum.
„Það eru allir að verða brjálaðir“
Vettvangurinn er lokaður og ekki er hægt að deila því sem fer þar fram. Ástæðuna segir Guðmundur vera skemmdarverk. „Við getum ekki haft síðuna opna út af skemmdarverkum. Þeir sem eru með opnar síður geta lent í því að einhver maður sem þolir ekki þetta sem þú ert að gera, setur inn einhverja ógeðslega færslu um eitthvað og tengir alla sem eru á síðunni inn í það og tekur síðan mynd af því. Og (maður) getur síðan fattað það og ákveðið að henda því út en hann myndi síðan koma með það: Sjáið þið hvað er inn á síðunni hérna hjá þeim. Sjáið hvað þau eru ógeðsleg, sjáið hvað þau eru að tala um. Svona vinnur fólk. Þeir sem eru aðalega í þessu eru stjórnmálamennirnir. Þeir eru með marga statusa og ganga undir mörgum nöfnum, eru að njósna um sig, eru að skrifa fallegar greinar um sig, koma með falleg komment um sig og þeir eru að tala illa um hvorn annan og flokkana sína,“ segir Guðmundur Franklín. Hann er einnig ósáttur við Ríkisútvarpið.
„Og síðan er það Ríkisútvarpið sem stendur í ströngu í að niðurníða þjóðarleiðtoga út í heimi og fólk. Þeir ráðast á fyrirtæki einstaklinga og þjóðarleiðtoga. Þannig að mér finnst skrýtið í allri þessari umræðu, hatursumræðu og öllu þessu bulli, af hverju er ekki horft á Rúv?“ sagði í einum pistlum hans.
Guðmundur Franklín vakti athygli síðasta sumar þegar hann var eini mótframbjóðandi Guðna Th. Jóhannessonar forseta. Hann kvaðst vilja vinna gegn spillingu ótilgreindrar elítu og auka valdheimildir forseta. Guðmundur Franklín hefur ítrekað lýst stuðningi við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og segir hann vera „alvöru leiðtoga“.
Guðmundur hlaut 7,8% atkvæða í forsetakosningum á síðasta ári, en Guðni Th. Jóhannesson forseti hlaut 92,2% atkvæða.
Athugasemdir