Einn af sakborningunum í Samherjamálinu í Namibíu, Mike Nghipunya, nær tæmdi bankareikninga sína áður en hann var handtekinn fyrir aðild sína að málinu í febrúar í fyrra. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan og hefjast réttarhöld yfir honum í apríl á þessu ári. Greint er frá greiðslunum til Nghipunya og máli hans í namibískum fjölmiðlum.
Nghipunya var forstjóri ríkisfyrirtækisins Fishcor sem sá um að útvega sjávarútvegsfyrirtækjum kvóta og greiddi Samherji „hákörlunum“ svokölluðu mútugreiðslur fyrir að fá hestamakrílskvóta í gegnum fyrirtækið. Sjóður í eigu Nghipunya, Gwanyemba Investment Trust, fékk greiddar 10,5 milljónir Namibíudollara, rúmar 90 milljónir króna, á árunum 2017 til 2019 og eru þessir fjármunir taldir hafa verið hlutdeild Nghipunya í að koma að málinu. Þar af voru 6,5 milljónir Namibíudollara greiddar inn á bankareikning sjóðs Nghipunya á milli janúar og nóvember 2019 en í þeim mánuði greindu Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera frá því að Samherji hefði greitt hópi Namibíumanna í áhrifastöðum undir borðið til að fá aðgang að hestamakrílskvóta í Namibíu.
Greiðslurnar taldar nema 2 milljörðum Namibíudollara
Eftir að fjölmiðlar greindu fyrst frá Samherjamálinu, viðtakendur fjármunanna frá Samherja voru hnepptir í gæsluvarðhald og rannsókn málsins fór á fullt í Namibíu hefur ýmislegt áhugavert komið í ljós og málið hefur stækkað mjög. Til að mynda þá telja rannsakendurnir í Namibíu nú að greiðslur til þessa hóps manna og meðreiðarsveina þeirra nemi um 2 milljörðum Namibíudollara, eða rúmlega 17 milljörðum íslenskra króna. Einungis lítill hluti af þessu fé er talinn hafa komið frá Samherja.
Þegar upphaflega var greint frá málinu var raktar greiðslur frá Samherja til hópsins sem námu um 1,4 milljarði íslenskra króna eða um 164 milljónum Namibíudollara. Ákæruvaldið og spillingarlögreglan í Namibíu hafa því komist að því í rannsóknum sínum að greiðslurnar í málinu sem mögulega eru óeðlilegar hafi komið frá fleiri aðilum en Samherja þó svo að „hákarlarnir“ hafi verið hnepptir í gæsluvarðhald á grundvelli greiðslnanna sem þeir fengu frá Samherja.
Rannsókn málsins hefur því sprungið út og snýst nú meðal annars um það að forseti landsins, Hage Geingob, og Swapo-flokkurinn, valdaflokkurinn í landinu sem „hákarlarnir“ tilheyra, hafi komið að því að skipuleggja viðskiptin með kvótann sem nú er til rannsóknar sem mútubrot.
Teikna upp mynd af einkaneyslu Nghipunya
Fjölmiðlar í Namibíu fjalla um einkaneyslu Nghipunya í samhengi við rannsókn Samherjamálsins og þá fjármuni sem hann fékk í sinn hlut. Nghipunya stofnaði meðal annars sína eigin tískufatalínu, TM Clothing, árið 2017 og fjárfesti fyrir rúmlega 2,3 milljónir íslenskra króna í henni á árunum 2017 til 2020.
Þá er hann sagður hafa notið þess að eyða fjármunum á næturklúbbum og meðal annars eytt tæplega 800 þúsund krónum á slíkum stöðum í höfuðborginni Windhoek á árunum 2018 og 2019. Á einu kvöldi á klúbbnum The Experience er hann sagður hafa eytt tæplega 182 þúsund krónum.
Þá rekja nambískir miðlar að hann hafi keypt nokkrar fasteignir í Namibíu, eytt mörg hundruð þúsund krónum í flugmiða til landa í Evrópu og Afríku, eytt miklum peningum á flugvellinum í Madríd og í stórverslun þar í borg, sem og að dvelja á dýrum lúxushótelum á ferðum sínum.
Namibískir fjölmiðlar hafa með sambærilegum hætti greint frá einkaneyslu annarra sakborninga í Samherjamálinu, meðal annars þeirra Tamson Hatukulipi og Sacky Shangala, og meðal annars sagt frá fjárfestingum þeirra í lúxusbílum og dýrum úrum.
Með þessu eru namibískir fjölmiðlar að teikna upp meðal annars í hvaða peningarnir fóru sem þessir einstaklingar fengu fyrir aðkomu sína að Samherjamálinu, sem kallað er Fishrot á ensku, og sem vindur stöðugt upp á sig.
Athugasemdir