Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

„Við erum öll í sjokki“

Risa­stór aur­skriða féll á fjölda húsa á Seyð­is­firði og hreif þau með sér um þrjú leyt­ið í dag. Fólk mun hafa ver­ið á svæð­inu þeg­ar skrið­an féll. Óljóst er hvort ein­hver lenti í flóð­inu. „Það er eins og fjall­ið hafi kom­ið allt nið­ur,“ seg­ir íbúi.

„Við erum öll í sjokki“
Frá Seyðisfirði í nótt Húsið sem skriðan féll á í nótt er gjörónýtt. Mynd: Austurfrétt/Gunnar Gunnarsson

Gríðarleg eyðilegging er á Seyðisfirði eftir að aurskriður féllu núna um miðjan daginn. Björgunarsveitir af öllu Austurlandi eru á leiðinni á Seyðisfjörð, sem og lögreglumenn frá Akureyri og Reykjavík. 

Ekki er vitað fyrir víst hvort einhver varð fyrir skriðunni, en vonast er til að svo sé ekki. Í tilkynningu frá almannavörnum klukkan 16.04 segir að stefnt sé að því að rýma Seyðisfjörð: „Allir íbúar og aðrir á Seyðisfirði eru beðnir um að mæta í félagsheimilið Herðubreið og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð eða hringja í síma 1717. Stefnt er að því að Seyðisfjörður verði rýmdur.“

Skriðan lenti á fleiri húsum 

Stundin náði sambandi við Aðalheiði Borgþórsdóttur, íbúa á Seyðisfirði og fyrrverandi bæjarstjóra, klukkan 15:33. Aðalheiður var í miklu uppnámi í símtalinu en greindi blaðamanni frá því að ekki væri vitað hvort allir væru óhultir, það væri þó haldið.

Skriðan lenti á fleiri, fleiri húsum segir Aðalheiður. „Það er eins og fjallið hafi komið allt niður. Ég er bara í sjokki eftir að hafa horft á þetta, þetta er rosalegt. Við erum öll í sjokki, ég veit ekki hvað ég á að segja þér.“

Risastór aurskriða féll á Seyðisfirði um þrjúleytið og hreif með sér hús. Skriðan sem er talin vera jafnvel enn stærri en þær sem þegar hafa fallið kom á húsin var fólk á svæðinu, þó ekki sé ljóst hvort það var innandyra.  

Á fjórða tímanum ræddi Stundin við annan íbúa á Seyðisfirði, Páll Thamrong Snorrason, sem lýsti því svo að gríðarlegar drunur hefðu fylgt með skriðufallinu. Miklar truflanir voru á símtalinu og sagði Páll að það væri líklega vegna þess að allt rafmagn væri farið af bænum. Með það slitnaði símtalið.

Biðja fólk um að gefa sig fram 

Uppfært klukkan 15:42

Jóhann K. Jóhannsson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sagði í samtali við Stundina að skriðan hefði komið á nokkurn fjölda húsa, og hefði hrifið að minnsta kosti eitt þeirra með sér. Ekki væri vitað til þess að nein hefði lent í skriðunni en það væri þó ekki staðfest að svo hefði ekki verið. Búið væri að stækka rýmingarsvæðið á Seyðisfirði verulega.

„Rýmingarsvæðið nær til Botnahlíðar, Bröttuhlíðar, Múlavegs, Túngötu að hluta til, Miðtúns að hluta til, Brekkuvegs, Baugsvegs, Austurgötu að hluta, Hafnargötu og Fossagötu. Fólk sem býr á þessu svæði er beðið að gefa sig fram í fjöldarhjálpastöðina í Herðubreið á Seyðisfirði,“ segir Jóhann. 

„Ég skelf ennþá“

Búið er að kalla út björgunarsveitir af öllu Austurlandi og eru þær á leiðinni niður á Seyðisfjörð. „Það eru lögreglumenn á leiðinni annars vegar af Akureyri og hins vegar úr Reykjavík austur, með flugi og akandi,“ segir Jóhann enn fremur.

Eyðileggingin gríðarleg

Uppfært klukkan 15:54

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar, er á Seyðisfirði. Í stuttu samtali við Stundina sagði hann eyðilegginguna gríðarlega. Í frétt sem Gunnar setti inn á vef Austurfréttar segir að fleiri en ein skriða hafi fallið, meðal annars á Tækniminjasafn Austurlands sem stendur utarlega í bænum. Eitt íbúðarhús er ónýtt og stóð það við Búðará. Gríðarlegur viðbúnaðar er á svæðinu og björgunarsveitarfólk og viðbragðsaðilar uppteknir við aðgerðir svo erfiðlega gengur að ná tali af þeim. 

„Ég skelf ennþá“

Uppfært klukkan 16:11

Stundin náði sambandi við Gunnar á nýjan leik um klukkan fjögur. „Hér eru bara allir í losti. Ég skelf ennþá, maður er hræddur um fólkið og það er verst. Það fylgdu ofboðslegar drunur þessum skriðuföllum sem stóðu lengi yfir, að því er mér leið í einhverjar mínútur.“

Gunnar segir að búið sé að biðja alla sem staddir eru á Seyðisfirði að gefa sig fram í fjöldahjálparmiðstöð í Herðubreið, ekki bara þá sem eru búsettir á rýmingarsvæðunum. „Það er verið að reyna að ná manntali, það er verið að reyna að ná utan um þetta. Það er ennþá óstaðfest hvort allir séu óhultir.“

„Menn eru bara að reyna að ná utan um þetta.“

Eins og greint er frá hér að ofan er búið að kalla út björgunarsveitir af öllu Austurlandi til aðstoðar niður á Seyðisfirði. „Það er að berast aðstoð, ég sá að lögreglan ofan af Héraði var að renna inn í bæinn í þessu og það eru bara allir sem geta á leiðinni til að aðstoða,“ segir Gunnar.

Ennþá er úrhellisúrkoma á Seyðisfirði og von á að það bæti enn meira í hana samkvæmt spám. Um hálfþrjú byrjað að bæta verulega í frá því sem verið hafði að sögn Gunnars. Hann segir að erfitt sé að segja til um hvernig sé umhorfs í bænum. „Það er myrkur yfir og rafmagn farið af ytri hluta bæjarins, frá Fjarðaánni og út eftir. Menn vita ekkert hvert umfangið er, menn eru hræddir um Tækniminjasafnið og hús í nágrenninu. Ég hitti mann áðan sem sagði að það væru farin hús þar. Menn eru bara að reyna að ná utan um þetta.“

Unnið að því að skrásetja fólkVerið er að ná utan um hverjir er á staðnum.

„Ég gat varla talað“

Uppfært klukkan 16:36

Stundin heyrði í Hönnu Kristel sem býr á Fossagötu á Seyðisfirði, einni af þeim götum sem hafa verið rýmdar. „Ég satt best að segja veit ekki hver staðan er, það er mjög erfitt að átta sig á þessu. Ég heyri núna í þyrlu hér fyrir ofan okkur, þetta er bara hræðilegt. Ég er í áfalli, ég gat varla talað áðan. Maður veit ekkert hvað gerist.

„Ég er í áfalli, ég gat varla talað áðan“

Ég á sjálf hús á sem er á hættusvæði, á Fossagötu. Ég fór strax úr því á þriðjudag, rýmdi það, eftir að ég horfði á fyrstu skriðuna koma. Við vorum til að byrja með á Póst hostel, í gamla pósthúsinu á horninu á Hafnargötu og Austurvegi. Þegar við vöknuðum hins vegar í morgun og sáum Breiðablik [húsið sem skriða tók í nótt] á hliðinni þá forðuðum við okkur. Ég er núna í húsi sem á að vera á hættulausu svæði, alla vega samkvæmt þeim sem ég hef talað við. Ég veit að mitt hús stendur enn, mér sýnist það ekki hafa orðið fyrir neinu en það er erfitt að segja.“

Óttast um afdrif fólks

Spurð hvernig líðanin sé dregur Hanna djúpt andann. „Hún er bara hörmuleg, okkur líður bara hörmulega. Við vitum ekkert hvort einhver hafi slasast eða þaðan af verra, það er auðvitað það sem maður hugsar fyrst. Svo er það eignatjónið, og hvort eitthvað komi fyrir okkar hús. Erum við óhult, allar þessar spurningar.“

„Maðurinn minn er hins vegar fastur hinu megin við skriðuna“

Spurð hvort henni líði orðið eins og hún sé hvergi óhult í bænum svarar Hanna því til að hún myndi nú ekki segja það. „Þá væri ég farin ef það væri þannig. Mér líður miklu betur hérna megin, en ég fór strax þegar þetta gerðist og sótti strákinn minn á leikskólann því ég vil bara hafa fjölskylduna mína hjá mér. Maðurinn minn er hins vegar fastur hinu megin við skriðuna, hann ásamt tveimur öðrum forðuðu sér í hina áttina út á bæ hér utar sem heitir Hánefsstaðir og er ekki undir fjallinu. Þau eru þar í vari. En hann kemst ekkert hingað yfir, bæði er skriðan illfær eða ófær, hún blokkerar Hafnargötuna algjörlega, en svo er maður bara skíthræddur um að eitthvað meira komi niður fjallið.

Uppfært klukkan 16:48

Lýst hefur verið yfir neyðarstigi á Seyðisfirði vegna skriðfallanna. Samkvæmt tilkynningu Almannavarna á að rýma Seyðifjörð allan. Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur verið send á staðinn ásamt öllu tiltæku björgunarliði á Austurlandi, lögreglumönnum af höfuðborgarsvæðinu og lögreglumönnum frá lögreglunnu á Norðurlandi eystra. Þá er stefnt að því að senda varðskipið Tý austur til aðstoðar og mun það vera væntanlegt austur síðdegis á morgun.

Samkvæmt frétt Vísis eru minnst tíu hús skemmd eftir skriðuföllin nú í dag. Eitt hús sem stóð við Búðará er gjörónýtt og lýstu heimamenn því í samtali við Austurfrétt að það hefði kubbast sundur eins og pappakassi. Enn er ekki orðið ljóst hvort einhver hafi orðið fyrir skriðunni.

Uppfært klukkan 17:14

Engin þyrla er tiltæk hjá Landhelgisgæslunni til að sinna björgunarstörfum fyrir austan en eina tiltæka þyrla gæslunnar bilaði á þriðjudaginn. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við Stundina að verið sé að klára viðgerð á þyrlunni TF-Gró og við taki svokölluð uppkeyrsla. Gangi allt að óskum verði þyrlan flughæf innan tveggja til þriggja klukkustunda. Ásgeir segir að ekki hafi að svo stöddu máli verið kallað eftir aðstoð þyrlu frá gæslunni austur á Seyðisfjörð. 

Uppfært klukkan 17:21

Enn hefur ekki tekist að staðfesta hvort allir séu heilir á húfi á Seyðisfirði eftir skriðuföllin þar í dag. Rýma á allan Seyðisfjarðarkaupstað og búið er að opna fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu á Egilsstöðum að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. „Þangað verður fólk flutt frá Seyðisfirði. Það er í boði að fara á eigin vegum en það er líka hægt að taka rútu frá fjöldahjálparstöðinni í Herðubreið. Það er áríðandi að fólk tilkynni sig áður, ýmist í fjöldahjálparstöðinni í Herðubreið, eða hringi í hjálparsíma Rauða krossins 1717.“

Hótel Hallormsstaður, Valaskjálf, Tehúsið og fleiri aðilar á Egilsstöðum hafa opnað dyr sínar og bjóða Seyðfirðingum gistingu. Mikilvægt er að fólk skrái sig inn í fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum. 

Rútur bíða tilbúnarByrjað er að flytja fólk af Seyðisfirði upp á Egilsstaði.

Uppfært klukkan 18:38

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er engra saknað eftir aurskriðurnar sem féllu á hús á Seyðisfirði um miðjan dag í dag. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Aurskriða á Seyðisfirði

Íbúi á Seyðisfirði gagnrýnir verkferla við rýmingu vegna hættustigsins
FréttirAurskriða á Seyðisfirði

Íbúi á Seyð­is­firði gagn­rýn­ir verk­ferla við rým­ingu vegna hættu­stigs­ins

Hanna Christel Sig­ur­karls­dótt­ir, íbúi á Seyð­is­firði sem hef­ur þurft að rýma hús­ið sitt vegna hættu­stigs og dvelja í fé­lags­heim­il­inu á staðn­um, seg­ist upp­lifa skort á upp­lýs­ingaflæði til íbúa varð­andi stöð­una sem geri það að verk­um að hún upp­lif­ir enn meiri óvissu og ótta en þann sem stafi af nátt­úr­unni.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár