Aur liggur yfir hluta Seyðisfjarðar og renna þar lækir niður til sjávar. Hættustig vegna aurflóða er enn viðvarandi og hluti íbúa bæjarins hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Enn meiri úrkomu er spáð í kvöld og á morgun og því er líklegt að hættustigi verði viðhaldið þangað til.
Aurflóðið sem féll í gær kemur ekki algerlega á óvart. Í mars síðastliðnum lagði umhverfisráðherra fram nýtt og útvíkkað hættumat.
Rannsóknir hafa sýnt að stórar skriður hafa fallið á forsögulegum tíma á bæjarstæði Seyðisfjarðar. „Hættusvæði í suðurbænum undir Neðri-Botnum stækka talsvert frá fyrra mati vegna þess að hætta af völdum stórra skriðna úr þykkum, lausum jarðlögum er metin meiri en áður. Þessi niðurstaða kallar á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina og aukna vöktun á skriðuhættu fyrir þetta svæði.“
Það er helst við stórrigningar sem hættan eykst, samkvæmt hættumatinu. „Stórar skriður úr Neðri-Botnum falla að öllum líkindum í kjölfar stórrigninga sem koma skýrt fram í veðurmælingum. Rétt er að undirstrika að skriður af þessari stærð eru mjög sjaldgæfar. Slíkar skriður hafa ekki fallið úr Neðri-Botnum frá því land byggðist. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur fylgst sérstaklega með skriðuhættu úr Neðri-Botnum eftir að upplýsingar um hættu á stórum skriðum þaðan komu fram. Gert er ráð fyrir að bæta öryggi íbúa á þessu svæði með eftirliti og rýmingu húsnæðis þegar þörf krefur þangað til gripið hefur verið til varanlegra aðgerða til þess að draga úr þessari hættu.“
120 manns yfirgáfu heimili sitt eftir aurflóðið í gær. Samkvæmt lýsingum sjónarvotta heyrðust drunur, líkt og snjóplógur væri að skrapa götuna.
„Þetta er eins og eftir fellibylinn Katarínu. Húsin standa á kafi í vatni. Í kringum gamla pósthúsið og Skaftfell er komin ný á sem teygir sig niður eftir veginum sem liggur að ferjuhöfninni. Það liggur hálfur metri af drullu þarna yfir,“ sagði íbúi í bænum í samtali við Austurfrétt.
Meðfylgjandi myndir tók annar íbúi í bænum, Páll Thamrong Snorrason. Stundin birtir myndirnar með hans heimild.
Athugasemdir