Skoðum fyrst nokkrar upphæðir. Í kynningu Bankasýslu ríkisins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fyrr í þessum mánuði er áætlað að miðað við síðasta ársfjórðungsuppgjör Íslandsbanka, í lok september 2020, hafi bankinn verið með eigið fé upp á 209,4 milljarða króna sem hafi verið 44,4 milljörðum meira en lágmarkskröfur Seðlabanka Íslands. Þessir 44,4 milljarðar eiga samkvæmt þessu að vera „umfram“ eigið fé, þótt Bankasýslan telji þó ekki svigrúm til að taka það alveg allt út úr bankanum.
Ýmsar flækjur eru í þessum útreikningum. Meðal annars er hluti af því sem talið er eigið fé ekki raunverulegt eigið fé heldur víkjandi lán, upp á 26,8 milljarða. Bókfært eigið fé bankans er einungis 182,5 milljarðar (Bankasýslan ritar 182,6 en ekki er ljóst hvers vegna, það er þó aukaatriði). Heildareignir bankans voru á sama tíma 1.329 milljarðar þannig að eiginfjárhlutfallið var 13,7%. Bankasýslan telur sem sé að það sé gott svigrúm til að lækka það með því að greiða hluta eiginfjár bankans út til eigenda.
Um þetta má segja ýmislegt. 13,7% eiginfjárhlutfall telst almennt ekki hátt í flestum fyrirtækjarekstri enda lítið svigrúm til að þola áföll með svo mikilli vogun. Rýrni eignir bankans, til dæmis vegna útlánataps eða lækkunar á markaðsvirði annarra fjárfestinga, um 13,7% þurrkast eigið fé hans allt upp. Í bankaheiminum þykir þetta engu að síður nokkuð hátt eiginfjárhlutfall nú á tímum, svo undarlegt sem það kann að hljóma.
Röng hugtakanotkun
Raunar er hefð fyrir mjög sérkennilegri hugtakanotkun í þeim heimi. Þannig er algengt að gefa upp eiginfjárhlutfall sem er reiknað þannig að annars vegar er bætt við teljarann stærð sem er ekki eigið fé (þ.e. víkjandi lánum) og hins vegar er nefnarinn lækkaður með því að telja ekki allar eignir með eða einungis að hluta. Eignirnar eru flokkaðar eftir því hve áhættusamar þær teljast og reiknað út vegið meðaltal af þeim þar sem vogtölurnar eru á bilinu 0 (fyrir þær allra öruggustu) og upp í ríflega 1 (fyrir þær áhættusömustu). Niðurstaðan er kölluð áhættugrunnur. Hann er alla jafna talsvert lægri upphæð en heildareignir banka. Það þýðir að með því að hafa áhættugrunninn í nefnara þegar eiginfjárhlutfall er reiknað í stað heildareigna þá fæst út hærra hlutfall. Fyrir vikið telst „eiginfjárhlutfall“ Íslandsbanka 22,2% þótt það sé í raun bara 13,7%! Síðari talan er þó líka gefin upp í reikningum bankans en undir því undarlega heiti vogunarhlutfall. Í uppgjöri Íslandsbanka er vogunarhlutfallið reyndar reiknað út sem örlítið lægri tala, eða 13,4%, vegna þess að nefnarinn er hækkaður aðeins í ljósi eigna utan efnahagsreiknings. Það er þó aukaatriði hvort miðað er við 13,4% eða 13,7%. Ef eigið fé bankans verður minnkað um allt hið meinta svigrúm, 44,4 milljarða, þá verður raunverulegt eiginfjárhlutfall hans (ekki eigið fé í hlutfalli við áhættugrunn) eftir það einungis 10,1%, Fyrir hverja eina krónu í eigið fé yrðu því rétt um níu að láni.
„Fyrir vikið telst „eiginfjárhlutfall“ Íslandsbanka 22,2% þótt það sé í raun bara 13,7%!“
Til að gæta sanngirni er rétt að taka fram að þessi hugtakanotkun er ekki upprunnin í Íslandsbanka, hún er reglan í bankaheiminum, og reikniaðferðirnar ráðast af reikningsskilastöðlum og kröfum eftirlitsaðila. Deilurnar um eiginfjárhlutföll eru líka ekki séríslenskar, almennt berjast flestir bankar og samtök þeirra fyrir sem lægstum eiginfjárkröfum og beita öllum þeim pólitíska þrýstingi sem þeir geta til að reyna að knýja þær fram. Í grundvallaratriðum er það barátta fyrir því að færa tapsáhættu vegna rekstrar banka yfir á aðra en hluthafa, bæði ýmsa kröfuhafa og hið opinbera, beint og óbeint, meðal annars vegna innstæðutrygginga. Hagnaðarvonin er hins vegar skilin eftir hjá hluthöfum og raunar að einhverju leyti stjórnendum, vegna kauprétta á hlutafé og annarra kaupaukakerfa.
Ef eiginfjárhlutfallið fer til dæmis niður í 10% þá hætta aðrir 9 krónum fyrir hverja eina krónu sem hluthafar hætta. Takist með dirfsku (jafnvel fífldirfsku!) að reka bankann með miklum hagnaði fá þeir sem lögðu fram eina krónu hana til baka margfalda en fari allt á versta veg tapa þeir bara sinni einu krónu en aðrir talsvert fleiri krónum.
Ósamhverf áhætta
Þetta er skólabókardæmi um það sem kallað er ósamhverf áhætta og sú áhætta raungerðist vitaskuld 2008. Það er ein ástæða þess að margir fræðimenn og aðrir telja að æskilegt sé að bankar séu að verulegu leyti fjármagnaðir með eigin fé og hafa fært fyrir því sterk rök. Meðal annars má benda á ágæta umfjöllun í bók Admati og Hellwig frá árinu 2012, The Bankers New Clothes. Þau rekja meðal annars að í upphafi 20. aldar hafi verið algengt að eiginfjárhlutföll (raunveruleg, ekki vogunarhlutföll) banka hafi verið á bilinu 20-30%. Síðan hafi þau farið sífellt lækkandi. Hlutföllin hafi lítið sem ekkert hækkað í kjölfar fjármálakrísunnar, þótt hún hafi sýnt skýrt fram á hve hættulega lág þau voru, og alls ekki hækkað nóg. Admati og Hellwig mæla með eiginfjárhlutföllum á þessu bili, 20-30%, fyrir banka í framtíðinni. Það er auðvitað umtalsvert hærra en hjá íslenskum bönkum nú og er þó mikill þrýstingur á að lækka þau. Í bókinni hrekja þau jafnframt vel ýmis rök sem hafa verið sett fram gegn hærri eiginfjárhlutföllum, meðal annars að þau þýði hærri vexti á útlánum.
Eigið fé á útsölu
Í skrifum fræðimanna um eiginfjárhlutföll banka er almennt lítil umfjöllun um áhrif þess hvert markaðsverð á eigin fé banka er, það er hið svokallaða V/I hlutfall (P/B á ensku), markaðsvirði hlutafjár í hlutfalli við bókfært eigið fé. Þó má telja öruggt að það getur haft talsverð áhrif á hvata stjórnenda og eigenda banka. Í bólunni fyrir hrun var reglan að þetta hlutfall var talsvert hærra en einn. Það þýddi að hvati til að draga saman eigið fé banka var enginn, því að fyrir hverja krónu sem eigendur náðu úr bankanum þá minnkaði markaðsvirði hlutafjár að öðru jöfnu um meira en eina krónu. Það þýddi líka að tiltölulega auðvelt var að auka við eigið fé banka með því að sækja það á markað, til dæmis með hlutafjárútboði. Það átti ábyggilega einhvern þátt í því að ýta undir vöxt banka- og bankakerfa í bólunni og skýrði þar með einhvern hluta bólunnar.
Nú er staðan hins vegar þveröfug, V/I hlutföll í bönkum eru iðulega vel undir 1. Það á við um Arion banka og allar líkur eru á því að hið sama muni eiga við um Íslandsbanka, verði hann skráður á hlutabréfamarkað. Það býr til hvata í þveröfuga átt. Hver króna í eigin fé kostar kannski 80 aura á markaði og fyrir vikið vilja eigendur með öllum ráðum draga úr eigin fé, fá eina krónu í reiðufé fyrir hlutabréf sem þeir keyptu á 80 aura. Það er annars vegar hægt með því að berjast fyrir lægri eiginfjárhlutföllum og hins vegar með því að lækka nefnarann í hlutföllunum, smækka efnahagsreikning banka.
„Þeir myndu sjá sér hag í að selja allar eignir bankans og hætta rekstri, greiða upp skuldir og leysa svo til sín það eigið fé sem eftir situr“
Hvoru tveggja er gert. Þannig hafa stjórnendur Arion banka markvisst stefnt að því að smækka bankann í þessum tilgangi og veruleg hætta er á að nýir eigendur Íslandsbanka myndu reyna eitthvað svipað. Fræðilega mætti jafnvel hugsa sér að þeir myndu sjá sér hag í að selja allar eignir bankans og hætta rekstri, greiða upp skuldir og leysa svo til sín það eigið fé sem eftir situr. Það er þó varla mjög raunhæfur kostur enda tekur langan tíma að vinda ofan af öllum rekstri banka og líklegt að ekki fengist bókfært verð fyrir allar eignir. Tillögur í þessa átt hafa raunar komið fram nú þegar varðandi Íslandsbanka, það er að ríkið eigi að soga út úr bankanum eigið fé, áður en hann er seldur. Jafnvel hafa komið fram tillögur um að ríkið minnki efnahagsreikning bankans í þessu augnamiði.
Banki að hverfa
Tölurnar varðandi Arion banka eru skýrar. Frá fyrsta ársfjórðungi 2017 til nýjasta uppgjörs sem birt hefur verið, fyrir þriðja ársfjórðung 2020, minnkaði efnahagsreikningur Arion banka um 0,3% að raunvirði meðan hann stækkaði um 16,7% í Íslandsbanka og 23,0% í Landsbanka. Helsta skýringin er verulegt aðhald í útlánum. Þannig minnkaði hlutdeild Arion banka í útlánum stóru bankanna þriggja til viðskiptavina úr 31,4% í 26,6% á þessu tímabili. Á föstu verðlagi jukust útlánin um eingöngu 1,4% í Arion banka en 24,6% í Íslandsbanka og 30,0% í Landsbanka.
Lán banka til viðskiptavina eru mikilvægur þáttur í fjármögnun í hagkerfinu. Þannig verður megnið af peningamagni í umferð til. Það hefur bæði slæm áhrif ef það eykst of hratt, eins og gerðist í bólunni, eða ef það vex mjög hægt eða minnkar. Í fyrra tilfellinu ýtir það undir bólumyndun, þenslu og verðbólgu en í síðara tilfellinu kælir það hagkerfið, veldur jafnvel kreppu. Eðlilegt er hins vegar að peningamagn vaxi þegar til lengdar lætur nokkurn veginn í takti við stærð hagkerfisins. Í hagkerfi með marga hlutfallslega litla banka skipta aðgerðir eins banka ekki höfuðmáli hvað þetta varðar. Í örhagkerfi eins og okkar, með örmynt, fáa banka og þrjá þeirra hlutfallslega mjög stóra, geta áhrif eins banka orðið mjög mikil.
Það verður að skoða hugmyndir um að greiða út eigið fé Íslandsbanka í því samhengi. Ef Arion banki stendur einn banka harkalega á bremsunni í útlánum þá geta hinir tveir fyllt upp í það skarð að einhverju eða jafnvel öllu leyti. Það hefur gerst undanfarin ár. Ef bæði Arion banki og Íslandsbanki reyna hins vegar að draga úr útlánum, til að geta greitt út meira eigið fé, þá verður mjög erfitt fyrir eina stóra bankann sem eftir er, Landsbankann, að fylla í skarðið.
Dýpkar og lengir niðursveiflu
Í ljósi þess væri afar slæmt fyrir hagkerfi sem glímir við mjög skarpa niðursveiflu að selja banka til fjárfesta sem gætu stefnt leynt eða ljóst að því að soga eigið fé út úr bankanum. Það gæti bæði lengt og dýpkað niðursveifluna. Hagstjórnartæki Seðlabanka gætu ekki nema að takmörkuðu leyti komið í veg fyrir þetta. Aðgerðir eins og að takmarka eða jafnvel banna arðgreiðslur banka eru alltaf vandmeðfarnar og ekki æskilegar sem langtímalausnir. Þess utan myndi tímabundið bann við arðgreiðslum ekki koma í veg fyrir að stjórnendur banka minnkuðu eins hratt og auðið er efnahagsreikning hans til þess að hafa meira svigrúm fyrir arðgreiðslur þegar banninu verður aflétt. Það tekur tíma að draga úr útlánum banka, ef lánasafnið er ekki selt, en erfitt er að sjá líklegan kaupanda að því nú.
„Oft er sagt að sagan endurtaki sig og að ef við lærum ekki af henni sé óhjákvæmilegt að við endurtökum mistök fortíðarinnar. Það á við hér.“
Há eiginfjárhlutföll skipta máli í þessu samhengi. Þau gera heildarstærð efnahagsreiknings banka líka stöðugari. Banki sem býr við háa eiginfjárkröfu (og er með hátt eiginfjárhlutfall) getur ekki vaxið jafnhratt og banki sem býr við lægri kröfu. Í þeim síðarnefnda getur góð afkoma og sú aukning eiginfjár sem hún skilar búið til meira svigrúm til vaxtar en í þeim fyrrnefnda. Það sama á við verði bankinn fyrir tapi, það kallar á minni samdrátt efnahagsreiknings í banka með hátt eiginfjárhlutfall fyrir en í banka með lágt hlutfall.
Sé ætlunin að selja einungis hluta Íslandsbanka getur staðan hæglega orðið sú að sumir hluthafar vilja stefna í eina átt hvað varðar eigið fé og umsvif bankans en aðrir, þar á meðal ríkið, vilja stefna í aðra átt. Það er að ýmsu leyti óheppilegt og raunar flækir það sölu bankans verulega að ekki er ljóst fyrirfram hvort kaupendur geta vænst þess að hægt verði að greiða út umtalsverðan hlut af eigin fé bankans eða ekki. Meðal annars vita þeir ekki hvort ríkið verður áfram eigandi meiri hluta í bankanum – og þá hvað lengi – og hver stefna ríkisins varðandi arðgreiðslur kann að verða á næstu árum. Það væri mun einfaldara að selja bankann ef V/I hlutfall hans væri 1 eða meira, því að þá væri miklu minni hvati til að soga út úr honum eigið fé. Verðlagning á hlutabréfum er erfið við slíkar aðstæður.
Það flækir svo enn málið að ríkið er ekki venjulegur eigandi að viðskiptabanka vegna þess að ríkið ræður regluverki slíkra banka og Seðlabankinn, sem hefur veruleg áhrif á rekstrarumhverfi þeirra, er ríkisstofnun. Hluti af óvissunni sem hugsanlegir kaupendur að hlut í banka standa frammi fyrir er því pólitísk. Í ljósi þess að verulegur pólitískur ágreiningur er um sölu bankans og almennt um hlutverk ríkisins á bankamarkaði er ómögulegt nú að sjá fyrir hvaða stefna verður tekin af næstu ríkisstjórn í bankamálum. Væri tiltölulega breið pólitísk samstaða um sölu á hlut í banka (eða bankanum í heild) og skýr framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sérstaklega hlutverk ríkisins í því, væri mun minni óvissa af þessu tagi þótt auðvitað sé aldrei hægt að sjá allar pólitískar sviptingar fyrir.
Vogun vinnur, vogun tapar
Oft er sagt að sagan endurtaki sig og að ef við lærum ekki af henni sé óhjákvæmilegt að við munum endurtaka mistök fortíðarinnar. Það á við hér. Eitt af þemum bólunnar sem endaði með hruninu 2008 var einmitt alls konar fíflagangur í kringum eigið fé, sérstaklega í bönkum. Viðskiptajöfrar bjuggu til eigið fé á pappír með því að láta sömu eignir ganga kaupum og sölu milli tengdra aðila á sífellt hærra verði. Bankarnir bjuggu til gervi eigið fé með því að lána fyrir kaupum á hlutabréfum í sjálfum sér, hlutabréfum nátengdra fyrirtækja eða öðrum bönkum. Fjármálaráðgjöf gekk að verulegu leyti út á aukna vogun. Undir slagorðinu equity release eða „frelsun eiginfjárins“ var fólk ginnt til að taka eignir sem það átti skuldlitlar eða skuldlausar, til dæmis fasteignir, skuldsetja þær upp í rjáfur og setja féð sem losnaði í eitthvað glannalegt. Það átti að láta „peningana vinna fyrir sig“. Því meiri vogun, þeim mun betra. Það þarf ekki að rifja upp hér hvernig sú saga endaði.
Umræðan um hið umframa eigið fé bankanna endurspeglar þannig nákvæmlega sömu hugsun og tröllreið íslenska fjármálakerfinu í bólunni. Ætli það stappi ekki nærri heimsmeti í fjöldabælingu slæmra minninga?
Athugasemdir