„Ljóst er að eignatjón er umtalsvert en sem betur fer urðu engin slys á fólki,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veita, um 2.250 tonna vatnsleka úr meginkaldavatnsæð Vesturbæjar sem fór inn í húsnæði Háskóla Íslands í nótt.
Á meðfylgjandi myndböndum sést vatnið fossa á háskólasvæðinu. Lekinn var yfirstandandi í 75 mínútur. Um klukkan eitt í nótt varð hans vart í stjórnstöð Veitna. Bakvakt var kölluð út og hálftíma eftir að hún mætti hafði stofnæðarlokinn verið staðsettur og lokað fyrir flæðið. Upptökin voru í lokahúsi vatnsveitu sunnan við aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar sunnan við eru sumar helstu byggingar háskólans: Háskólatorg, Lögberg og Gimli.
Um eins og hálfs metra djúpt vatn fyllti húsnæði Háskóla Íslands á Háskólatorgi í nótt.
Líklegt er að tjón Háskólans nemi hundruð milljóna króna. Háskólinn er ekki tryggður fyrir tjóninu, þar sem ríkisstofnanir tryggja ekki. Fulltrúar vátryggingafélags Veitna hafa hins vegar skoðað svæðið í dag.
Stór hluti starfsemi Háskóla Íslands hefur verið unninn í fjarvinnu vegna kórónaveirufaraldursins. Stofurnar sem urðu fyrir skemmdum eru þær sem hafa þó verið í notkun. Tveir til þrír mánuðir geta liðið þar til húsnæðið sem verst varð úti verður tekið aftur í notkun. Jón Atli Benediktsson, rekstor Háskóla Íslands, hefur sent nemendum bréf þar sem boðað er að kennsla verði rafræn hjá þeim sem hafa sótt kennslu í Háskólatorg og Gimli.
„Veitur harma atvikið og þær afleiðingar sem það hefur haft í för með sér fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands og aðra,“ segir í yfirlýsingu frá upplýsingastjóra Veitna. „Veitur vinna nú hörðum höndum að því að greina hvað varð þess valdandi að hið mikla magn vatns flæddi inn í Háskóla Íslands í morgun.“
Athugasemdir