Ég hef verið að hugsa um hana Álfheiði Guðmundsdóttur, yndislega söngkonu sem söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fimmtudaginn var, þar sem hennar kjör eru trygg. En hvernig umhverfi höfum við sem þjóð að bjóða henni til að hún haldi áfram að þroskast og styrkja sig sem listakona á óperusviði? Ekki bara fyrir hana persónulega heldur fyrir okkar menningu og menningararf.
Ef hún væri leikari ætti hún ýmsa möguleika á að fá samninga við leikhúsin, þar sem hún getur fengið stór og smá hlutverk, þjálfun og vettvang sem nærir hana og styrkir. Ef hún væri dansari ætti hún kost á að komast að í dansflokknum, þjálfa sig og taka þátt í sköpun og flutningi nýrra verka stórum sem smáum í heimsklassa. Í dansflokki sem er með samfellda starfsemi allt árið, ferðast víða og hefur skapað sér alþjóðlegt nafn. Ef hún væri framúrskarandi hljóðfæraleikari gæti hún jafnvel stefnt á að hljóta stöðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ef hún væri skákmeistari gæti hún komist á laun en markmið launasjóðs skákmanna er að skapa þeim fjárhagslegan grundvöll til að helga sig skáklistinni.
Allt býður þetta starfsvettvang tryggðan af hinu opinbera sem miðast við einhverja taxta og þeim fylgja lögbundin réttindi.
Ekkert sambærilegt er í boði fyrir söngvara á Íslandi. Ungum söngkonum á borð við Álfheiði sem eru það framúrskarandi að þær fá aðalhlutverk í óperu, býðst að koma til Íslands á eigin kostnað til þess að gleðja Íslendinga og styðja við óperuflutning á Íslandi. Þær læra og undirbúa hlutverk á eigin kostnað og fá svo að æfa í eins og sex vikur, sex daga vikunnar fyrir 300.000 króna heildarverktakagreiðslu. Þær fá ekki greiddan uppihaldskostnað þó þær búi í útlöndum og ekki heldur yfirvinnu auk þess að afsala sér öllum flytjendarétti. Ákvæði í samningi FÍH og Óperufyrirtækisins um vinnuvernd eru ekki virt. Þær eru ekki í sterkri samningsstöðu gagnvart eina fyrirtækinu sem stendur fyrir óperuflutningi.
„Þær læra og undirbúa hlutverk á eigin kostnað og fá svo að æfa í eins og sex vikur, sex daga vikunnar fyrir 300.000 króna heildarverktakagreiðslu.“
Ungar söngkonur hafa þann kost að fara á samning í óperuhúsi erlendis og búa kannski í einhverri lítið spennandi borg í Þýskalandi eða annars staðar langt frá fjölskyldu og vinum til þess að geta starfað við það sem þær hafa menntað sig til og sýnt afburða hæfileika og afburða þrautseigju. Þær hafa lagt fram óendanlega vinnu og natni í að meðaltali 10 ára nám til að komast á þennan stað. Það er ekki sjálfgefið að alla dreymi um að búa í útlöndum. Svo geta þær 20 árum síðar þurft að standa í því að sækja fyrir rétti að ekki megi gera samninga undir taxta, og eiga um það umræður í réttarsal hvort virða beri hvíldartíma samkvæmt FÍH samningum og hvort sá tími sem þær eru boðaðar í hár og förðun af óperuhúsinu sé utan vinnutíma eða ekki; eitthvað sem er innan vinnutíma í leikhúsum, kvikmyndum, sjónvarpi og hjá sýningarfólki.
Hér eru hundruð sem leggja stund á söngnám. Tugir í háskólum erlendis. Íslendingar hafa átt afburðafólk á þessu sviði alla tíð og fjöldi íslenskra söngvara hafa varið sinni starfsævi erlendis. Það er ekki því að kenna að hér vanti sérþekkingu, þeir söngvarar sem hafa kosið að búa hér eru við önnur störf.
Um leið og ég óska Álfheiði til hamingju með glæsta frammistöðu spyr ég mig — hvað hefur gerst hjá söngvurum á Íslandi? Ekki er þetta svona í nágrannalöndunum. Mín von er að þessi staða batni og framtíð söngvara og óperu á Íslandi sé björt. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess. En til þess þurfa líka söngvarar að sýna samtakamátt.
Athugasemdir