FEB, Félag eldriborgarar í Reykjavík, hélt aðalfund félagsins á Hótel Sögu 16. júní 2020. Fundurinn var mjög fjölmennur og fór vel fram. Samþykkt var ályktun sem fékk nafnið „Nú duga ekki lengur orðin tóm“ og vonandi var hún send út til stjórnvalda og þeirra sem hafa með málið að gera, en ekkert hef ég heyrt um að ráðamenn hafi svarað FEB. Ég ætla að birta þessa ályktum hér og vona að ekki þurfi leyfi frá FEB til þess. En þessi ályktun er svohljóðandi:
„Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um. Á tímabilinu 2010-2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessa tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þús. kr. á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerfi markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öflun viðbótartekna. Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg. Aðalfundur FEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hefja vinnu við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.“
Tilvitnun líkur. Nú vitum við að ekki er gott ástand í landinu í Covid kreppu. En það er ekkert nýtt fyrir eldri borgara, því ástand í þjóðfélaginu er alltaf í kreppu þegar þeir hafa farið fram á leiðréttingu sinna kjara. Það hljómar einkennilega í eyrum okkar sem treystum á þau smánarlaun sem ellilaun eru, að heyra í sífellu að það sé ekki hægt að lifa á lægstu launum sem eru 335.000 kr. á mánuði en ellilífeyririnn er fyrir skatt eða 256.789 kr. á mánuði og eftir skatt 221.438 kr. En ef ellilífeyrisþeginn hefur greiðslu frá lífeyrissjóði sem er hærri en 25.000 kr. á mánuði byrjar skerðingin. Sé lífeyrissjóðsgreiðslan 55.000 kr á mánuði skerðist ellilífeyririnn og verður 196.000 kr. á mánuði. Ef ekki er hægt að lifa á 335.000 kr. á mánuði hvernig stendur þá á því að ef viðkomandi hefur náð 67 ára aldri er það að mati ríkisstjórnarinnar vel hægt og ekki er einu sinni um það fjallað? Ef sá hinn sami sem kominn er yfir 67 ára aldurinn og vill reyna að verða sér út um smá launauppbót með aukavinnu, eru ellilaunin hans skert. Að vísu má ellilífeyrisþegi vinna sé inn 100.000 kr. á mánuði áður en að skerðingu kemur en hver er sú vinna sem er svo illa launuð.
Annað finnst mér undarlegt, þegar ríkisstjórnin talar um að Íslendingar verði að eyða meiri peningum í hagkerfið og versla meira þá nær það greinilega ekki til ellilífeyrisþega því hver maður getur séð að 221.438 kr. eða 195.000 kr. á mánuði nægir ekki til framfærslu hvað þá heldur til að leyfa sér einhvern munað. Það hlægilega við ríkisstjórnina er að þeir segja að landinn, þjóðfélagsþegnarnir verði að versla og láti eftir sér, eyða peningum á Íslandi en skilja ekki að það eru einmitt eldri borgarar sem mundu gera það ef þeir hefðu ríflegri fjárhag, sem líka gæti komið í því formi að leyfa þeim að vinna fyrir sér á meðan þeir geta það án þess að skerða ellilaunin þá fengið ríkið skatttekjur af þeim aukakrónum. Það sér það hver meðal greindur maður að þetta kerfi er vitlaust og hjálpar engan veginn eldri borgurum né ríkiskassanum en samt er þessu haldið til streitu og ekki lagfært og ekki minnst á það í dag þegar verið er að ræða um að hækka verði lægstu laun og atvinnuleysisbætur því ekki geti nokkur lifað af 335.000 kr. á mánuði.
Önnur ályktun var samþykkt á áðurnefndum fundi hjá FEB og var það að fara í mál við ríkið og er það komið í gang en því miður mun ég ekki sjá það mál unnið eða tapað sökum aldurs.
Athugasemdir