Nú liggur fyrir frumvarp um lengingu og skiptingu fæðingarorlofs. Komið hafa fram misjafnar skoðanir á því frumvarpi, allt frá því að fagna lengingu orlofsins yfir í háværa gagnrýni á það að einungis einn af þessum mánuðum sé framseljanlegur milli foreldra. Slíkar skoðanir endurspegla viðhorf og áhyggjur fólks sem lifir í algengasta fjölskylduforminu við fæðingu barns, tveir foreldrar og barn. En það er ekki eina formið og frumvarp eins og þetta verður að taka með í reikninginn annars konar fjölskylduform og það er gert upp að vissu marki.
Í núverandi lögum er að finna undanþágur frá framsalsréttinum þegar kemur að einstæðum mæðrum og foreldrum sem hafa eignast barn í gegnum ættleiðingu eða tæknifrjóvgun, sem og í tilfellum þar sem foreldri fellur frá eða afplánar fangelsisdóm á fæðingarorlofstímabilinu. Í umræddu frumvarpi er einnig að finna undanþágur ef lögmæt feðrun gengur ekki eftir og ef faðir er í nálgunarbanni eða hefur verið brottvísað af heimilinu. Ég fagna þeim breytingum innilega.
Ég sakna hinsvegar viðlíka undanþágu þegar kemur að einstæðum mæðrum þar sem faðir kýs að taka engan þátt í uppeldi barns síns. Ólíkt þeim foreldrum sem kjósa að ala börn sín ein, samanber, tæknifrjóvgun og ættleiðingu, búa konur í þessum aðstæðum oft og tíðum ekki við það val. Einstæð móðir og barn fá einungis 7 mánuði saman og við tekur svo dýr og erfið barátta við að brúa bilið fram að leikskóla. Ég tel að með því að veita enga undanþágu framsalsréttar fyrir þetta fjölskylduform (einstæð móðir og barn) sé verið að setja þennan hóp í ákveðna áhættu hvað varðar skuldasöfnun og fátækt þar sem að einstæð móður á ekki rétt á nema 7 mánuðum í fæðingarorlofsgreiðslur, auk þess sem barn sem fæðist inn í þessar aðstæður fær mun minni tíma með sínu foreldri.
„Ég skora á barnamálaráðherra að hunsa ekki þennan hóp“
Í fyrsta lagi er mjög takmarkað framboð af dagvistunarúrræðum fyrir 7 mánaða gömul börn. Ungbarnadeildir leikskóla taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri og einstæðar mæður eru ekki forgangshópur um slík pláss (nema þær séu með 3 börn á framfæri og það elsta sé yngra en 9 ára). Hitt úrræðið eru dagforeldrar, þar fá einstæðir foreldrar vissulega niðurgreiðslu frá 6 mánaða aldri en raunveruleikinn er hinsvegar sá að ekki er hlaupið að því að fá pláss hjá dagforeldrum og einstæðir foreldrar hafa engan forgang þar.
Hversu mörg 7 mánaða börn hafa farið í næturpössun?
Á einum stað í frumvarpinu er minnst á einstæða foreldra sem ekki eru lögheimilisforeldrar og þar stendur „að ítrekaðar kannanir meðal foreldra sýni að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé sérstaklega mikilvægur þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili en stór hluti feðra sem deili ekki lögheimili með börnum sínum nýti sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.“ Mér leikur forvitni á að vita hvernig barnamálaráðherra hyggst framkvæma þennan hluta laganna. Gefum okkur dæmi þar sem foreldrar eru ekki í sambandi eða sambúð og samskipti eru lítil. Hefur barnamálaráðherra séð fyrir sér að í þessum tilvikum flytjist barn búferlum til föðurs við 7 mánaða aldur, jafnvel án þess að hafa verið í miklum samskiptum fram að því? Fyrir hvern yrði slíkt fyrirkomulag? Ef gerð væri óformleg könnun á því hversu mörg 7 mánaða gömul börn foreldra í sambúð hefðu farið í næturpössun á þessum aldri kæmi mér ekki á óvart ef sú tala væri í lægri kantinum, svona til samanburðar. Ef barnamálaráðherra er ekki tilbúinn að veita undanþágur um framsalsrétt í tilfellum eins og lýst er hér að ofan, þarf útfærslan að vera skýr og byggð á rannsóknum um áhrif slíks fyrirkomulags á ungabarn.
Mér finnst í raun nokkuð umhugsunarvert hvers vegna það er hvergi minnst á þennan hóp einstæðra mæðra í frumvarpinu því hann er vissulega til. Líklegast telur hann ekki margar fjölskyldur en öll eru þau jafn mikils virði og aðrir þjóðfélagsþegnar. Ég skora á barnamálaráðherra að hunsa ekki þennan hóp, heldur búa til einhverja leið til þess að börn þessara einstæðu mæðra njóti sömu réttinda og börn sem fæðast inn í algengari hjúskaparform.
Athugasemdir