Dræver tíu hérna, sagði ég í símann. Ég finn ekki sendingu númer fjögur af sautján. Búinn að leita alls staðar. Ertu ennþá í hundrað og einum? ansaði Jenný vakstjóri, svolítið önug. Já, ætli það ekki? ansaði ég. Ég ætla rétt að vona að þú hafir ekki tínt þessum pakka – klassískur dildó!
Týnd unaðstæki heyra undir appelsínugula viðvörun í útkeyrslubransanum. Guð einn má vita hvar svona lostasproti gat dúkkað upp og valdið usla. Syndandi í sykruðum mjólkurvörum í Jöklaseli eða titrandi undir nýjustu bók Ólafs Jóhanns í gamla vesturbænum. Stuttu síðar hringdi Jenný vakstjóri til baka, glöð í bragði. Klassíski víbratorinn hafði fundist í bíl númer eitt, í prjónadóti á leið út á Álftanes.
Óbreyttur jólasveinn
Nokkrum vikum áður hafði ég verið plataður í að keyra út mat til fólks í sóttkví. Það hljómaði afskaplega virðulega að vera í framlínu í stríðinu við veiruna.
En þegar á reyndi var ég einfaldlega jólasveinn sem flutti mat og gjafavörur til fólks sem nennti ekki eða gat ekki farið út í búð sjálft. Hreindýrasleðanum var skipt út fyrir beyglaðan hvítan Ford Transit og í stað klukkuhljómsins var endalaust píp úr bilaðri hurð að gera mig brjálaðan. Skegg sveinka varð að sóttvarnargrímu, böndin drógu eyrun örlítið fram í spíss eins og á álfi.
Forritin í símanum leiddu mig gegnum ranghala Reykjavíkur. Ég komst fljótt að því að Eplið var flinkara en Gúglið í að finna húsnúmer og fyrir einhverjar kenjar setti ég þýska kvenmannsrödd inn í stað settlegs Englendings. Það var svalara að heyra Marlene Dietrich segja „Weiter Nach Osten“ eins og ég væri að fara í helförina þótt ég væri bara að fara með tíu lítra af kók síró upp í Jöklasel. Það var líka eitthvað valdeflandi við að heyra „Ziel Ereicht“ þegar ég kjagaði upp á fjórðu hæð þar sem keðjureykjandi öryrki með syndandi augu beið eftir sígarettum, snakki og súkkulaðikexi.
Fyrstu dagana gerði ég mistök eins og þegar ég hljóp út úr blokk vitlausum megin í Hraunbænum. Ég læsti mig út í nýtt og framandi landslag og varð að ganga nokkur hundruð metra aukalega til að finna sendibílinn aftur. Svo kom fyrir að ég fann ekki húsnúmer af því að rat-eplið sendi mig inn í bakgarða og vildi helst að ég skriði inn um glugga hjá fólki.
Pikkarar
Í risastóru vöruhúsi í úthverfi Reykjavíkur voru svokallaðir Pikkarar að tína matvörur og þvottavélar niður úr hillum. Þau pökkuðu, merktu og skiluðu kúffullum strigapokum ofan í stæðilega trékassa á hjólum sem við jólasveinarnir drógum síðan út á vindblásið bílastæðið.
Allt var skráð og skannað samviskusamlega þannig að hver sending var skjalfest í tölvukerfi sem ég nálgaðist úr símanum. Ég gat þá séð fjölda sendinga og endastöð en ekki innihald. Bak við hvert númer gat verið lítið lostatæki – eins og áður segir – eða þá kippa af kók, bók eftir Steinar Braga, hundrað kílóa þurrkari eða risasjónvarp.
Pikkararnir voru mest strákar og stelpur um tvítugt, rúmlega helmingurinn af erlendum uppruna. Ég fékk sterklega á tilfinninguna að þetta væri fólkið sem þjóðfélagið vildi halda í skítadjobbum af því að þau voru ekki rétt tengd eða með tíu í íslensku eða guð má vita hvað. En ég þurfti ekki að hlera lengi á kaffistofunni til að fatta að þetta voru engir asnar, mörg búin að strita sér inn fyrir íbúð eða bíl.
Pikkarar unnu á tveggja tíma vöktum og fóru í stuttar pásur þess á milli. Stóra fyrirmyndin var auðvitað Amazon þótt ástandið væri ekki jafn ómanneskjulegt og hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki. Það voru engin vélmenni sýnileg milli rekkanna og ekki enn þá búið að innleiða armbönd sem gáfu raflost til að beina vörutínslu í rétta átt. Jenný vaktstjóri lét nægja að ávíta einstaka svartan sauð sem gleymdi að líma merkimiða á sendingu eða að missa sig í fíflagang.
Því það var vertíðarstemning og dúndrandi tónlist í hljóðkerfinu. Síðhærður náungi um tvítugt stóð gleiður bak við tvo tölvuskjái og reytti af sér brandara meðan hann reyndi að stjórna vöruflóðinu á skjánum í rétta átt. Þúsund vörur á færibandinu þokuðust nær á svörtum föstudegi, yfir helgi og langt inn í rafrænan mánudag.
Í hverri lotu hafði ég um tveggja tíma ramma til að losa mig við pakkana á höfuðborgarsvæðinu. Hvert stopp var hakað af í snjallsíma og kúnninn gat þá séð hvenær væri von á glaðbeittum jólasvein.
Stundum gat ég losað mig við allar sendingar á tilsettum tíma, en oft teygðist þetta vegna þess að tölvuforrit raðaði heimskulega í bílinn. Þá var meirihluti sendinga að fara í Hafnarfjörð en síðan voru þrjú síðustu stopp kannski í Mosfellsbæ sem gat lengt aksturstímann verulega.
Fólkið í kjallaranum
Reykvíkingar voru furðu viðmótsþýðir og sjarmerandi, stutt í kímin tilsvör eða einlægt þakklæti þegar sveinki kjagaði upp stigaganginn og skutlaði poka upp á eldhúsborðið.
Fjölskyldur í sóttkví brostu feimnislega úr gættinni. Ég hitti mæður með smábörn í fanginu og stundum vildu glaðbeittir heimilisfeður ræða hækkandi fasteignaverð í hverfinu.
Svo voru þeir til sem vildu ræða hvað Dagur borgarstjóri væri ömurlegur. Það var nefnilega ótrúlega pirrandi fyrir mann sem hafði fundið sjálfan sig í einbýlishúsi í úthverfi að horfa upp á Dag Krulla og hyski spranga eins og frjósemistákn niður gleðigötur miðbæjarins. Menn voru þá búnir að eigna sér nógu stórt húsnæði til að halda sífrandi maka og grenjandi krökkum í hæfilegri fjarlægð og ekki með húmor fyrir óþarfa léttúð.
Sorglegast fannst mér að sjá sérmerkt bílastæði sem voru eins og grafreitir mannsandans. Hér hafði manneskja stritað myrkranna á milli til þess að geta merkt sér bílastæði 3hh við blokk einhvers staðar úti í rassgati.
Fólk sem bjó í kjöllurum tók það stundum ekki fram í pöntun. Maður dinglaði þá á fyrstu hæð í einbýlishúsi en var bent á kjallarann. Það var eins og fólk flytti fyrst í kjallaraíbúðir og dreymdi síðan hálfa ævina um að eignast hús til að leigja sjálft út kjallara. Svo bretti það upp á fínlegt nefið þegar jólasveinninn kom með pokana og spurði eftir Jóni eða Gunnu. Þessi? Jú, hún býr reyndar í kjallaranum, sjáðu, þú gengur þarna niður fyrir hornið. NIÐUR sagði ég!
Ástin sigrar allt
Svo komu augnablik sem yljuðu mér langt fram eftir degi og inn í nóttina. Reffileg ljóshærð kona opnaði fyrir mér í blokk í Kópavogi. Krakkarnir máttu alls ekki sjá pakkana og á bak við hana var karlinn eitthvað að gaufa allsber úti á miðju gólfi.
Önnur fjölskylda í nýlegu raðhúsi óskaði eftir því að sendillinn kæmi rólega inn í Rimahverfi því þau áttu langveikt barn. Eins og svo oft í nýjum úthverfum var ég smástund að átta mig á illa merktum húsum. Bankaði fyrst upp á hjá eldri hjónum á neðri hæðinni. Við töluðum saman í hálfum hljóðum og ég spurði hvort þau vissu hvað væri að barninu á efri hæðinni.
Eiginlega allt, hvíslaði maðurinn. Aumingja litla skinnið er með downs og það er eiginlega allt að. Og jólasveinninn læddist upp tröppurnar og sá litla engilinn sitja í TripTrap úti á miðju gólfi umkringdan eldri systkinum, foreldrarnir brostu blíðlega þegar sveinki lagði pokann hljóðlaust frá sér á pallinn fyrir utan. Allt var kyrrt og það var einhver ofboðsleg birta yfir þegar ástin náði um stund að vera sterkari en sársaukinn.
Suma daga hitti ég fólk sem ég þekkti. Lögfræðingur stéttarfélags rithöfunda hafði húmor fyrir því að maður sem hún var að enda við að ráðleggja um höfundarrétt birtist heima hjá henni í líki jólasveins. Í næsta húsi pantaði fyrrum markaðsstjóri forlags jólabækurnar.
Svo hitti ég fólk sem ég þekkti bara af sjónvarpsskjá eða hafði vingast við á samfélagsmiðlum af hreinum hégóma.
Helvíti er hann orðinn feitur þessi! hugsaði ég þegar ég skilaði af mér sykruðum mjólkurvörum til fyrrum fjölmiðlamanns ofan í kjallara í Bláskógum. Vona að hann hafi ekki þekkt mig. Æi, greyið. Best að skrifa ekki um þetta, en má ég hugsa það? Getur 21. öldin lesið fituskömm úr augum mínum? Ég tikkaði við reitinn í appinu sem staðfesti næsta stopp og að ég yrði að muna eftir frosnu sérvörunum.
Þrotaður dildókrækir
Kona ein varð skelfingu lostin að sjá mig við Baugakór. Hún hafði nefnilega sest upp á okkur fyrrverandi í mánuð í útlöndum fyrir einhverjum árum síðan. Núna vissi hún ekki alveg hvernig hún átti að taka því þegar hún mætti borubröttu feðraveldi í gervi jólasveins. Þegar ég var búinn að losa mig við pokana rifjaðist upp fyrir mér að þessi kona hafði staðið í málaferlum, hélt hún kannski fyrst að ég væri stefnuvottur? Tíu bananar ígildi stefnu? Hví ekki? Skyldi hún þora að panta mat á netinu aftur? Æ, hvern fjandann var ég að brjóta heilann? Fólk er oftast óskiljanlegt og maður á ekki að dæma það af yfirborðinu.
Í síðasta túrnum var Dildókrækir orðinn svolítið þrotaður. Vissi þá ekki lengur hvort hann var staddur suður við Hvaleyrarbraut eða kominn norður fyrir Mosfellsbæ. Hann var alls staðar í einu á sama tíma eins og alvöru jólasveinn. Ford Transit titrandi á milli læranna eins og meðvituð útvíkkun á rassgati.
Í gamla vesturbænum þekkti ég nafn annars ritstjóra Stundarinnar í appinu en nennti ómögulega að heilsa. Galaði þess í stað upp í stigaganginn. Heyrðu, má ég ekki skilja þetta eftir hérna? Klukkan orðin svo margt og allt á eftir áætlun?
Þegar ég settist aftur upp í sendibílinn flaug mér í hug að ég yrði bara að skrifa pistil fyrir Stundina fyrst ég var ekki maður til að heilsa.
Athugasemdir