Stundin sendir út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Að þessu sinni mun rithöfundurinn Lilja Sigurðardóttir lesa upp úr nýútkominni skáldsögu sinni, Blóðrauður sjór, og ræða um hana við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, bókmenntafræðing og leikkonu.
Streymið hefst í dag kl. 12:15 og er aðgengilegt á Facebook-síðum Stundarinnar og Menningarhúsanna í Kópavogi. Upptaka verður tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið. Streymið má nálgast hér.
Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Lilja Sigurðardóttir rithöfundur les upp úr nýútkominni glæpasögu sinni, Blóðrauður sjór, og ræðir verkið við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, bókmenntafræðing og leikkonu. Viðburðurinn verður sendur út á Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi miðvikudaginn 28.10. kl 12:15.
——————
Um Blóðrauðan sjó eftir Lilju Sigurðardóttur:
Þegar athafnamaðurinn Flosi kemur heim í kvöldmat er allt á rúi og stúi en Guðrún kona hans horfin. Á eldhúsborðinu bíður bréf um að henni hafi verið rænt og ef Flosi greiði ekki himinhátt lausnargjald verði hún drepin. Hann má ekki leita til lögreglunnar en eftir krókaleiðum kemst hann í samband við Áróru, sem vinnur við að finna falið fé, og Daníel rannsóknarlögreglumann.
Án þess að nokkuð spyrjist út reyna þau í sameiningu að átta sig á hvað hefur gerst. Getur verið að ránið á Guðrúnu tengist alþjóðlegri glæpastarfsemi og peningaþvætti – eða er skýringin ef til vill mun nærtækari?
———————-
Menning á miðvikudögum verður næstu vikurnar helguð umfjöllun um nýútkomnar bækur - fram koma Auður Ava Ólafsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Lilja Sigurðardóttir, Ófeigur Sigurðsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Vilborg Davíðsdóttir. Maríanna Clara Lúthersdóttir ræðir við höfundana sex á Bókasafni Kópavogs.
Þættirnir verða sendir út á miðvikudögum kl. 12:15 í gegnum Facebook-síðu Menningarhúsanna.
Athugasemdir