Fyrri aukaspurningin: Hvað er að gerast á myndinni hér að ofan?
Sú seinni er eiginlega eftirhreytur frá spurningum um daginn um þjóðfána. Hver er sem sé fáninn hér fyrir neðan?
En aðalspurningarnar eru þessar:
1. Jurt ein hér á landi er kölluð „kattarauga“ en er þó enn þekktari undir öðru nafni. Hvað er það?
2. Hvað hét yfirmaður hinna þýsku SS-sveita?
3. Árið 1917 keyptu Bandaríkjamenn nokkrar eyjar í Karíbahafi sem Evrópuríki eitt hafði haldið sem nýlendu í rúmar tvær aldir og meðal annars stundað þar umfangsmikið þrælahald um tíma. Nú kallast eyjarnar Bandarísku jómfrúreyjar. Hvaða Evrópuríki hafði áður haft eyjarnar sem nýlendu?
4. Þýskaland fór fremur seint að sækjast eftir nýlendum í Afríku, en lét loks til skarar skríða og sex Afríkulönd nú á dögum eru að meira eða minna leyti fyrrverandi þýskar nýlendur. Nefnið að minnsta kosti eitt þessara landa.
5. Hvað heitir næst stærsta borgin í Svíþjóð á eftir höfuðborginni Stokkhólmi?
6. John Simon Ritchie hét tónlistarmaður sem spilaði í einni frægustu hljómsveit heims rétt upp úr 1975. Hann var kunnur fyrir róstusamt líferni og var grunaður um að hafa stungið unnustu sína til bana. Hann lést síðan eftir ofneyslu eiturlyfja aðeins 21s árs að aldri. Ritchie er reyndar miklu þekktari undir öðru nafni - viðurnefni sem hann tók sér þegar hann gekk til liðs við hljómsveitina fyrrnefndu. Hvað var hann kallaður?
7. Hver lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni „Kona fer í stríð“?
8. Árið 827 gerðu hersveitir Araba og Berba innrás á Sikiley frá Norður-Afríku undir forystu Asad ibn al-Fura og þær náðu hluta eyjarinnar á sitt vald. Tæpri öld síðar höfðu múslimar náð allri Sikiley á sitt vald, og héldu eyjunni í 250 ár eða svo. Seint á 11. öld voru þeir burt reknir af innrásarliði Normanna. En þótt múslimar yrðu að halda á brott, þá skildu þeir eftir á Sikiley svolítið sem svo breiddist út um alla Ítalíu og margir halda síðan að sé ítalskt að uppruna. Hvað var það?
9. Vömb, keppur, laki og vinstur. Hvað er þetta?
10. Eitt allra vinsælasta lagið á Vesturlöndum og raunar víðar árið 2019 var „Old Town Road“ sem hefur verið lýst sem kántri-rappi. Hver flutti þetta lag?

1. Gleym-mér-ei.
2. Heinrich Himmler.
3. Danmörk.
4. Kamerún, Tógó, Rúanda, Búrúndí, Tansanía og Namibía.
5. Gautaborg.
6. Sid Vicious.
7. Halldóra Geirharðsdóttir.
8. Pasta. Spagetti telst líka vera rétt.
9. Hólf í maga jórturdýra.
10. Lil Nas X.
Myndin hér efst er brot af frægri ljósmynd sem tekin var á því andartaki þegar næturklúbbaeigandinn Jack Ruby myrti Lee Harvey Oswald, meintan morðingja John F. Kennedys Bandaríkjaforseta árið 1963.
Flaggið er þjóðfáni Kyrrahafseyjaríkisins Vanuatu.
Hér er öll myndin af morðinu á Lee Harvey Oswald.

Athugasemdir