Meðlimur í hópnum Coviðspyrnan, hóp sem stofnaður var til að „skipuleggja viðspyrnu gegn öfgafullum og skaðlegum aðgerðum yfirvalda gegn Covid“, dreifir ráðleggingum um hvernig hægt sé að komast undan grímuskyldu.
„Ég hitti engan lækni, hringdi bara í heilsugæslu og bað um að tala við lækni út af vottorði. Sótti það samdægurs. Svo já, allir geta fengið þetta. Og þetta virkar. Búinn að fara á marga staði og prófa,“ skrifaði maðurinn í ummælum undir færslu sem hann setti inn í hópinn. Upphafsinnleggið var mynd af læknisvottorði sem undanskilur hann grímuskyldu.
Fleiri vilja fá vottorð
Þegar ummæli við færsluna eru skoðuð má sjá að maðurinn lætur meðlimi hópsins vita hvar hann hefur prófað að ganga inn grímulaus með vottorð. Nokkrir meðlimir segjast ætla að útvega sér slíkt vottorð sjálfir.
„Á dagskrá mánudagsins að fá vottorð fyrir alla fjölskylduna,“ skrifaði einn þeirra.
„Ég ætla að hringja í mína heilsugæslu og fá mér svona,“ skrifaði annar.
Einn meðlimana stakk upp á að meðlimir hópsins myndu ganga saman inn í verslun grímulaus til að „sýna hinum hvernig lífið var „fyrir“ Covid“.
Mælti með aðferðum til að fá vottorð
Þá voru gefnar ráðleggingar um það hvað sé best að segja við lækni, vilji maður verða sér út um vottorð. „Veit að í Þýskalandi hefur virkað vel að tala um að maður hafi lent í því að reynt hafi verið að kæfa mann og gríman fái mann til að endurupplifa það,“ benti einn meðlimurinn á.
Maðurinn sem um ræðir sagði hins vegar við sinn lækni að gríman ylli honum kvíðaköstum, innilokunarkennd og öndunarerfiðleikum.
Einn meðlimur sagðist ætla að verða sér út um vottorð og vonaðist til þess að hann myndi hitta á „góðan lækni.“ Maðurinn benti honum þá á að „útlenskir eru skilningsríkari af þeim sem ég hef heyrt um vottorðið.“
Athugasemdir