Guðmundur Már Beck, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Eyjafirði, plokkaði merki fyrirtækisins af vinnutreyju sinni eftir að hafa séð umfjöllun um viðskiptahætti útgerðarinnar í Namibíu í fjölmiðlum. Hann segist hafa skammast sín fyrir að ganga um með nafn Samherja á sér. „Þetta var áfall því það er ógeðslegt að haga sér svona. Þetta er ógeðslegt,“ segir Guðmundur þungur á brún í samtali við Stundina.
Framferði Samherja í Namibíu lýsir hann sem græðgi. „Þetta er náttúrlega græðgi að reyna að ná út sem mestum arði fyrir sem minnst, þetta er ekkert annað. Að fara inn í þetta fátæka samfélag, og í staðinn fyrir að reyna að hjálpa þeim sjálfum að vinna þennan fisk og að koma verðmætum aflans inn í landið, til fólksins, þá er þetta bara tekið í skip og farið með það,“ segir hann.
Athugasemdir