Þetta hefur verið vendilega útskýrt fyrir Íslendingum allar götur síðan orð Hayeks kom til Hannesar Hólmsteins. Þannig var þeim kennt að með þessari efnahagsstefnu yrðu öll fyrirtæki mun betur rekin og þeim betur við haldið, því hver maður sæi best um það sem hann ætti sjálfur, hann tryggði að reksturinn væri sem hagkvæmastur, ekkert rýrnaði í verði og ekkert færi til spillis. Vitanlega færi gróðinn í vasa eigandans sem yrði þá vellríkur, en það væri hagstætt fyrir þjóðfélagið í heild, þá sykkju peningarnir ekki í spillingarhít ríkisbáknsins og skrifstofuveldisins og færu heldur ekki í „afætur“. Þess í stað myndu þeir sáldrast yfir allan almenning samkvæmt kenningunni um „molana af borðunum“, allir yrðu í rauninni ríkir. Með þessu væri jafnframt hægt að losna undan fargi velferðarþjóðfélagsins, sem hefði með sinni „forsjárhyggju“ og „ríkisstyrktu fátækt“ dregið úr mönnum alla framtakssemi, þjóðfélaginu til mikils tjóns.
Svo virðist sem þessu hafi verið nokkuð almennt trúað um skeið; eins og þjófar á nóttu náðu frjálshyggjupostular, því „andlega valdi“ sem Gramsci taldi ekki síður mikilvægt í þjóðfélaginu en pólitíska valdið. Væri afskaplega fróðlegt að vita betur hvernig það gerðist. Því fór svo að farið var að hrinda þessari stefnu í framkvæmd á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og því haldið áfram allt til þessa dags. Þess vegna má segja að nú sé kominn tími til að skoða árangurinn, velta því sem sé fyrir sér hvernig hún hafi reynst í framkvæmd og hvaða ályktanir megi af því draga.
Ein róttæk breyting hefur nú orðið. Frjálshyggjupostularnir eru búnir að missa úr höndum sér „andlega valdið“ – þótt þeir kæri sig sennilega kollótta um það meðan þeir hafa pólitíska valdið óskert. Kannske varð Thomas Piketty einna fyrstur til að setja undirstöður frjálshyggjuþjóðfélagsins undir smásjá svo eftir því væri tekið víða um lönd, en fleiri og fleiri riðu á vaðið beggja vegna Atlantshafsins og nú er varla hægt að telja þau rit sem taka frjálshyggjuna á beinið. Í Frakklandi hafa jafnframt breiðst út mótmæli meðal almennings, þau hófust meðal „gulstakka“ sem mönnum er vel kunnugt, og fara nú hátt á þessum tímum veirunnar krýndu, þegar það dylst engum hvernig ástatt er í heilbrigðismálum landsins eftir þriggja áratuga frjálshyggju.
Um þessi mál er rætt frá ýmsum hliðum, en ein bók verður að teljast sérlega markverð því þar er fjallað um sjálfan kjarna málsins, einkavæðingarnar, rakin er saga þeirra í Frakklandi frá upphafi frjálshyggjunnar og afleiðingarnar skoðaðar. Bókin, sem var að koma út í þessu, er eftir þekktan rannsóknarblaðamann, Laurent Mauduit að nafni, og ber titilinm „Prédations“, sem kannske mætti útleggja sem „Ræningjahætti“, þótt orðið vísi einkum til rándýra.
Til að skilja atburðina er rétt að fara aftur í tímann og líta á sögu velferðarþjóðfélags í Frakklandi, sem er að vísu að miklu leyti hliðstæð því sem gerðist á sama tíma annars staðar á Vesturlöndum. Upphaf þess má rekja til „Alþýðufylkingarinnar“ 1937, þegar sósíalistar komust til valda með stuðningi kommúnista. Þá var tekinn upp vísir að velferðarstefnu svipað og í Svíþjóð og Bandaríkjunum en þó ekki gengið eins langt, einkum voru þá sett lög um vinnutíma og launuð leyfi, sem gerðu verkamönnum Parísar kleift að fara í nokkurra daga hjólreiðartúr út fyrir borgarmörkin í fyrsta skipti, eins og sjá má í kvikmyndum frá þeim tíma. Jafnframt voru járnbrautir Frakklands þjóðnýttar og skipti það verulegu máli fyrir framtíðina, þótt á þeim tíma hafi þetta fyrst og fremst snúist um að þjóðnýta skuldir. En út af þessum lögum um launuð sumarleyfi og annað slíkt fóru hægri menn samstundis í skotgrafahernað, án miskunnar, og eftir smánarlegar hrakfarir Frakka í heimsstyrjöldinni vorið 1940 var „Alþýðufylkingunni“ kennt um, hún hefði gert franska alþýðu „lata og værukæra“ svo hún hefði ekki nennt að berjast. Þetta var hentugt til að breiða yfir getuleysi – og viljaleysi – hersins, sem hafði lagt niður skottið um leið og sást til Þjóðverja.
Næsta og langmikilvægasta sporið í mótun franska velferðarþjóðfélagsins var svo stigið eftir ósigur Þjóðverja vorið 1944. Meðan andspyrnuhreyfingin var enn neðanjarðar í hernáminu kom ráð hennar saman á leynifundi. Þar voru menn sammála um eitt: enginn vildi snúa aftur til þess þjóðfélagsástands sem var við lýði fyrir heimsstyrjöldina með allri sinni fátækt og óréttlæti. Þessi tilfinning var sterk víða í Evrópu, ekki síst í Englandi, og leiddi þar til kosningasigurs Verkamannaflokksins 1945. Franska andspyrnuráðið samdi síðan stefnuskrá, og um leið og landið var orðið sjálfstætt var tekið til við að framkvæma hana, fyrst undir stjórn de Gaulle, sem þó hafði aldrei orð á sér fyrir að vera sósíalisti. Það voru róttæk umskipti, sett var á fót umfangsmikið tryggingakerfi og miklar þjóðnýtingar voru framkvæmdar. Það sem hér skipti sköpum var að nú var sett í öndvegið hugmyndin um „opinbera þjónustu“ sem væri rekin fyrir almenning en ekki ofurseld lögmálum peninganna: póstur, sími, samgöngur, rafmagn og heilbrigðiskerfi flokkaðist undir „opinbera þjónustu“. Um leið var talið sjálfsagt að innviðir ríkisins, vegir, hafnir, flugvellir, símalínur og slíkt, sem stundum er kennt við „náttúrulega einokun“, semsé þar sem samkeppni verður illa við komið, væri í eigu hins opinbera.
Þegar þessa ráðstafanir voru gerðar sóru helstu kapítalistar landsins og sárt við lögðu að afnema þær allar eins og þær legðu sig, en þeim var óhægt um vik því þeir voru rúnir allri æru eftir undirlægjuháttinn undir Þjóðverja á stríðsháttunum. Sumar „þjóðnýtingarnar“ voru í raun eignaupptaka hjá mönnum sem höfðu verið dæmdir fyrir föðurlandssvik. De Gaulle hafði líka mestu skömm á kapítalistum sem hann taldi „óþjóðrækna“ og byggði það á eigin reynslu. Semsagt, það ríkti nokkuð almenn eining um þessa nýju þjóðfélagshætti. Margir vildu einungis bæta velferðarþjóðfélagið enn. Kapítalistar urðu að sætta sig við að stór hluti þjóðlífsins væri úr seilingarfjarlægð, hann væri einfaldlega ekki í þeirra verkahring.
En kapítalistarnir gleymdu engu og lærðu ekkert, og það fór lýðum að verða ljóst þegar frjálshyggjumenn voru teknir við stýrinu. Víkur þá sögunni til ársins 2007. Það ár birti einn af forsprökkum franskra vinnuveitenda hástemmda yfirlýsingu í tímariti þeirra, undir tæpitungulausri fyrirsögn: „Bless 1945, tengjum land vort við heiminn“. Og svo sagði hann:
„Af þeim tilkynningum sem gefnar hafa verið hver eftir aðra um ýmislegar umbætur gætu menn haldið að um einhvers konar reyting sé að ræða, svo ólíkar eru þær, svo mismikilvægar og svo misvíðtækar. En ef nánar er að gáð má sjá að í þessari metnaðarfullu dagskrá er djúpstæð eining. Listinn yfir umbæturnar? Það er einfalt mál: takið allt sem sett var á fót milli 1944 og 1952, án undantekninga. Þar er listann að finna. Nú er um það að ræða að komast burt frá árinu 1945 og afnema á kerfisbundinn hátt allt það sem Ráð andpyrnuhreyfingarinnar hafði á sinni dagskrá!“
Út af þessum orðum varð nokkur hvellur, en ekki er víst að á þessum tíma hafi margir gert sér fulla grein hvað í þeim fólst. Nú settu frjálshyggjumenn markið mun hærra en fyrirrennarar þeirra höfðu áður gert, nú vildu þeir ekki aðeins einkavæða innviði samfélagsins, svo sem flugvelli og járnbrautarstöðvar heldur líka einkavæða það sem mönnum hafði komið saman um að væri „opinber þjónusta“ eða kannske fyrst og fremst „peningavæða“ hana, leggja hana undir lögmál peningavaldsins og afnema hana í raun. Af ásettu ráði var farið hægt í sakirnar, til að koma í veg fyrir að almenningur rankaði við sér. Þess vegna er þessi saga flókin á köflum.
Einstaka sinnum er hún þó einföld, dæmi um það er einkavæðing flugvallarins í Toulouse árið 2014, að undirlagi Macrons sem þá var nýorðinn fjármálaráðherra. Kannske var þessi flugvöllur valinn í tilraunaskyni því hann er langt frá París og ekki líklegt að Parísarbúar hefðu mikinn áhuga á honum og gerðu einhvern hvell. En fyrir íbúa í Toulouse og nágrenni var hann í hæsta máta mikilvægur, þar í sveit höfðu yfirvöld lagt í hann mikið fé og vildu ekki missa tökin á samgöngutæki sem stuðlaði að velgengni héraðsins. Í liði með þeim voru forsprakkar flugvélasmiðjunnar Airbus sem var þar í grenndinni og harla mikilvæg fyrir staðarbúa. Við þetta bættist enn að í tengslum við þennan flugvöll eru ýmis umhverfisvandamál, sem einungis opinberir aðilar geta vélað um. Mótmælin urðu því hávær. En Macron hélt við sinn keip, eins og það væri honum kappsmál persónulega, hann afhenti félagi að nafni Casil 49,9 af hundraði í flugvellinum, fyrir 308 milljónir evra. Casil þetta var í eigu Kínverja undir forystu Mike nokkurs Poons ólígarks. Gagnrýnin fór hækkandi, en Macron svaraði fullum hálsi, þetta væri sko alls engin einkavæðing, þar sem Casil væri í minnihluta. Síðar kom þó í ljós að Macron hafði gert leynisamning við Kínverjana, þar sem hann tryggði þeim full yfirráð yfir stjórn fyrirtækisins. Hann hafði semsé logið. Casil var neðsta hæðin í risastórum pýramída sem var að hluta til hulinn skýjum, en hafði sínar stöðvar á hinum víðfrægu Jómfrúareyjum. Hinn gruggugi Mike Poons átti þar stóra hluti. Macron hafði allar ástæður til að vara sig.
Næsti þátturinn í þessari sögu var að ólígarkinn Mikle Poons, sem var nú í gegnum Casil og fleiri fyrirtæki orðinn hæstráðandi yfir flugvellinum, hvarf skyndilega og enginn vissi hvar hann var að finna. Kínversk blöð létu þess einungis getið að hann væri í tugthúsi einhvers staðar í Miðríkinu fyrir eitthvert óskilgreint svindlbrask. En hinir nýju eigendur létu þó skammt stórra högga á milli, einu og hálfu ári eftir að hafa keypt flugvöllinn tilkynntu þeir að þeir ætluðu að skammta sjálfum sér 40 milljónir evra í arð. Hagnaðurinn af flugvellinum í Toulouse var um 5 milljónir evra á ári, en fyrri eigendur, ýmsir opinberir aðilar, höfðu tekið upp þá stefnu að greiða aðeins helmimg þessa fjár í arð, en geyma hitt fyrir frekari framkvæmdir. Þegar hér var komið sögu, átti flugvöllurinn því 67 milljónir evra í sjóði, og ætluðu hinir nýju eigendur semsé að skammta sér ekki aðeins allan hagnaðinn heldur líka helmingnum af fjáreignum vallarins. Samkvæmt leynisamningnum gátu hin 50,01 af hundraði ekkert gert. En hvellurinn varð nú svo mikill – ekki síst fyrir þá sök að Kínverjarnir höfðu sagst vera sérlega ábyrgir í stjórn og horfa stöðugt til framtíðarinnar – að þeir urðu að lækka arðgreiðsluna niður í 30 milljónir. Nokkrum mánuðum síðar gengu þeir samt lengra og samþykktu að greiða sér sjálfum 16,2 milljónir evra í arð. Fulltrúar ríkisins gátu enn ekkert að gert, enda var Macron þá í opinberri ferð í Kína sem ekki mátti trufla.
Í skýslu sem yfirvöld í héraðinu létu gera stóð: „Síðan Casil gerðist hluthafi árið 2015 hefur það ekki linnt látum við að dæla upp úr varasjóðum flugvallarins með það eitt að markmiði að hagnast strax, án þess að taka nokkurt tillit til þróunar félagsins til lengri tíma og án þess að skeyta um almenna hagsmuni héraðsins.“
Þessi einkavæðing var kærð, og dómstóll dæmdi hana ólöglega. Það hefði orðið reiðarslag fyrir Macron, en æðri dómstóll kom honum til bjargar og sneri þeim úrskurði við. Nokkru síðar seldu Kínverjarnir franskri samsteypu flugvöllinn fyrir 500 milljónir evra og höfðu þá 192 milljónir upp úr krafsinu (fyrir utan arðinn sem þeir höfðu skammtað sér). Þeir höfðu átt hann í tæp fjögur ár, og ekki annað gert en hirða allt sem þeir gátu sett fingurna í. Þessi álappalegi leikur kom þó ekki í veg fyrir að farið væri að einkavæða fleiri flugvelli, og síðast var á dagskrá að einkavæða flugvelli Parísar (þeir eru þrír auk smærri flugvalla: Charles de Gaulle, Orly og Le Bourget). Mótmælin risu nú fjöllunum hærra, en sennilega hefði þetta komist nokkuð fljótlega í framkvæmd ef veiran krýnda hefði ekki sagt skyndilega: Stop! Sennilega er hugmyndin þó geymd en ekki gleymd.
Dæmi af þessu tagi – og þau eru mörg, t.d. mætti nefna einkavæðingu frönsku hraðbrautanna, sem enginn treystir sér lengur til að verja – blása burt þeim kenningabólum sem þenjast út á skýjum uppi í himinblámanum. En einkavæðing annarrar þjónustu, sem menn álitu yfirleitt að ætti að heyra undir ríkisvaldið, er þó enn verra mál og enn óvinsælla, og því er hún vafin inn í ýmislega feluleiki, jafnvel hreinar lygar. En feluleikirnir fylgja ákveðnu ferli. Fyrst er farið að fjársvelta viðkomandi þjónustu, og gegnir það tvenns konar hlutverki, annað er að telja almenningi trú um að ríkisrekstur sé ævinlega í ólestri og fá hann til að sætta sig smám saman við einkarekstur, sem sé þó minna böl, en hitt er að fella niður þann kostnað sem hlýtur að fylgja opinberri þjónustu, sveigja stofnunina undir lögmál peninganna og gera hana girnilegri fyrir væntanlega kaupendur. Á þessu stigi er heilbrigðiskerfið enn, þótt ýmis elliheimili séu einkafyrirtæki, rekin í gróðaskyni, eins og kom óþyrmilega í ljós þegar gamalt fólk fór að hrynja niður út af veiru og hirðuleysi (á þeirri stundu ætluðu eigendur að borga sér háan arð, en voru reknir á flótta). Næsta stigið er að skipta stórum stofnunum í smærri einingar sem eru sjálfstæðar og jafnvel í samkeppni hver við aðra þó þær séu enn í eigu ríkisins. Þessu fylgja ævinlega yfirlýsingar um að þetta sé einungis hagræðing og alls ekki einkavæðing – það orð tekur Macron sér reyndar aldrei í munn nema kannske þegar hann er að sverja allt slíkt af sér. Á þessu stigi er nú póstþjónustan, elsta opinbera þjónusta Frakklands sem Hinrik konungur fjórði stofnsetti árið 1603. Þar er unnið fast að því að gera hana arðvænlega með því að leggja niður það sem „borgar sig ekki“, svo sem pósthús í smábæjum, og með því að breyta pósthúsum annars staðar í glingursölur. Annað dæmi er járnbrautarkerfið, þar sem ferðir geta verið flóknar því hinar ýmsu lestir eru ekki reknar af „sama fyrirtæki“. Lokastigið er svo einkavæðing sem felur í sér að allt sé nú endanlega sveigt undir lögmál peninganna. Dæmi um það er síminn, France-telecom, þar sem miskunnarlaus harka hinna nýju yfirmanna hratt af stað sjálfsmorðabylgju.
Einu sinni í fyrndinni var Einar Olgeirsson að útlista fyrir mér deilur sósíaldemókrata og kommúnista og lagði þá hinum síðarnefndu í munn svofellda ræðu: „Þið ætlið að koma á sósíalisma með lýðræðislegum aðferðum og án byltingar, og má svo sem vel vera að þið komist vel á veg með það. En ef horfur eru á því að ykkur takist þetta, þá verður það auðvaldið sem gerir byltingu móti ykkur.“ Í munni Einars virtist þetta vera sagnfræði, ég sá ekki að hann tryði þessu sjálfur, frekar en menn yfirleitt á þessum tíma, þegar velferðarþjóðfélagið var að eflast. Sennilega voru þeir færri sem trúðu því í raun að „auðvaldið“ myndi gera byltingu. En nú hefur það gerst.
Athugasemdir