Ég er haustbarn. Fædd að hausti, lifna öll við að hausti. Ég er græneygð, hárið með koparslikju, ég gat aldrei verið neitt annað en haustbarn (og líklega með keltneskar rætur en ég læt það liggja á milli hluta hér). Fyrir mér hafa hin eiginlegu áramót alltaf verið mánaðamótin ágúst-september. Alveg eins og vikan byrjar víst á mánudegi, þótt dagatölin vilji enn meina eitthvað annað.
Þegar ég var lítil var það þá sem endingargóðar mjólkurvörur skörtuðu skyndilega afmælisdeginum mínum. Þá sem ég keypti nýtt strokleður sem ilmaði eins og garðslanga og wunderbaum hefðu eignast afkvæmi. Þá sem laufin gulnuðu og söfnuðust í hrúgur á göngustígunum og það varð miklu auðveldara að ímynda sér að maður væri Anna í Grænuhlíð eða eitthvað annað passlega þjakað andlegt skyldmenni hennar úr bókmenntunum.
„Auðvitað var það ekki bara loforð um afmælisköku og nýir blýantar sem kveiktu hausteldinn í brjósti mér“
Ég vissi það ekki þá en auðvitað var það ekki bara loforð um afmælisköku og nýir blýantar sem kveiktu hausteldinn í brjósti mér, auðvitað var það líka þessi litfagra melankólía sem ég kunni ekki að nefna þá. Haustið er memento mori, hjá því verður ekki komist, það hvíslar forgengileikanum í eyra okkar á göngu í rökkrinu eða tærri birtunni sem haustið eitt kann uppskriftina að.
Og ég tek því fagnandi, kannski alveg sérstaklega í ár. Eftir árið sem nú er liðið, með ferðalögum fyrir mína parta, áður en þau heyrðu sögunni til, verkföllum, kófi, vormaníu, frelsissumri og síðsumarbrotlendingu er haustið velkomið. Kærkomið. Það er áminning til mín um að hægja aftur á, horfa á laufin sigla hjá glugganum og muna að hið sama bíður okkar allra einn daginn, og því er ekkert annað að gera en reyna að njóta þess sem dagurinn færir okkur. Líka hins kyrrláta, líka hins smáa, líka þess sem rökkrið býður okkur. Og lesa ljóð. „Hauströkkrið yfir mér / kvikt af vængjum“ orti Snorri Hjartarson og ef ég tek mér tíma til að hlusta heyri ég vængjasláttinn.
Athugasemdir