Fylgi Vinstri grænna (VG) mælist minna en það hefur gert síðustu fjögur árin í nýjustu skoðanakönnun MMR.
8,5% aðspurðra sögðust ætla að kjósa flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í könnuninni sem gerð var dagana 10. til 23. september, niður úr 9,6% í könnun sem kynnt var í byrjun septembermánaðar.
Vinstri græn eru sá flokkur sem tapað hefur langmestum stuðningi frá alþingiskosningunum 2017 þegar flokkurinn fékk 16,9% fylgi, eða 8,4 prósentustigum, sem nemur tapi á um helmingi kosningafylgisins.
Fylgi Vinstri grænna mældist síðast lægra í mars 2016, þá 7,8%, þegar Píratar mældust með 37% fylgi, en þar áður þarf að leita aftur til loka ríkisstjórnartíðar Samfylkingar og Vinstri grænna, 9. apríl 2013, til að finna minni stuðning við VG.
Þess ber að geta að VG mældist með 12,6% fylgi í annarri könnun, Þjóðarpúlsi Gallups, í lok ágúst.
Sá flokkur sem bætir mestu við sig frá kosningum, miðað við könnunina sem kynnt var í dag, eru Píratar, sem nú mælast næst stærsti flokkur landsins. Þeir fengu 9,2% fylgi í kosningum en mælast nú með 15% fylgi, tæplega 6 prósentustigum meira en kosningafylgi og hlutfallslega 63% meiri stuðning en 2017.
Stuðningur við Samfylkinguna fellur um tvö prósentustig á milli kannana en Miðflokkurinn bætir við sig 2,8 prósentustigum og nýtur sama stuðnings og í síðustu alþingiskosningum.
Flestir, eða 25,6%, styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem er 0,4 prósentustigum ofar kjörfylgi. Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mælist 51% og er það mun meiri stuðningur en við síðustu fjórar ríkisstjórnir þar á undan.
Tveir þingmenn VG hafa sagt sig úr flokknum eftir að stofnað var til ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Í síðustu viku tilkynnti Rósa Björk Brynjólfsdóttir um úrsögn sína eftir fund með formanninum, Katrínu Jakobsdóttur.
Næstu alþingiskosningar verða haldnar eftir rétt rúmt ár, eða 25. september 2021.
Athugasemdir